
Samþykktir búgreinadeildar hrossabænda
1. gr.
Hrossabændur á Íslandi mynda með sér félag sem heitir Hrossabændadeild Bændasamtaka Íslands og er hluti af Bændasamtökunum. Heimili og varnarþing þess er á skrifstofu Bændasamtaka Íslands.
2. gr.
Tilgangur Hrossabændadeildar BÍ er að:
- Vera málsvari félagsmanna og koma fram fyrir þeirra hönd.
- Vinna ötullega að ræktun og stofnvernd íslenska hestsins og viðhalda erfðabreidd hans.
- Sjá um skipun í fagráð hrossaræktar og vera leiðandi í allri þróun greinarinnar, mótun ræktunarstefnu og skýrsluhaldi.
- Hafa forystu um þróun og stjórnun World Fengs
- Glæða áhuga fyrir hrossarækt og hestamennsku með öflugu fræðslu- og kynningarstarfi.
- Vinna að sölumálum og kynningarstarfi fyrir reiðhesta, kynbótahross og hrossaafurðir.
- Stuðla að góðu uppeldi, aðbúnaði og meðferð hrossa.
- Hafa samvinnu við önnur félög um mál sem stuðlað geta að betri aðbúnaði og velferð hrossa.
- Standa fyrir fræðslu um meðferð beitilands og mikilvægi góðrar umgengni um náttúru landsins.
Vinna ber að því að sameina alla hrossabændur innan vébanda Bændasamtaka Íslands til að efla slagkraft greinarinnar.
3. gr.
3.1. Rétt til aðildar að deild hrossabænda hafa einstaklingar og lögaðilar sem stunda hrossabúskap og aðra tengda starfsemi. Einnig skulu þeir vera félagsmenn í Bændasamtökum Íslands og greiða félagsgjöld til samtakanna samkvæmt ákvörðun Búnaðarþings hverju sinni.
3.2. Hrossabændadeild Bændasamtaka Íslands ber ábyrgð á skuldbindingum sínum, en ekki einstakir félagsmenn.
3.3. Einungis félagsmenn með fulla aðild, sbr. liði 3.1, geta gegnt trúnaðarstörfum fyrir deildina.
4. gr.
Full félagsaðild fellur niður uppfylli félagsmenn ekki öll skilyrði um félagsaðild, skv. grein 3.1.
Segi félagsmenn sig úr félaginu tekur úrsögnin þegar gildi.
5. gr.
5.1. Búgreinaþing skal halda árlega og hefur það æðsta vald í öllum málefnum deildarinnar.
5.2. Búgreinaþing sitja, með fullum réttindum, þeir sem uppfylla skilyrði skv. gr. 3.1.
5.3. Búgreinaþingið er opið til áheyrnar öllum félagsmönnum. Óski fleiri aðilar en hér er getið um eftir að sitja þingið með málfrelsi og tillögurétt skal það borið undir fundinn.
5.4. Á dagskrá skal vera:
- Skýrsla formanns deildar og tengiliðar BÍ.
- Fjármál deildarinnar
- Tillögur lagðar fram.
- Umræður og afgreiðsla tillagna.
- Staðfest rekstraráætlun næsta árs.
- Kosning stjórnar og varamanna.
- Kosning aðalfulltrúa og varafulltrúa á Búnaðarþing samkvæmt lögum Bændasamtaka Íslands.
- Kosning fulltrúa í fagráð.
- Önnur mál.
6. gr.
Aukaþing skal halda þyki stjórn hrossabændadeildarinnar sérstök nauðsyn bera til og jafnan þegar 1/3 félagsmanna óskar þess, enda sé þá fundarefni tilgreint. Aukaþing skal boða með minnst 7 daga fyrirvara. Um rétt til fundarsetu á aukaþingum gilda sömu reglur og á Búgreinaþingi.
7. gr.
7.1. Stjórn deildarinnar skipa 5 menn, kosnir til þriggja ára og þrír til vara. Skulu þeir kosnir þannig að formaður er kosinn sérstaklega þriðja hvert ár og tveir meðstjórnendur hvort hinna áranna. Stjórnin skiptir að öðru leiti með sér verkum. Árlega skal kjósa þrjá varamenn og skulu þeir taka sæti 1., 2. og 3. varamanns eftir fjölda atkvæða. Þeir einir eru í kjöri sem eru löglegir aðilar skv. grein 3.1.
Ákvæði til bráðabirgða:
Eftir fyrstu kosningu deildarinnar þegar allir stjórnarmenn eru kjörnir í einu skal setu þeirra skipað sem hér segir: Fyrsta kjörtímabil formanns verða eitt ár. Tveir stjórnarmenn skulu kosnir eftir tvö ár og tveir kosnir eftir þrjú ár. Hlutkesti ræður því hvaða stjórnarmenn hljóta tveggja eða þriggja ára kjörtíma.
7.2. Formaður tekur jafnframt sæti í Búgreinaráði Bændasamtaka Íslands.
7.3. Kosning fulltrúa félagsins á Búnaðarþing skal fara fram á aðalfundi deildarinnar og eru allir félagsmenn kjörgengir sem uppfylla skilyrði í samþykktum BÍ. Formaður stjórnar er sjálfkjörinn og tekur varaformaður sæti hans í forföllum. Ef velta greinarinnar í félagsgjöldum og fjöldi félagsmanna leyfir fleiri fulltrúa, að mati stjórnar BÍ, skal kosning annarra Búnaðarþingsfulltrúa fara fram. Jafn margir varafulltrúar skulu kosnir. Stjórn deildarinnar skal tilkynna stjórn BÍ hverjir eru réttkjörnir Búnaðarþingsfulltrúar deildarinnar eigi síðar en tveimur vikum fyrir Búnaðarþing.
7.4 Fagráð greinarinnar starfar á grunni Búnaðarlaga nr. 70, frá 1998. Fagráðið skal skipað fulltrúum starfandi bænda sem eru aðilar að BÍ og skal Búgreinaþing ákvarða hvernig það skuli skipað og kjósa fulltrúa samkv.gr. 5.4.
7.5. Löglega kosin stjórn deildarinnar er jafnframt stjórn Félags hrossabænda.
8. gr.
8.1. Hlutverk stjórnar er að vinna að hagsmunum félagsmanna innan Bændasamtaka Íslands í gegnum búgreinadeild samtakanna, annast málefni félagsins milli félagsfunda og sjá um að þau séu jafnan í sem bestu horfi.
8.2. Undirskriftir allra stjórnarmanna þarf til að skuldbinda deildina.
9. gr.
9.1. Formaður boðar til stjórnarfunda, eða annar í hans umboði, þegar ástæða þykir til og stjórnar þeim. Þó er honum skylt að boða fund ef tveir stjórnarmenn eða fleiri óska þess, enda sé þá fundarefnið tilgreint. Stjórnarfundur er lögmætur sé meirihluti stjórnar á fundi.
9.2. Stjórn deildarinnar skal skrá fundargerðir á fundum sínum. Fundargerðir skulu birtar á vefsvæði Bændasamtaka Íslands svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en að loknum næsta stjórnarfundi. Stjórn er heimilt að skrá einstaka liði fundargerðar í trúnaðarbók, sem ekki eiga erindi til birtingar á heimasíðu BÍ. Stjórnarmenn skulu staðfesta afrit af fundargerðinni með undirskrift sinni og skal stjórn sjá til þess að þau afrit séu varðveitt með tryggilegum hætti.
10. gr.
10.1. Stjórn deildarinnar skal yfirfara félagatal eigi síðar en 31. desember ár hvert.
10.2. Mál sem taka á til afgreiðslu á Búgreinaþingi deildarinnar skulu hafa borist skrifstofu Hrossabændadeildar Bændasamtakanna eigi síðar en 20 dögum fyrir Búgreinaþing. Öll gögn sem leggja á fram, til umfjöllunar eða afgreiðslu, skulu birt á vefsvæði BÍ eigi síðar en 10 dögum fyrir setningu Búgreinaþings. Búgreinaþing getur þó ákveðið að taka til afgreiðslu mál sem koma síðar fram.
11. gr.
Samþykktum þessum má aðeins breyta á Búgreinaþingi eða aukabúgreinaþingi, sem boðað er til þess sérstaklega. Tillögur þar um skulu kynntar félagsmönnum eigi síðar en 20 dögum fyrir búgreinaþing. Ná þær því aðeins fram að ganga að 2/3 hluti fundarmanna greiði þeim atkvæði.
12. gr.
Leggist starfsemi hrossabændadeildar Bændasamtaka Íslands niður og félaginu slitið skulu eigur þess, ef einhverjar eru, ganga til Bændasamtaka Íslands.
13.gr.
Samþykkt á aðalfundi Félags hrossabænda þann 11. desember 2021.
Staðfest á Búgreinaþingi búgreinadeildar hrossabænda 4. mars 2022