Beint í efni

Bændavaktin

Erfiðar aðstæður hafa skapast víða um landið vegna óveðurs. Bændur hafa þurft að hýsa fé sitt innandyra og lifa nú í mikilli óvissu um komandi tíma.
Hér á Bændavaktinni verður samantekt af helstu fréttum ásamt tilkynningum um aðgerðir til stuðnings við bændur.

Við hvetjum bændur og aðstandendur til að kynna sér verkefnið Bændageð. Tímar sem þessir geta haft mikil áhrif á andlega heilsu.

ATH!
Mikilvægt er að bændur skrái allt tjón sem þeir kunna að verða fyrir ásamt því að taka myndir.

19.06.2024 - 12:25

Vetur að vori - stuðningur eftir kaltjón - visir.is

Birtist fyrst á Vísi - eftir Bjarkey Olsen

Á dögunum gekk yfir mikill veðurofsi á Norðurlandi með miklum snjó sem víða hefur valdið margskonar tjóni.

Nú þegar veðrinu hefur slotað og snjórinn er farinn að bráðna blasir við gríðarlegt tjón af völdum þessa „auka veturs“ sem dundi á strax eftir sauðburð. Til að bregðast við afleiðingum kuldatíðarinnar hef ég sett á laggirnar vinnuhóp sem ætlað er að leggja mat á umfang tjónsins til lengri tíma og gera tillögur um aðgerðir sem gætu komið til móts við bændur vegna þess. Hópurinn fundar þétt og heldur vel utan um stöðu mála.


14.06.2024 - 10:28

Ásta F. Flosadóttir, bóndi á Höfða í Grýtubakkahrepp, skrifaði pistil á fréttasíðu Vísis í gær þar sem hún lýtur um öxl og fjallar um þessa sérstöku byrjun júnímánaðar og þær aðstæður sem bændur fundu sig í. Í þessu samhengi er mikilvægt að átta sig á því sem skiptir raunverulega máli. Fréttina má nálgast hér.

12.06.2024 - 14:22

Verklagsreglur vegna afgreiðslu kaltjóna hjá Bjargráðasjóði

Bjargráðasjóður hefur samþykkt verklag sem verður viðhaft við afgreiðslu styrkumsókna vegna kaltjóna á norður- og austurlandi vorið 2024. Verklagsreglurnar má finna hér.

Bjargráðasjóður hefur sett sér verklagsreglur vegna kaltjóna á Norður- og Austurlandi vorið 2024. Umsóknum er skilað í gegnum Bændatorg. Vinsamlegast lesið vel leiðbeiningarnar sem fram koma í verklagsreglunum til að tryggja skilvirka úrvinnslu umsókna.  

Frekari upplýsingar á heimasíðu Bjargráðasjóðs


12.06.2024 - 10:32

„Svo bara ræður enginn við svona hörmungar“ - RÚV.is
Ásta F. Flosadóttir, bóndi á Höfða í Grýtubakkahrepp, ræddi við RÚV um ástandið fyrr í vikunni. Fréttina má nálgast hér.

10.06.2024 - 16:00

Vegna óveðurs sem skók Ísland

Um þessar mundir berjast bændur víða um land við að koma sínum bústörfum aftur í rétt horf. Ástandið er misjafnt eftir landshlutunum og búgreinum en ljóst er að allir landshlutar hafi orðið fyrir áhrifum þessa með einhverjum hætti.

Verkefnið núna er að ná betur utan um þá sem stöðu sem upp er komin svo hægt sé að bregðast við. Bændasamtökin brýna fyrir bændum að skrá tjón sitt og taka myndir. Slíkt er nauðsynlegt því ekki er hægt að bæta tjón sem ekki eru til upplýsingar um. Upplýsingar um frekara verklag mun liggja fyrir á næstu dögum og verða bændur þá upplýstir.

Tjónið mun ekki koma fyllilega í ljós fyrr en í haust eða næsta vetur. Mikilvægt er að vona það besta en vera undirbúin undir það versta. Bændur eru einn af grunninnviðum þjóðarinnar og þurfa á skjótum viðbrögðum að halda og vinna allir aðilar sem að málinu koma að því hörðum höndum.


10.06.2024 - 14:32

Viðbragðshópur vegna ástandsins fundaði í fyrir hádegi og fór Trausti Hjálmarsson, formaður BÍ, viðtal hjá RÚV þar sem farið var yfir stöðuna.

"...það tekur tíma að ná utan um það hverjar afleiðingarnar eru og verða af þessu óveðri."

Hægt er að lesa fréttina í heild sinni hér.


10.06.2024 - 10:45

Trausti og Bjarkey Olsen á skrifstofu Bændasamtakanna á dögunum

Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands, talaði um ástandið í hádegisfréttum Bylgjunnar sl. föstudag. Þar heyrðum við einnig í Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, matvælaráðherra. Hægt er að hlusta á fréttatímann í heild sinni á fréttasíðu Vísis.

Umfjöllun hefst 01:08 og lýkur 03:10.


10.06.2024 - 09:20

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra, segir Bjargráðasjóð þurfa að styðja við bændur sem lenda í uppskerubrest vegna afleiðinga sem óveðrið kann að hafa á tún þeirra.

10.06.2024 - 09:15

Merki um kal í túnum er að finna víða í mis miklum mæli. Í mörgum tilfellum er kaltjón á bilinu 50-60% af heilum túnum en í verstu tilfellum eru heilu túnin ónýt.

07.06.2024 - 15:00

Símanúmer til að hringja í
Ef þörf er á aðstoð frá lögreglu, björgunarsveit, sjúkrabíl eða slökkviliði bendum við á að hringja í 112.
Ef um andleg vandamál er að ræða bendum við á hjálparsíma Rauða Krossins, 1717, sem er opinn allan sólarhringinn.
Einnig hvetjum við bændur og aðstandendur til að vera dugleg að slá á þráðinn sín á milli. Stöndum saman!

07.06.2024 - 14:45

Viðbragðshópur vegna áhrifa kuldatíðar á landbúnað tekur til starfa

Settur hefur verið á laggirnar viðbragðshópur á vegum stjórnvalda vegna erfiðleika sem skapast hafa í landbúnaði vegna kuldatíðar undanfarið. Þar sitja fulltrúar matvæla- og innviðaráðuneyta, Bændasamtakanna, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Almannavarna og lögregluembættanna á Norðurlandi vestra og eystra. Fleiri kunna að koma að verkefninu eftir því sem því vindur fram. Hópurinn fundaði nú í morgun en fyrir liggur að kuldakastið hefur þegar haft verulega neikvæð áhrif á starfsemi bænda, bæði til skemmri og lengri tíma.

Fyrsta skrefið í vinnu hópsins er að hafa samband við bændur á þeim svæðum þar sem ástandið er verst til að kortleggja og skipuleggja viðbrögð við bráðavanda eins og velferð og fóðrun búfjár sem komið hefur til vegna veðursins. Bændur hafa haft frumkvæði að því á ákveðnum svæðum en nauðsynlegt er að fara yfir heildarstöðuna. Langtímaáhrif eins og á uppskeru og afurðir munu ekki verða ljós fyrr en líður á sumarið, jafnvel ekki fyrr en í haust.

Einnig liggur fyrir að verulegt kaltjón hefur orðið á ræktarlöndum á mörgum sömu svæðum og er vinna hafin vegna þess hjá Bjargráðasjóði.


07.06.2024 - 13:00

Samantekt á reglum um Bjargráðasjóð

  • Hlutverk sjóðsins er að veita einstaklingum og félögum fjárhagsaðstoð/styrki til að bæta meiri háttar tjón af völdum náttúruhamfara.
    • Styrkir eru m.a. veittir vegna:
      • Tjóns á girðingum, túnum og rafmagnslínum er tengjast landbúnaði
    • Tjóns á heyi sem notað er til landbúnaðarframleiðslu
    • Tjóns vegna uppskerubrests af völdum óvenjulegra kulda, þurrka, óþurrka og kals
  • Ekki er bætt tjón sem nýtur almennrar tryggingaverndar eða hægt er að fá bætt með öðrum hætti, sbr. ákvæði laga um Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Náttúruhamfaratryggingar taka ekki til tjóns sem verður vegna óveðurs og á því ekki þá atburði sem hafa átt sér stað seinustu daga.
  • Stjórn sjóðsins metur styrkhæfni tjóna og ákveður styrkhlutfall.

Um umsóknir til sjóðsins:

  • Umsókn um styrk úr Bjargráðasjóði skal berast sjóðnum svo fljótt sem kostur er í kjölfar tjóns, en eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tjón varð. Umsókn skal vera skrifleg. Heimilt er að skilyrða að umsókn sé skilað í rafrænu umsóknarkerfi eða á eyðublöðum sem sjóðurinn gefur út. Ef vettvangi er spillt eða viðgerðum lokið áður en sjóðnum gefst kostur á að leggja mat á tjónið fellur umsóknin úr gildi.
  • Í umsókn skal koma fram á hverju tjónið varð og upplýsingar um umfang tjónsins. Sjóðurinn getur krafist fyllri gagna frá umsækjanda sjálfum eða öðrum þeim aðilum sem slíkar upplýsingar geta veitt ef ástæða þykir til.
  • Umsækjanda skal veittur hæfilegur frestur til að útvega þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að taka afstöðu til styrkumsóknar. Ef umsækjandi veitir sjóðnum ekki umbeðnar upplýsingar fellur umsóknin úr gildi.

07.06.2024 - 12:54

Matvælaráðherra segir augljóst að bændur þurfi aðstoð
Matvælaráðherra segir að stjórnvöld þurfi að grípa inn í aðstæður bænda sem nú berjast margir í bökkum vegna kuldatíðar.

07.06.2024 - 12:00

Bændur í sárum vegna kuldatíðar - RÚV.is
Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands, fór í viðtal hjá RÚV og talaði um ástandið.

07.06.2024 - 11:30

Lokahvellurinn í kvöld
Búast má við vonskuveðri í kvöld. Gul viðvörun tekur gildi klukkan 19:00 og verður í gildi til 05:00 í fyrramálið.

07.06.2024 - 11:00

Skilaboð til ykkar

Það er mikilvægt á tímum sem þessum að við sem samfélag stöndum þétt saman, styðjum hvert annað og látum vita ef einhver þarfnast aðstoðar.  Neyðarlínan 112 tekur á móti aðstoðarbeiðnum í neyð en Hjálparsími Rauða Krossins 1717 er einnig til taks, þar sem ekkert vandamál er of lítið til að fá umræðu og spjall.