Beint í efni

Á síðustu árum hafa Bændasamtökin í samvinnu við nokkur búnaðarsambönd starfrækt vinnuverndarverkefnið „Búum vel”. Markmið þess er að bæta öryggis- og vinnuverndarmenningu í sveitum, fækka slysum í landbúnaði og stuðla að góðu vinnuumhverfi og bættri ásýnd bæja. Starfið hefur meðal annars falist í heimsóknum til bænda, fræðslu og fundahöldum.

Fræðslubæklingur um öryggi og vinnuvernd í landbúnaði er nú aðgengilegur á vefnum en hann var jafnframt sendur til allra lögbýla á landinu í janúar 2016. Sótt var í smiðju Norðmanna sem hafa rekið árangursríkt vinnuverndarstarf um árabil. Bæklingurinn er þýddur úr norsku og staðfærður með góðfúslegu leyfi Norðmanna.

Framleiðnisjóður hefur stutt dyggilega við vinnuverndarstarf bænda.

Upplýsingar um vinnuverndarstarfið og heimsóknir til bænda eru veittar í netfangið ehg hjá bondi.is

Sjá fræðslubækling - pdf

RAFRÆNT ÁHÆTTUMAT FYRIR BÆNDUR

Bændasamtök Íslands og Vinnueftirlitið hafa unnið saman að gerð rafræns áhættumats fyrir þá sem starfa í landbúnaði. Um er að ræða veflægan hugbúnað sem bændur og starfsfólk þeirra geta fyllt inn í á netinu. Verkfærið er auðvelt í notkun, ókeypis og opið öllum. Megintilgangurinn með rafræna áhættumatinu er að hjálpa bændum og starfsmönnum á búum að bæta vinnuaðstæður og lágmarka þá áhættu sem er í vinnuumhverfinu.

Í forritinu eru settar fram tillögur og dæmi um úrbætur í vinnuumhverfinu. Einnig eru tilvísanir í lög og reglur og fjöldi mynda til útskýringar. Verkfærið metur áhættu fyrir notandann og sér um að skrifa lokaskýrslu og aðgerðaáætlun sem bóndinn notar til þess að gera úrbætur. Skýrslan er eingöngu fyrir þann sem gerir áhættumatið og er engum öðrum aðgengileg.

Evrópska vinnuverndarstofnunin í Bilbao á Spáni og hagsmunaaðilar á vinnumarkaði standa saman að gerð áhættumatsverkfæra undir nafninu OiRA sem stendur fyrir Online interactive Risk Assessment, eða á íslensku; rafrænt gagnvirkt áhættumat. OiRA verkfæri fyrir rafrænt áhættumat eru fyrst og fremst hugsuð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Fyrir hverja er OiRA verkfærið?

OiRA gerir bændum og starfsfólki þeirra kleift að framkvæma áhættumat fyrir sitt bú eða vinnustað. OiRA hentar öllum sem vilja meta hættu sem snýr að öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum. Það er hannað til þess að koma að mestum notum fyrir smærri fyrirtæki og er ætlað að finna hættur og meta áhættu í starfsumhverfinu.

Hvað þarf ég að gera?

Hér er hægt að nálgast áhættumatið. Þaðan er notandi leiddur áfram í gegnum skráningu og nokkur þrep.

OiRA verkfærið tekur á flestu í starfsumhverfinu sem hefur alvarleg áhrif á öryggi og heilbrigði starfsfólks. Hættur eru greindar með því að setja fram fullyrðingar sem svara þarf með já eða nei. Það er hægt að sleppa því að svara fullyrðingum eða svara þeim síðar.

Verkfærið hjálpar þér að meta áhættustig þeirra fullyrðinga sem svarað er neitandi. Þessi atriði færast sjálfkrafa inn á aðgerðaáætlunina. OiRA býður oft upp á tillögur að úrbótum sem hægt er að velja úr. Þessar tillögur má nota að vild eða búa til nýjar. Verkfærið býr að lokum til skýrslu með þeim tillögum sem valdar voru eða skilgreindar af notanda.

Hvað langan tíma tekur þetta?

Það er erfitt að segja til um hvað langan tíma það tekur að framkvæma áhættumatið. Vinnustaðir eru ólíkir og aðstæður mismunandi. OiRA er hannað með það í huga að það sé einfalt og fljótlegt í notkun. Þú getur byrjað og hætt hvenær sem er. Hægt að halda áfram með fyrra mat og breyta að vild.

Hvers vegna þarf að skrá aðgang?

Það fyrsta sem þú ert beðinn um að gera þegar þú byrjar á OiRA áhættumati er að stofna aðgang. Það er einfalt og fljótlegt. Það er nauðsynlegt að stofna aðgang ef ætlunin er að prenta út skýrslur og vista áhættumatið. Þegar þú hefur stofnað aðgang geturðu skráð þig inn hvenær sem er til að halda áfram með fyrra mat eða byrjað á nýju.

Þarf sérstakan undirbúning?

Þú þarft engan sérstakan undirbúning til að nota OiRA verkfærið. Mikilvægt er að hafa samstarf við starfsfólk og upplýsa það um niðurstöður matsins, þar með talda aðgerðaáætlunina.

Hægt er að prenta út fullyrðingarnar sem verkfærið notar til að greina hættur í vinnuumhverfinu. Útprentunina er hægt að nota sem gátlista þegar farið er yfir vinnuumhverfið við gerð áhættumatsins.

Nánari upplýsingar á bondi.is

Áhættumatið er byggt upp á spurningum og efni úr norska heftinu „Öryggi og vinnuvernd í landbúnaði“ sem BÍ þýddu og staðfærðu og gáfu út árið 2016 í tengslum við vinnuverndarverkefnið „Búum vel – Öryggi, heilsa og umhverfi“.