Beint í efni

Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra skrifuðu undir búvörusamninga fyrir hönd ríkissjóðs 19. febrúar 2016. Um var að ræða rammasamning um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og samninga um starfskilyrði garðyrkju, nautgriparæktar og sauðfjárræktar á árunum 2017 til 2026. 

Samningarnir eru til 10 ára en gert er ráð fyrir að þeir verði teknir til endurskoðunar tvisvar á samningstímanum, árin 2019 og 2023. Það er nýmæli að gildistíminn sé þetta langur, en ástæða þess er að með samningunum er verið að ráðast í umfangsmiklar breytingar á starfsumhverfi landbúnaðarins sem kallar á langtímahugsun. 

Meginmarkmið rammasamningsins er að efla íslenskan landbúnað og skapa greininni sem fjölbreyttust sóknarfæri. Markmiðið er að auka verðmætasköpun í landbúnaði og nýta sem best tækifærin sem felast í sveitum landsins í þágu bænda, neytenda og samfélagsins alls. Til þess að ná þessum markmiðum eru í samningum fjölbreytt atriði sem ætlað er að ýta undir framþróun og nýsköpun í greininni. 

Í nýju samningunum er lögð aukin áhersla á lífræna framleiðslu, velferð dýra, umhverfisvernd og sjálfbæra landnýtingu. Veigamiklar breytingar fela það í sér að nýliðun og kynslóðaskipti í landbúnaði verða auðveldari en verið hefur. Sérstakt verkefni kemur inn í samninginn um stuðning við skógarbændur til að auka virði skógarafurða. Um leið er kveðið á um annað nýtt verkefni um mat gróðurauðlindum sem ætlað er til þess frekari rannsókna á landi sem nýtt er til beitar. Jafnframt verða möguleikar á fjárfestingastyrkjum í svínarækt fyrri hluta samningstímans til þess að hraða umbótum sem bæta aðbúnað dýra. Jarðræktarstuðningur er aukinn verulega og gerður almennari. Hægt verður að styðja betur við ræktun, þar með talið ræktun matjurta sem er nýmæli. Um leið verður tekinn upp almennur stuðningur á ræktarland sem er ekki bundinn ákveðinni framleiðslu. Stuðningur við lífræna framleiðslu verður tífaldaður frá því sem nú er og sérstakur stuðningur verður tekinn upp við geitfjárrækt, sem ekki hefur verið áður. 

Ennfremur fylgir samningnum bókun þar sem gert er ráð fyrir frekari viðræðum um innviði hinna dreifðu byggða og almenn atriði er varða byggðastefnu stjórnvalda. 

Fjárhæðir í rammasamningi nema kr. 1.743 milljónum árið 2017 en enda í kr. 1.516 milljónum árið 2026 við lok samnings. Gerð er hagræðingarkrafa í samningunum sem nemur 0,5% fyrstu 5 ára samningana en 1% næstu 5 ár á eftir. Þetta á við um alla þætti samninganna nema þeim sem lúta að niðurgreiðslu raforku og framlögum til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. 

Heildarútgjöld ríkisins vegna samningana verða nánast þau sömu í lok samningstímans (á föstu verðlagi) og þau eru nú. Sett er þak á stuðning í alla samningana þannig að enginn framleiðandi getur fengið meira en ákveðið hlutfall af heildarframlögum. 

Endurskoðun samninga
Samkomulag um endurskoðun sauðfjársamnings var undirritað 11. janúar 2019. Samkomulagið var samþykkt í atkvæðagreiðslu bænda þann 4. mars 2019 og staðfest með lögum frá Alþingi þann 15. maí 2019.

Ákvæði samkomulagsins tóku  gildi þann 1. janúar 2020 með þeim undantekningum að ákvæði um aðlögunarsamninga skv. 1. tölulið 2. gr., ákvæði um innanlandsvog skv. 5. tölulið 2. gr. og ákvæði um viðskipti með greiðslumark skv. 3. tölulið 2. gr. tækju gildi 1. september 2019.  Aðilaskipti greiðslumarks voru þó óheimil frá 1. júní 2019.

Þann 25. okt. 2019 lauk endurskoðun nautgriparæktarsamnings.

Þann 4. feb. 2021 lauk formlegri endurskoðun rammasamnings ríkis og bænda og þar með voru allir fjórir búvörusamningarnir sem tóku gildi 1. janúar 2017 endurskoðaðir. Meðal helstu atriða samningsins má nefna að í honum er kveðið á um að íslenskur landbúnaður verði alveg kolefnisjafnaður árið 2040, ný landbúnaðarstefna verði grunnur endurskoðunar

Endurskoðaður garðyrkjusamningur var undirritaður 14. maí 2020.

Samningarnir:
Rammasamningur

Endurskoðun rammasamnings - undirritaður 4. febrúar 2021

Reglugerðir:

Annað:

Spurt og svarað um búvörusamninga
Ertu með spurningar um samningana og framkvæmd þeirra? Félagsmenn í Bændasamtökunum geta sent spurningar á netfangið bondi@bondi.is. Starfsfólk BÍ svarar fljótt og vel innsendum erindum.