
13. september 2016 samþykkti Alþingi breytingar á starfsskilyrðum landbúnaðar með breytingum á búvörulögum. Tóku lögin gildi 1. janúar 2017.
Töluvert miklar breytingar urðu á starfsumhverfi bænda með tilkomu nýrra samninga. Útgjöld ríkisins til landbúnaðarmála hækkuðu um rúmar níu hundruð milljónir árið 2017 en hafa farið stiglækkandi út samningstímann og verða heldur lægri á síðasta ári samningsins en þau voru á gildistökuári.
Sú breyting varð á að kvótamarkaðir áttu að líða undir lok og við tók innlausn ríkisins. Ríkið hafði þá innlausnarskyldu á greiðslumarki gagnvart þeim sem óska eftir henni á árunum 2017-2019. Innlausnin fór fram með þeim hætti að greiðslumarkshafi fékk greitt tvöfalt núvirt andvirði greiðslna út á greiðslumark (áður A-greiðslna) sem eftir er og Matvælastofnun annaðist innlausn og sölu greiðslumarksins.
Stuðningsforminu var breytt og byggðist upp á fleiri viðmiðum en áður og tekinn var upp stuðningur við framleiðslu á nautakjöti með nýjum hætti. Áfram var stutt við kynbótaverkefni eins og skýrsluhald og ræktunar- og einangrunarstöðvar.
Með samningunum stóð kúabændum, sem og öðrum bændum, til boða styrkir til framkvæmda. Greidd hafa verið framlög vegna nýframkvæmda og endurbóta á eldri byggingum sem varða umhverfi, aðbúnað og velferð gripa. Framlag ríkisins getur numið allt að 40% af stofnkostnaði en hver og einn getur þó ekki fengið meira en 10% af heildarupphæð stuðningsins ár hvert.
Stuðningi til framleiðslu á nautakjöti var ráðstafað annars vegar til einangrunarstöðvar vegna innflutnings á erfðaefni holdanautgripa og hins vegar til að greiða sláturálag á nautakjöt sem uppfyllir tilgreindar gæðakröfur. Þannig var verið að hvetja til aukinnar og bættrar framleiðslu en eins og staðan er í dag þyrfti framleiðsla á íslensku nautakjöti að aukast um fjórðung til að sinna innanlandsmarkaði.
Endurskoðun samninganna 2019
Samningarnir voru settir til 10 ára með tveimur endurskoðunarákvæðum, árin 2019 og 2023. Við endurskoðun er metið hvernig markmið hafa náðst og gangi þau ekki eftir er hægt að bregðast við og stjórnvöld hverju sinni geta lagt fram sínar áherslur. Það var því ekki búið að læsa starfsumhverfi landbúnaðarins í tíu ár, en vissulega mörkuð ákveðin stefna.
Fyrir endurskoðun 2019 héldu Bændasamtök Íslands atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðenda um hvort kvótakerfi í mjólkurframleiðslu skyldi afnumið frá og með 1. janúar 2021. Kosningin var rafræn og alls kusu 493 framleiðendur. Tæplega 90% vilja halda kvótakerfinu en rúm 10% sögðust vilja afnema það. Aðeins tveir völdu að taka ekki afstöðu. Á kjörskrá voru 558 innleggjendur og alls greiddu 493 atkvæði eða 88,35%.
Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda skrifuðu svo undir samkomulag um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar föstudaginn 25. október 2019.
Markmið samkomulagsins er að stuðla að framþróun og nýsköpun í nautgriparækt. Áhersla er lögð á rannsóknir og menntun ásamt sjálfbærari og umhverfisvænni framleiðslu.
Bókun við samkomulagið var svo undirrituð 26. nóvember 2019. Allt efni; samninginn, samkomulagið og bókunina má finna hér að neðan.
Atkvæðagreiðsla um endurskoðunina var sett af stað 27. nóvember og stóð til 4. desember. Samkomulag bænda og stjórnvalda var loks samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða.
„Já“ sögðu 447 eða 76%.
„Nei“ sögðu 132 eða 22,5%.
Níu tóku ekki afstöðu.
Ef aðeins eru teknir þeir sem afstöðu tóku þá var samkomulagið samþykkt með 77,2% atkvæða.
Á kjörskrá voru 1.332 en atkvæði greiddu 588, eða 44,1%.
- Samningur um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar frá 2019.
- Samningur um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar frá 2016.
- Bókun við samkomulag um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 25. október 2019.
- Reglugerð um stuðning í nautgriparækt nr. 348/2022
- Rammasamningur 2021
- Rammasamningur 2016
- Rammareglugerð - Reglugerð um almennan stuðning við landbúnað nr. 1260/2018.
- Búvörulög
- Búnaðarlög
Síðast uppfært 5. júlí 2023.