Beint í efni

Félag hrossabænda er búgreinafélag hrossaræktarinnar á Íslandi og aðili að Bændasamtökum Íslands. Félagið var stofnað 19. apríl 1975 og starfar samkvæmt lögum um búfjárrækt, lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og samþykktum Bændasamtaka Íslands.

Félag hrossabænda er opið öllum þeim er stunda, eða hafa áhuga á, ræktun íslenska hestsins. Félagið samanstendur af níu aðildarfélögum og ganga félagar í aðildarfélög á sínu svæði og öðlast þannig félagsaðild að Félagi hrossabænda. Í stjórn félagsins sitja fimm menn, kjörnir til þriggja ára í senn. Aðalfundur er haldinn ár hvert og þar eiga seturétt fulltrúar allra aðildarfélaga samkvæmt samþykktum FHB.

Tilgangur félagsins er eftirfarandi:

  • Að vera málsvari aðildarfélaga og einstakra félagsmanna og koma fram fyrir þeirra hönd.
  • Að vinna ötullega að ræktun íslenska hestsins sem reiðhests, með kynbótum, skýrsluhaldi og mótun ræktunarstefnu í samvinnu við Bændasamtök Íslands, þar með talin þátttaka í fagráði.
  • Að glæða áhuga fyrir hrossarækt og hestamennsku með öflugu fræðslu- og kynningarstarfi.
  • Að vinna í samvinnu við önnur félög að góðu uppeldi, aðbúnaði og tamningu hrossa.
  • Að stuðla að hóflegri landnýtingu og umhverfisvernd.
  • Að vinna að sölumálum fyrir reiðhesta og kynbótahross, innanlands og erlendis og hafa um það samvinnu við aðra aðila, með það að markmiði að skapa aukin verðmæti, hrossaeigendum og þjóðinni til hagsældar.
  • Að vinna að sölumálum fyrir hrossaafurðir, jafnt á innlendum, sem erlendum mörkuðum, með það að markmiði að auka verðmæti afurðanna.


Félagar í FHB fá frían aðgang að gagnagrunninum WorldFeng sem inniheldur upplýsingar um öll skrásett íslensk hross í heiminum. Að auki á FHB í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands og fleiri aðila um námskeið og aðra viðburði og njóta félagar vildarkjara við skráningu.