
Á Íslandi þarf að gæta vel að hreinlæti, aðbúnaði, fóðrun og gestkomum í kringum búfénað með tilliti til sjúkdóma og smita. Hérna má finna nokkur atriði sem gott er að hafa í huga til að varna smiti og útbreiðslu sjúkdóma ásamt upplýsingum um nokkra af þeim sjúkdómum sem greinst hafa hér á landi.
Smit getur t.d. borist:
- milli dýra
- með öðrum bændum
- með dýralæknum
- með sæðingamönnum og ráðunautum
- með sláturhúsbílum
- fóðurflutningum
- með öðrum þjónustuaðilum
- með áhöldum og tækjum
- með heimsóknum í önnur fjós, bæði hérlendis og erlendis
- með erlendum gestum
Verndaðu bú þitt og annarra:
- Allir í gallana: Allir gestir skulu klæðast hreinum utanyfirfötum, annaðhvort einnota eða fatnaði búsins. Stígvél eiga að vera hrein, líka undir sólanum. Notið skóhlífar.
- Nemið staðar við dyrnar: Óviðkomandi eiga ekki að ganga inn í fjós. Sem dæmi skulu flutningabílstjórar ekki fara inn í fjós og bændur ekki inn í flutningarbílinn.
- Áhöld og tæki: Múlar, kaðlar, verkfæri og aðrir hlutir sem notaðir eru við eða í kringum búfénað geta borið með sér smit.
- Heilbrigð dýr: Kaupið aldrei dýr nema í samráði við dýralækni og að uppfylltum lögum og reglum s.s. hvað varðar vottorð og flutningsleyfi.
- Vatn og fóður: Gætið að því að vatnsleiðslur, skálar og stútar séu eins hreint og kostur gefst. Athugið að fóðurverkun sé framkvæmd án óhreininda eða mengunar og íblöndunarefni séu rétt notuð.
- Hreint inn – hreint út: Klaufskurðarbásar og önnur áhöld sem fara á milli bæja geta borið með sér smit. Þrífið og sótthreinsið tæki bæði fyrir og eftir notkun.
- Utanlandsferðir: Aldrei ætti að líða skemmri tími en 48 klst. frá því að farið er úr erlendu fjósi þar til að farið er í fjós hér heima. Munið að þvo og sótthreinsa fatnað og skó þegar þið komið heim. Salmonella og hringskyrfi eru algengir sjúkdómar erlendis og smitið getur auðveldlega borist hingað til lands.
- Erlendir gestir og farandverkafólk: Erlent farandverkafólk og gestir geta óafvitandi borið með sér ýmsa sjúkdóma. Gætið að hreinlæti, viðeigandi fatnaði og búnaði.
- Meindýravarnir: Mýs og flugur eru öflugir smitberar. Hundar og kettir geta sömuleiðis borið með sér mikið smit. Fylgja skal lögum um meindýravarnir og umgang gæludýra í útihúsum.
- Matarafgangar: bannað er að gefa búfé dýraafurðir og eldhúsúrgang. Fóðrun dýra með dýraafurðum eða eldhúsúrgangi getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér enda ein helsta smitleið margra alvarlegra smitsjúkdóma í dýr.
- Flutningur gripa: Nautgripi og geitur má aðeins flytja til lífs yfir varnarlínur hafi farið fram sérstök rannsókn á heilbrigði þeirra.
- Annar flutningur: Einnig er óheimilt að flytja milli bæja innan sýktra svæða og áhættusvæða hvaðeina, sem getur borið smitefni milli staða, svo sem hey, heyköggla og hálm, húsdýraáburð, túnþökur og gróðurmold nema með leyfi héraðsdýralæknis. Skilyrði fyrir slíku leyfi varðandi hey er að það sé allt í plöstuðum stórböggum eða rúllu og skilyrði fyrir þökur er að þær séu aðeins notaðar á svæðum þar sem sauðfé kemst ekki að.
- Almennt hreinlæti og handþvottur: er lykilatriði til að koma í veg fyrir að matvæli og fólk smitist t.d. af E.Coli
Kúariða
Kúariða er banvænn sjúkdómur sem leggst á heila nautgripa. Sjúkdómurinn er langvinnur og einkennin koma að jafnaði ekki fram fyrr en um 5 ára aldur. Engin meðhöndlun eða bólusetning finnst gegn sjúkdómnum. Einkenni kúariðu minna að mörgu leyti á einkenni riðuveiki hjá sauðfé, þ.e.a.s. taugaeinkenni sem birtast í hegðunarbreytingum og erfiðleikum við hreyfingu.
Talið er að sjúkdómurinn geti borist í nautgripi ef þeir eru fóðraðir á dýrafóðri, framleitt úr leifum sýktra nautgripa. Fyrsta tilfellið af kúariðu var staðfest í Bretlandi árið 1986. Síðan þá hefur sjúkdómurinn verið staðfestur í fleiri Evrópulöndum, Asíu, Miðausturlöndum og í Norður-Ameríku.
Vísbendingar eru um að tilbrigði kúariðunnar, banvæni hrörnunarsjúkdómurinn Creutzfeldt-Jakob sem leggst á fólk, geti stafað af neyslu sýkts taugavefs eða nautakjöts sem hefur komist í snertingu við sýktan taugavef.
Sýnataka vegna eftirlits með kúariðu
Alþjóðlega dýraheilbrigðismálastofnunin (OIE) hefur viðurkennt Ísland sem kúariðulaust land á sögulegum forsendum. Þar vegur þyngst að kúariða hefur aldrei greinst hér á landi, lifandi nautgripir hafa ekki verið fluttir inn síðan 1933, bannað hefur verið að flytja inn kjöt- og beinamjöl síðan 1968 og óheimilt er að fóðra nautgripi á kjöt- og beinamjöli síðan 1978. Þessi alþjóðlega viðurkenning er afar mikilvæg fyrir íslenska nautakjötsframleiðslu og heilnæmi íslensks landbúnaðar. Til þess að Ísland geti viðhaldið þessari stöðu sinni hjá OIE, þarf ákveðinn fjöldi heilasýna úr nautgripum að berast árlega til riðuskimunar.
Einnig ber Íslandi skylda til þess að sýna fram á að hérlendis séu tekin sýni skv. reglugerð Evrópuþings (EB nr. 999/2001) um forvarnir gegn, eftirlit með og útrýmingu tiltekinna tegunda smitandi heilahrörnunar (TSE), framkvæmd með reglugerð nr. 41/2012 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) um setningu reglna um forvarnir gegn, eftirlit með og útrýmingu tiltekinna tegunda smitandi heilahrörnunar.
Taka skal sýni úr eftirfarandi flokkum nautgripa:
- Allir nautgripir án tillits til aldurs sem sýna hegðunarleg sjúkdómseinkenni sem samræmast kúariðu, sem Mast fær tilkynningu um.
- Nautgripir eldri en 48 mánaða sem drepast eða er lógað heima á bæ vegna slysa eða sjúkdóma, sem Mast fær tilkynningu um.
- Nautgripir eldri 48 mánaða sem sendir eru í sláturhús til neyðarslátrunar.
- Allir nautgripir sem drepast í flutningi eða í sláturhúsi.
- Allir nautgripir sem sýna hegðunarleg sjúkdómseinkenni sem samræmast kúariðu við lífskoðun í sláturhúsi.
- Nautgripir eldri en 48 mánaða sem er hent / hafnað til manneldis út frá lífskoðun eða vegna verulegra annmarka sökum skorts á rekjanleika og merkinga.
Bestu vísbendingu um heilsufar nautgripa á Íslandi hvað kúariðu varðar, gefa sýni úr grunsamlegum tilfellum, þ.e.a.s. fullorðnum gripum sem drepast heima á bæ eða er lógað vegna sjúkdóma eða slysa.
Smitandi barkabólga/fósturlát
Hvaða sjúkdómur er smitandi barkabólga?
Sjúkdóminum veldur veira sem kölluð er Bovine herpesvirus 1 á ensku.
Hún hverfur aldrei úr líkamanum, en verður fljótt óvirk utan líkamans.
Hún verður óvirk á nokkrum sekúndum við hita yfir 63°C, eftir 5 – 13 daga inni í fjósi og eftir 30 daga úti um vetur. Hún helst virk í ótakmarkaðan tíma í frystu sæði. Flest sótthreinsiefni gera hana óvirka.
Hún veldur sjúkdómum með ólík einkenni þannig að algengast er að tala um sjúkdóm í öndunarfærum Infectious Bovine Rhinotracheitis (IBR) og sjúkdóm í æxlunarfærum Infectious Pustular Vulvovaginitis (IPV).
Sjúkdómurinn hefur lengi verið þekktur, en veiran uppgötvaðist fyrst í vesturríkjum Bandaríkjanna á 6. áratug síðustu aldar. Veiran er landlæg víða um heim t.d. í Austur-Evrópu en hefur verið kveðin niður á Norðurlöndum, Austurríki og á vissum svæðum í Evrópu. Unnið er að útrýmingu á henni í Þýskalandi. Þá hefur hún einu sinni greinst á Íslandi, ekki er vitað hvernig smitið barst á búið. Víða er smitinu haldið í skefjum með bólusetningu. Fylgst er með að naut sem fara á nautastöðvar í Evrópusambandinu séu laus við veiruna og það er skilyrði fyrir flutningi á sæði milli landa.
Mismunandi stofnar af veirunni valda mismiklum og mismunandi einkennum. Í Ástralíu er einn stofn BHV 1.2b sem veldur mjög mildum einkennum frá nösum og skeið. Það er ljóst að veiran á Egilsstöðum hefur verið af stofni sem veldur mjög vægum einkennum, því yfirleitt eru sjúkdómseinkennin svo alvarleg að það er talið mikilvægt að reyna að útrýma veirunni sé þess nokkur kostur. Meðgöngutími sjúkdómsins er 2 til 7 dagar og einkennin geta verið engin, en brotist út við stress, en sjúkdómurinn brýst oft út með alvarlegum einkennum sem er vert að hafa í huga. Hár hiti, hósti, andnauð, nefrennsli, augnslímhúðarbólga, fósturlát seint á meðgöngunni, títt þvaglát, bólgin sköp, vessandi sár á sköpunum og í skeið og einkenni frá miðtaugakerfinu.
Hvernig berst smitið?
Veiran berst milli einstaklinga við snertingu og smitast frá vessandi sárum. Smitið berst með sæði en sæði frá viðurkenndum sæðingarstöðvum er eingöngu úr nautum sem eru ósýkt af veirunni. Í tilraun hefur verið framkallað smit í 3,8 metra fjarlægð með flutningi með lofti, en það er ekki talið gerast við eðlilegar aðstæður.
Veiran smitar ekki fólk og berst ekki með flugum.
Þar sem veiran hefur greinst hér á landi er ekki útilokað að hún berist aftur hingað til lands og það gæti verið stofn sem veldur alvarlegri sjúkdómseinkennum. Þetta er alvarleg áminning um að bændur þurfa að vera á varðbergi og gæta þess að hvorki þeir sjálfir né gestir þeirra komi úr umhverfi nautgripa erlendis beint inn í fjós á Íslandi.
Garnaveiki
Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur, sem leggst á öll jórturdýr: sauðfé, geitur, nautgripi og hreindýr. Orsökin er lífseig baktería af berklaflokki (Mycobacterium paratuberculosis). Hún veldur bólgum í mjógörn og oft einnig í langa, ristli og lifur. Sýklarnir berast út með saurnum og geta lifað í umhverfinu mánuðum saman. Bakterían er mjög harðger, þolir t.d. mörg sótthreinsiefni. Sýking verður um munn með saurmenguðu fóðri og vatni. Meðgöngutími í fé er 1-2 ár eða lengri. Meðgöngutími í kúm er 2 ½ ár eða lengri.
Einkenni garnaveiki
Einkenni garnaveiki eru hægfara vanþrif, skituköst og deyfð þrátt fyrir sæmilega átlyst. Best er að fylgjast með þrifum (vigta) til að finna smitbera. Þar sem veikin kemur upp í óbólusettu fé getur verið margt um ,,heilbrigða” smitbera. Garnaveiki er ólæknandi og dregur sýkt dýr óhjákvæmilega til dauða. Það getur hins vegar tekið langan tíma, oftast mánuði, eftir að fyrstu einkenni koma fram. Skilyrðislaust ætti að taka sýni úr öllum gripum sem lógað er vegna sjúkdóma eða vanþrifa, eða drepast af óþekktum orsökum.
Smitdreifing
Smitdreifing milli bæja verður fyrst og fremst við flutning á sýktum gripum frá garnaveikismitaðri hjörð. Einnig getur smit borist milli bæja með óhreinum skófatnaði. Ekki er hægt að útiloka smitdreifingu með heyi eða samnýtingu landbúnaðartækja. Nagdýr og vissar fuglategundir geta hýst bakteríuna og verið smitberar án þess að sýna sjúkdómseinkenni.
Innan hjarðar verður smitdreifing frá fullorðnum dýrum og frá umhverfinu yfir í ungviði, einkum á húsi með saurmengun í drykkjarvatni og jötum, síður úti í haga nema smitmagn í umhverfinu sé þeim mun meira.
Næmi gagnvart smiti minnkar með aldrinum. Fóstur og ungdýr upp að fjögurra mánaða aldri eru móttækilegust. Eldri dýr smitast síður þó svo að þau geti sýkst ef smitálagið er mikið.
Greining
Greining sjúkdómsins í einstökum dýrum er miklum vandkvæðum bundin vegna þess að sjúkdómurinn þróast mismunandi í hverjum einstaklingi og svörun greiningarprófa er háð því á hvaða stigi sjúkdómurinn er. Ekkert greiningarpróf í lifandi dýrum gefur hundrað prósent tryggingu fyrir því að einstaklingur sé ekki smitaður þrátt fyrir að útkoman sé neikvæð.
Á vissu stigi sjúkdómsins má finna bakteríuna í saurnum. Þó í mjög litlum mæli í upphafi sýkingar og síðar meir er útskilnaður mjög sveiflukenndur. Bakterían sést þá í smásjá eftir sérstaka sýklalitun á slími úr saur eða slímhúð. Það afbrigði sýkilsins sem veldur sjúkdómnum hér á landi hefur reynst óræktanlegt í rannsóknarstofu. Blóðpróf, sem mæla mótefni gegn sýklunum er önnur greiningaraðferð. Prófið er ónákvæmt, hentar betur sem hjarðpróf en einstaklingspróf. Blóðpróf er ónothæft á bólusett fé nema til að kanna bólusetningarárangur. Það greinir ekki á milli mótefna, sem myndast við bólusetningu og mótefna frá sýkingu með bakteríunni.
Eftirlitsdýralæknar í sláturhúsum skoða mjógörnina við langann og garnaeitlana í fullorðnum kindum og nautgripum. Sjái þeir einhverjar breytingar senda þeir sýni til Tilraunastöðvar Háskólans að Keldum til nánari rannsóknar.
Bólusetning – hvers vegna er nauðsynlegt að bólusetja snemma?
Lömbin fæðast án mótefna gegn garnaveiki. Í broddi vel bólusettrar kindar finnast kröftug mótefni gegn garnaveiki. Einni mínútu eftir að lambið hefur fengið brodd úr vel bólusettri móður mælast kröftug garnaveikimótefni í lambinu. Þau mótefni endast aðeins fram til haustrétta. Ef móðirin var ekki rétt bólusett, endast mótefnin skemur. Þegar mótefnin eru gengin til þurrðar er lambið óvarið gegn garnaveiki. Þá þarf að bólusetja ásetningslambið eða taka það úr hjörð, þar sem garnaveikismit gæti leynst. Mótefni sem lambið fær með réttri bólusetningu endast til æviloka. Ef lambið er ekki bólusett, smitast það í sýktu umhverfi og veikist eftir eitt til tvö ár eða verður smitberi árum saman og veikist, þegar á móti blæs. Ef veikin er komin langt á leið þegar bólusett er, getur lambið snarveikst og drepist úr veikinni á stuttum tíma.
Það er því góð regla að velja ásetningslömb snemma hausts, bólusetja sem allra fyrst og merkja þau jafnharðan, taka þau frá fullorðna fénu, setja þau á tún, sem jórturdýrum hefur ekki verið beitt á að vorinu, taka þau svo í hreinar stíur án snertingar við óhreinindi frá fullorðnu fé og tryggja þrifalega umgengni um hey og vatn.
Því miður er vönduð bólusetning ekki trygging fyrir því að garnaveiki hverfi úr bústofni. Bólusett dýr geta skilið út bakteríuna. Einnig virðist vera að ein og ein kind svari ekki bólusetningu. Í ljós hefur komið að 2 – 5% af hrútum sem hafa verið rannsakaðir vegna mögulegrar töku inn á sæðingastöð eru ekki með mótefni þó að þeir hafi verið bólusettir og greinileg merki finnist eftir bólusetninguna. Þessir gripir geta hæglega veikst í hjörðum þar sem bólusetning er í lagi og þá er mikilvægt að restin af hjörðinni sé bólusett svo ekki verði hjarðsmit.
Rétt er að minna á að samkvæmt reglugerð nr. 911/2011 um garnaveiki og varnir gegn henni er eigendum/umráðamönnum sauðfjár og/eða geita á garnaveikisvæðum skylt að láta bólusetja öll ásetningslömb/kið til varnar garnaveiki á tímabilinu frá 15. ágúst til 31. desember ár hvert. Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að útrýmingu garnaveiki í jórturdýrum með samstilltu átaki búfjáreigenda, Matvælastofnunar, dýralækna og sveitarfélaga.
Garnaveikisvæðin:
- Á Suðvesturlandi og Vesturlandi frá Markarfljóti að Hvammsfjarðarlínu úr Hvammsfirði í Hrútafjörð. Ekki er þó skylt að bólusetja á fjárskiptabæjum í Biskupstungum eða í Vestmannaeyjum.
- Á Norðurlandi frá Húnaflóa að Skjálfandafljóti og einnig í Skútustaðahreppi. Ekki er þó skylt að bólusetja í Miðfjarðarhólfi eða í Grímsey.
- Á Austurlandi, frá Smjörfjallalínu að Lagarfljótslínu (Lagarfljóti) og Jökulsá í Fljótsdal að austan, þ.m.t. Jökuldalur, Jökulsárhlíð, Hróarstunga og Fljótsdalur að norðan¬verðu. Í Fjarðabyggð sunnan varnarlínu í botni Reyðarfjarðar og í Breiðdalshreppi austan Breiðdalsár.
- Á Suðausturlandi frá botni Berufjarðar að Jökulsá á Breiðamerkursandi.
Gin- og klaufaveiki
Gin- og klaufaveiki hafa flestir heyrt um og mörgum er í fersku minni gífurlega stór faraldur veikinnar í Bretlandi árið 2001.
En hvers konar sjúkdómur er þetta og af hverju er svona mikilvægt að verjast honum? Gin- og klaufaveiki er veirusjúkdómur sem leggst á klaufdýr, t.d. nautgripi, svín, sauðfé og geitur. Sjúkdómseinkenni eru blöðrur og sár í munni, nösum, spenum og fótum.
Sjúkdómurinn er bráðsmitandi þannig að mörg dýr veikjast. Aftur á móti veldur sjúkdómurinn oftast ekki dauða nema hjá ungviði. En dýrin þjást mikið í þá 8-15 daga sem einkennin vara. Þau eiga erfitt með að éta og geta því horast niður, nyt fellur og hætta er á ýmsum fylgikvillum, svo sem júgurbólgu og fósturláti.
Sjúkdómurinn hefur því alvarleg áhrif á dýravelferð og veldur dýraeigendum jafnframt miklu fjárhagslegu tjóni.
Mörg lönd í heiminum eru laus við gin- og klaufaveiki og til að halda þeirri stöðu er gripið til niðurskurðar þegar sjúkdómurinn kemur upp. Aðgerðir til upprætingar sjúkdómsins geta verið gífurlega kostnaðarsamar vegna þess hversu hratt sjúkdómurinn breiðist út. Alvarlegustu fjárhagslegu afleiðingar sjúkdómsins fyrir lönd sem byggja mikið á útflutningi landbúnaðarafurða er lokun útflutningsmarkaða.
Smitleiðir gin- og klaufaveikiveirunnar eru margvíslegar. Veiran er harðger og getur auðveldlega borist milli landa með lifandi dýrum, búfjárafurðum, fólki og ýmis konar varningi. Þegar sjúkdómurinn hefur komið upp í landi þar sem hann hefur ekki verið áður til staðar eða verið útrýmt, er algengt að smitið sé rakið til þess að dýr hafi verið fóðruð með matvælum sem ekki hafa fengið fullnægjandi hitameðhöndlun.
Gin- og klaufaveiki hefur aldrei komið upp á Íslandi en veiran getur auðveldlega borist til landsins og því er mjög mikilvægt að ýtrustu smitvarna sé gætt á öllum vígstöðvum. Annars vegar þarf reyna að koma í veg fyrir að smitefnið berist með fólki og vörum frá löndum þar sem sjúkdómurinn er til staðar, og hins vegar þurfa bændur að tryggja eins og kostur er að smit berist ekki inn á þeirra bú. Við búum svo vel hér á landi að bannað er að flytja inn lifandi dýr, sem væri annars áhættusamasti innflutningurinn hvað þetta smitefni varðar, sem fjölmörg önnur. Búfjárafurðir eru líka varasamar, sér í lagi óhitameðhöndlaðar, svo og ýmis konar notuð landbúnaðartæki og búnaður. Fólk getur líka borið veiruna með sér á eigin líkama sem og fatnaði.
E.Coli
Vitað er að E. coli bakteríur lifa í þörmum dýra og eru í öllu umhverfi þeirra og eru almennt meinlausar, þær hafa flestar hlutverki að gegna í efnaskiptum þarmanna. En sumar tegundir geta myndað eiturefni (toxín) og þar með valdið alvarlegum sjúkdómum hjá mönnum. Þessar tegundir kallast EHEC (Enterohemoragísk E.coli).
EHEC- sýkingar hafa ekki verið stór vandamál hérlendis en þó nokkuð hefur borið á þeim í nágrannalöndum okkar. Uppruna sýkinganna má oftast rekja til meltingarvegs blóðheitra dýra og er því almennt álitið að tilvist E. coli í matvælum sé vísbending um saurmengun.
Til þess að sýkja fólk þá þarf bakterían að komast niður í meltingarveg um munn, svo sem með því að borða smituð matvæli eða sleikja óhreinar hendur. Sama á við um aðrar sjúkdómsvaldandi bakteríur sem geta verið til staðar í heilbrigðum dýrum. Vitað er að 60% sýkinga í fólki í heiminum eru súnur, en það eru sjúkdómar sem berast milli manna og dýra.
Umgengni við dýr getur haft jákvæð áhrif á heilsu og líðan manna en hafa skal í huga að smitefni getur borist á milli manna og dýra. Þar skiptir handþvottur og hreinlæti miklu máli!
Hringskyrfi
Er smitandi húðsjúkdómur í búfé sem orsakast af sveppum (Tricophytus verrucosum). Oft smitast fólk af sjúkum dýrum og myndast hárlausir blettir á líkama sjúklings en einnig fylgir kláði smitinu.
Hringskyrfi er ekki landlægur sjúkdómur á Íslandi en að minnsta kosti fimm aðskild tilfelli hafa komið upp. Fyrstu þrjú hafa reynst koma með innfluttum gripum eða erlendu vinnufólki. Veikin er tilkynningaskyld á Íslandi.
Júgurbólga
Það eru ekki margir sýklar sem yfirleitt valda júgurbólgu. Það getur verið gott að skipta þeim í tvo flokka.
Fyrri flokkinn má kalla smitandi júgurbólgusýkla því þeir eru fyrst og fremst í sýktum júgrum og spenum, sárum á júgri, spenum, klaufum, hæklum og milli júgurs og læris. Þeir geta einnig verið í miklum mæli í leifum af föstum hildum. Algengasti smitandi sýkillinn er Staphylococcus aureus en mun sjaldgæfari eru streptókokkarnir dysgalactiae og agalactiae. Til þess að takast á við þessar sýkingar og hindra útbreiðslu þeirra þarf að finna sýkt dýr, meðhöndla júgur þeirra og sár og mjólka þær síðast. Erfiðast er að fást við S. Aureus vegna þess að hann hefur tilhneigingu til að dyljast í júgurvefnum og finnst þess vegna ekki alltaf í mjólkursýnum. Á sama hátt næst oft á tíðum ekki til hans með fúkkalyfjum. S. aureus verður oft ónæmur fyrir penisillíni og fleiri fúkkalyfjum. Besta ráðið í baráttu við S. aureus er oftar en ekki að fella sýktar kýr. Það ætti alltaf að taka til athugunar þegar um penisillínónæmar sýkingar er að ræða eða ef kýrin fær endurteknar sýkingar eftir tvær meðferðir.
Annar flokkur júgurbólgusýkla eru umhverfisbakteríur. Þeir alvarlegustu eru E. coli og Str. uberis. Það þarf talsvert mikið af þessum sýklum til þess að valda júgurbólgu svo það er mikilvægast að koma í veg fyrir vöxt þeirra í umhverfinu. Hreinlæti, góð loftræsting, lítill loftraki og lágur hiti er bestur til þess að koma í veg fyrir vöxt þessara baktería. Best er að hiti í fjósinu sé 10- 13°C og loftraki undir 80%.
Segja má að ein tegund sýkla sé millistig milli smitandi sýkla og umhverfisbaktería. Það eru svokallaðir kóagulasa neikvæðir stafýlókokkar, stundum kallaðir K-, KNS eða CNS. Þessar bakteríur halda sig í nærumhverfi dýranna, á slímhúð, í hári og á húðinni, þar með talið á spenum og í spenagangi. Það verður aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir einhverjar sýkingar með KNS en hreinlæti, góð fóðrun og vandaðar mjaltir draga úr hættunni.
Mjaltir eru mikilvægar. Spenar og júgur eiga að vera hrein og þurr í upphafi mjalta. Það á að vera nýr þvottaklútur fyrir hverja kú og fleiri en einn klútur fyrir óhreinar kýr. Best er að þvo klútana að minnsta kosti daglega í þvottavél við 90°C. Mjaltir skal hefja strax að loknum þvotti og skoða mjólkina úr hverjum spena með því að mjólka fyrst í hreytibolla með svartri plötu. Þannig getur tekist að uppgötva júgurbólgu á fyrstu stigum. Gott er, þar sem því verður við komið, að mjólka heilbrigðar kvígur og kýr fyrst og enda á kúm með háa frumutölu.
Mjaltabúnaður er mikilvægur og það er mikilvægt að sem minnst loft sleppi inn þegar mjaltatækin eru sett á kýrnar. Loft, sem sleppur inn í eitt mjaltahylki, getur valdið því að mjólk þrýstist inn í spena í næsta hylki. Mjaltabúnaður þarf að vera undir reglulegu eftirliti og það þarf að fylgjast með að soghæðin sé alltaf rétt. Skipta þarf um spenagúmmí eftir þörfum.