Beint í efni

Samþykktir búgreinadeildar sauðfjárbænda Bændasamtaka Íslands 

Samþykkt á aukadeildarfundi sauðfjárbænda 27. nóvember 2026

 
1. gr.  Almennt 

Sauðfjárbændur innan Bændasamtaka Íslands mynda með sér deild innan þeirra sem heitir Búgreinadeild sauðfjárbænda (hér eftir deildin). Heimili og varnarþing þess er á skrifstofu Bændasamtaka Íslands. 

2. gr.  Tilgangur 

Tilgangur deildarinnar er að sameina þá sem stunda sauðfjárrækt í atvinnuskyni, um hagsmunamál sín og vinna að framgangi þeirra innan Bændasamtaka Íslands. 

3.  gr.  Félagsaðild 

3.1. gr. 

Rétt til aðildar að deildinni hafa einstaklingar og lögaðilar sem stunda sauðfjárrækt í atvinnuskyni, enda séu þeir félagsmenn að Bændasamtökum Íslands og hafi skráð veltu af sauðfjárrækt við veltuskráningu til Bændasamtaka Íslands og skuldi ekki gjaldfallin félagsgjöld. 

3.2. gr.  

Einungis félagsmenn að deildinni sem hafa fulla aðild, sbr. 3.1. gr. og starfsmenn BÍ geta gegnt trúnaðarstörfum fyrir deildina. 

4.  gr.  Deildarfundur 

4.1. gr. 

Um framkvæmd deildarfundar gilda samþykktir BÍ.  

Stjórn deildarinnar, í samráði við stjórn BÍ og framkvæmdastjóra BÍ, boðar til deildarfundar.  

4.2. gr. 

Deildarfund sauðfjárbænda sitja með fullum réttindum þeir fulltrúar sem hafa verið kosnir af félagsmönnum deildarinnar. Einungis þeir félagsmenn sem uppfylla skilyrði 1 mgr. 3. gr. eru kjörgengir.   

Félagsmönnum er heimilt að gefa kost á sér til setu á deildarfundi. Kveðið er á um framboðsfrest í samþykktum BÍ. Rafræn kosning skal vera opin að lágmarki í tvo sólarhringa. 

Stjórn deildar ákveður fjölda fulltrúa á deildarfund. 

Til að tryggja landfræðilega dreifingu fulltrúa er kosið í kjördeildum. Skipting bænda í kjördeildir fer eftir landfræðilegum mörkum starfssvæða landshlutabundinna félaga sauðfjárbænda eins og þau voru 1. janúar 2021. Stjórn deildarinnar er heimilt að sameina kjördeildir að höfðu samráði við félagsmenn á starfssvæðum viðkomandi kjördeilda. 

Fjöldi fulltrúa á deildarfund úr hverri kjördeild fer að hálfu leyti eftir hlutfalli félagsgjaldaveltu félagsmanna á starfssvæði kjördeildarinnar í hlutfalli við félagsgjaldaveltu deild sauðfjárbænda og að hálfu leyti eftir fjölda félagsmanna á starfssvæði kjördeildarinnar í hlutfalli við heildarfjölda félagsmanna í deild sauðfjárbænda. 

Kjör fulltrúa deildarfundar gildir milli deildarfunda komi til auka deildarfundar eða annarra verkefna sem gætu kallað á aðkomu þeirra. 

4.3. gr. 

Á dagskrá deildarfundar skal vera: 

a) Skýrslur stjórnar og annarra þeirra er fara með trúnaðarstörf fyrir deildina.   

b) Samþykktir (ef þess þarf). 

c) Tillögur til umræðu og afgreiðslu. 

d) Kosning stjórnar skv. 6. gr. samþykkta þessara. 

f) Starfsáætlun næsta árs. 

g) Önnur mál. 

4.4. gr. 

Deildarfundur kýs sér tvo fundarstjóra, sem stjórna fundinum og taka ákvörðun um málsmeðferð og atkvæðagreiðslur. Fundarstjórar tilnefna fundarritara. 

Kjörnir fulltrúar hafa einir atkvæðisrétt á deildarfundi og ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða úrslitum í afgreiðslu mála, nema þar sem samþykktir deildarinnar eða Bændasamtaka Íslands mæla fyrir um aukinn meirihluta. Séu atkvæði jöfn í kosningu trúnaðarmanna skal hún endurtekin. Séu atkvæði enn jöfn skal hlutkesti ráða. 

4.5. gr. 

Deildarfundur er opinn til áheyrnar öllum félagsmönnum í deild sauðfjárbænda. Þó er heimilt að loka fundinum fyrir öðrum en stjórn deildarinnar, stjórn Bændasamtaka Íslands og kjörnum fulltrúum, um einstök málefni. Óski fleiri aðilar, en kosnir hafa verið til fundarsetu, eftir að sitja fundinn með málfrelsi og tillögurétt skal það borið undir fundinn hverju sinni. 

4.6. gr.  

Mál sem taka á til afgreiðslu á deildarfundi, skulu hafa borist stjórn deildarinnar innan þess tímafrests sem samþykktir BÍ segja til um. Deildarfundi er skylt að fjalla um öll þau mál sem berast frá fullgildum félagsmönnum skv. 3. gr.  

Öll gögn sem leggja á fram, til umfjöllunar eða afgreiðslu skulu birt fulltrúum deildarfundar innan þess tímafrests sem samþykktir BÍ segja til um. Deildarfundur getur þó ákveðið að taka til afgreiðslu eða umfjöllunar mál eða málsgögn sem koma síðar fram. 

Stjórn ákveður heiti starfsnefnda og fjölda þeirra. Stjórn raðar fulltrúum í nefndir og skipar formenn þeirra. Stjórn úthlutar nefndum málum til umfjöllunar. 

4.7. gr.  

Meðan stjórn deildarinnar fer með málefni Landssamtaka sauðfjárbænda kt. 630885-1409  skal aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn sama dag og deildarfundur.   

5. gr. Aukadeildarfundur 

Heimilt er að boða til aukadeildarfundar samkvæmt samþykktum Bændasamtaka Íslands. Um rétt til fundarsetu á aukadeildarfundi gilda sömu reglur og á deildarfundi. Atkvæðis- og tillögurétt á aukadeildarfundihafa réttkjörnir fulltrúar á deildarfundi.

6. gr. Skipan stjórnar 

Á deildarfundi skal kjósa 5 manna stjórn, formann og fjóra meðstjórnendur. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára og skal kjósa um tvo í senn á deildarfundi ár hvert.  

Framboð til formanns og stjórnar deildarinnar skal hafa borist fundarstjóra áður en kosning hefst. Sé enginn eða einn sem tilkynnir framboð til formennsku deildar eða til setu í stjórn fyrir hvert svæði fyrir sig skal kjósa óbundinni kosningu milli allra félagsmanna deildarinnar. Séu tveir eða fleiri sem tilkynna framboð skal einungis kosið bundinni kosningu milli þeirra sem tilkynna framboð. Hljóti enginn meira en helming atkvæða í fyrstu umferð skal kosið aftur milli tveggja efstu manna. Séu fleiri en tveir efstir með jafnmörg atkvæði skal kosið milli þeirra allra. Sé enn jafnt að lokinni annarri umferð skal draga um hver sé réttkjörinn til formennsku eða stjórnarsetu. 

Til að tryggja landfræðilega dreifingu stjórnarmanna búgreinadeildar er kosið skv. eftirfarandi svæðaskiptingu. Hvert svæði á einn stjórnarmann: 

Svæði 1:Árnessýsla, Gullbringu- og Kjósarsýsla, Borgarfjörður, Dalir og Snæfellsnes. 

Svæði 2: Vestfirðir, Strandir og Húnavatnssýslur, . 

Svæði 3: Skagafjörður, Eyjafjörður,  og Þingeyjarsýslur. 

Svæði 4: Múlasýslur, Skaftafellssýslur og Rangárvallasýsla. 

Að lokinni kosningu til stjórnar deildar skal kjósa þriggja manna varastjórn þar sem allt landið telst eitt svæði og sá er flest atkvæði hlýtur telst 1. varamaður stjórnar og svo koll af kolli. 

Stjórn skal kjósa varaformann úr sínum hópi að loknum deildarfundi. 

Stjórn deildarinnar er jafnframt stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda á hverjum tíma samkvæmt samþykktum þeirra. 

7. gr. Hlutverk og störf stjórnar 

7.1. gr. 

Hlutverk stjórnar deildarinnar er að fara með málefni sauðfjárbænda innan Bændasamtaka Íslands, tryggja að með árvekni og festu sé unnið að hagsmunamálum greinarinnar og að fylgja eftir ályktunum deildarfundar í samræmi við stefnu Bændasamtaka Íslands og í samstarfi við stjórn Bændasamtaka Íslands hverju sinni. 

Stjórnarmenn leiði málefnastarf milli deildarfundar, hver á sínu svæði, ásamt fulltrúum deildarfundar.  

7.2. gr.  

Formaður boðar til stjórnarfunda þegar ástæða þykir til og stjórnar þeim. Þó er honum skylt að boða fund ef tveir stjórnarmenn óska þess, enda sé þá fundarefnið tilgreint. Stjórnarfundur er lögmætur séu þrír stjórnarmenn á fundi. 

Stjórn deildarinnar skal skrá fundargerðir á fundum sínum. Fundargerðir skulu birtar á mínum síðum BÍ svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en að loknum næsta stjórnarfundi. Stjórnarmenn skulu staðfesta afrit af fundargerðinni og hún varðveitt með tryggilegum hætti. 

8. gr. Kjör búnaðarþingsfulltrúa 

Kosning búnaðarþingsfulltrúa fer fram innan tveggja vikna frá kosningu fulltrúa á deildarfund. Um fjölda þeirra búnaðarþingsfulltrúa sem deildin kýs sér gilda samþykktir Bændasamtaka Íslands. Í kjöri geta verið allir þeir fulltrúar sem sitja deildarfund ásamt stjórn deildarinnar.  Gæta skal að landfræðilegri dreifingu fulltrúa, sbr. 6. gr. Stjórn er sjálfkjörin og skal stjórn gera tillögu að dreifingu fulltrúa eftir svæðum.  Fulltrúar hvers svæðis skulu funda sín á milli og tilnefna jafn marga aðal- og varamenn til setu á Búnaðarþingi. Stjórn deildar sér til þess að sá fundur sé boðaður. 

Náist ekki samstaða innan svæðis á þeim fundi skal halda rafræna kosningu meðal allra kjörinna deildarfundafulltrúa svæðisins. 

Kjör búnaðarþingsfulltrúa gildir milli Búnaðarþinga. 

9. gr. Breytingar á samþykktum deildar 

Reglum þessum má aðeins breyta á deildarfundi eða aukadeildarfundi, sem boðað er til þess sérstaklega. Ná þær því aðeins fram að ganga að 2/3 fulltrúa deildarfundar greiði þeim atkvæði. 

10. gr. Gildistími samþykkta 

Samþykktir þessar taka gildi að loknum þeim deildarfundi sem staðfestir þær  með atkvæðagreiðslu. 

11. gr. Samþykktir Bændasamtaka Íslands 

Þar sem samþykktum þessum sleppir gilda samþykktir Bændasamtaka Íslands.