Beint í efni

Nýtt matskerfi fyrir nautgripakjöt, EUROP-mat, var tekið upp með breytingu á reglugerð nr. 882/2010 um gæðamat, flokkun og merkingu sláturafurða og tók gildi þann 1. júlí 2017.

EUROP-matið gefur kost á nákvæmari flokkun en það séríslenska kerfi sem hefur verið í notkun síðan 1994, einkum á nákvæmari flokkun eftir holdfyllingu.

EUROP-matið er hugsað sem 15 flokka kerfi, annars vegar flokkun í holdfyllingu, hins vegar í fitu. Talað er um fimm aðalflokka í hvoru tilviki. Holdfyllingarflokkarnir eru auðkenndir með bókstöfunum E U R O P, þar sem E er best og P lakast. Fituflokkarnir eru auðkenndir með tölustöfunum 1 2 3 4 5 eftir aukinni fitu.

Hverjum flokki er hægt að skipta í þrjá undirflokka með plús og mínus (efri, miðju, neðri), t.d. O+, O, O- í holdfyllingu og 2+, 2, 2- í fitu.

Skrokkar af öllum nautgripum eldri en þriggja mánaða verða metnir á sama hátt samkvæmt EUROP- matinu, óháð aldri og kyni. Mat á ungkálfum (UK) að þriggja mánaða aldri verður óbreytt.

Samkvæmt reglugerð um stuðning í nautgriparækt er sláturálag greitt á nautakjöt sem uppfyllir eftirfarandi gæðakröfur:

a. Lágmarksþyngd grips sé 250 kg.
b. Nautakjöt falli ekki í EUROP gæðaflokk P+, P og P-.
c. Gripur sé yngri en 30 mánaða.


Fjárhæð sem ráðstafað er til að greiða sláturálag á nautakjöt skiptist jafnt á þá skrokka sem fullnægja gæðakröfum skv. 2. tl. 1. mgr. Greiðslum skal ráðstafað til framleiðanda ársfjórðungslega í maí, ágúst, nóvember ár hvert og febrúar árið á eftir og skipta þeir með sér greiðslum úr ¼ hluta heildarframlaga hvers árs.

Miða skal við slátrun á tímabilinu 1. janúar til 31. desember ár hvert.

Tók þessi reglugerð gildi þann 23. mars 2022 en fyrir þann tíma var einnig greitt sláturálag á P+ flokk.