Alifuglabændur
Deild alifuglabænda gætir hagsmuna félagsmanna gagnvart þriðja aðila. Deildin vinnur að aukinni neyslu afurða félagsmanna með upplýsingagjöf, auglýsingum og öðrum markaðstengdum aðgerðum.
Ferlið
Fyrsta skref í alifuglaeldi er að þrífa og sótthreinsa eldishús áður en fuglarnir koma. Næst er spónum dreift um gólfið og fóður lagt á fóðurpappír til hliðar við vatnslínur til að auka aðgengi unga að ræðu. Bóndi fær unga nýklakta frá útungungarstöð og kemur þeim fyrir í eldishúsi. Þá þarf að hafa lýsingu, hita- og rakastig rétt stillt en það breytist með aldri fugla. Smám saman er hitastig lækkað úr 33° í um 20° í lok eldis. Þegar fuglar fara til slátrunar er mokað út, húsið þrifið og sótthreinsað til að undirbúa næsta eldi.
Velferð og heilnæmi
Byggingar og búnaður á Íslandi standast ströngustu kröfur og hafa bændur verið mjög duglegir að uppfæra og endurnýja búnað í húsum sínum. Reglugerð um velferð og heilnæmi er mun strangari á Íslandi en tíðkast í öðrum löndum. Þéttleiki á húsum er sérstaklega mikill og engin lyf eru notuð eða leyfð í alifuglaeldi á Íslandi. Strangar gæðakröfur eru í gegnum allt ferlið og alifuglar á Íslandi hafa meira pláss en í flestum öðrum löndum. Matvælastofnun (MAST) fylgir eftir reglum um heilnæmi og velferð í alifuglaeldi sem tryggir gæði í framleiðslu.
Alifuglabúskapur á Íslandi
Á sjöunda áratugnum hófst ræktun holdakjúklinga í fyrsta sinn að einhverju marki og kjötið varð brátt eftirsótt á borðum landsmanna. Íslenskir kjúklingabændur hafa í gegnum árin lagt ríka áherslu á velferð kjúklinga á búum sínum. Vegna legu landsins okkar búum við svo vel að geta nánast haldið fuglasjúkdómum alveg niðri. Neysla á kjúklingakjöti hefur aukist gífurlega síðustu ár og framleiðsla þess innanlands einnig í takt við aukna neyslu. Árið 2023 var alifuglakjöt lang vinsælasta íslenska kjötafurðin með 33,7% markaðshlutdeild. Framleiðslan fer fram vítt um landið, árið 2023 var íslenskur kjúklingur alin á 23 bæjum.
Umhverfisvæn búgrein
Á Íslandi er mun minna kolefnisspor af alifuglaframleiðslu en í öðrum löndum.
Í framleiðsluferlinu frá vöggu að dreifingarstöð losna 2,41 kg koldíoxíðsígilda á hvert kg af framleiddu kjúklingakjöti. Meðaltal erlendis er um 4,12 kg koldíoxíðsígilda á hvert kg.
Stærsti hlutinn í kolefnisspori kjúklings liggur í framleiðslu og flutning á fóðri (um 70%).
Þessi losun er minni en í framleiðslu á flestum öðrum dýraafurðum.
Skýrslu Matvælaráðuneytisins um kolefnisspor í matvælaframleiðslu má lesa í heild sinni hér. (Kafli 8)
Tölur
Hitastig eldishúss fer frá 33° í byrjun eldis niður í 20° í lok eldis.
Um 2 kg af fóðri þarf til að framleiða 1 kíló af kjúklingakjöti.
Við kjöraðstæður er hver fugl alinn í 33-35 daga með ótakmarkað aðgengi að fóðri og vatni.
Árið 2021 voru framleidd 9.500 kg af kjúklingakjöti.