Beint í efni

SAMÞYKKTIR LANDSSAMBANDS KÚABÆNDA
  1. gr.

    Samtökin heita Landssamband kúabænda, skammstafað LK. Heimili og varnarþing Landssambands kúabænda er á skrifstofu Bændasamtaka Íslands.
  2. gr.

    Tilgangur Landssambands kúabænda er að sameina þá, sem stunda nautgriparækt í atvinnuskyni, um hagsmunamál sín og vinna að hagsmunum þeirra innan Bændasamtaka Íslands með beinni aðild félagsmanna LK að Bændasamtökum Íslands.
  3. gr.

    Aðilar að Landssambandi kúabænda skulu vera þeir einstaklingar og lögaðilar sem skráðir eru í búgreinadeild kúabænda innan Bændasamtaka Íslands hverju sinni.

    Landssamband kúabænda ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með eignum sínum, en ekki einstakir félagsmenn.

    Einungis félagsmenn með fulla aðild, sbr. 1. mgr., og starfsmenn búgreinadeildar kúabænda innan BÍ geta gegnt trúnaðarstörfum fyrir Landssamband kúabænda.
  4. gr.

    Aðild Landssambands kúabænda að félagasamtökum er háð samþykki aðalfundar.
  5. gr.

    Aðalfund skal halda árlega og hefur hann æðsta vald í öllum málefnum Landssambands kúabænda.

    Fulltrúar á aðalfund Landssambands kúabænda skulu vera þeir sömu og kjörnir eru til setu á búgreinaþingi búgreinadeildar kúabænda innan Bændasamtaka Íslands sama ár.

    Félagsmenn greiða ekkert félagsgjald til Landssambands kúabænda.

    Stjórnarmenn, varamenn þeirra og skoðunarmenn skulu hafa málfrelsi og tillögurétt á aðalfundi. Aðalfundurinn er opinn til áheyrnar öllum félagsmönnum sbr. 1. mgr. 3. gr. Óski fleiri aðilar en hér er getið um, eftir að sitja aðalfund með málfrelsi og tillögurétt skal það borið undir fundinn.

    Á dagskrá aðalfundar skal vera:

    a) Skýrslur stjórnar.

    b) Afgreiðsla reikninga fyrir næst liðið almanaksár, fullnægjandi félagaskrá skal ávallt fylgja ársreikningi samþykktum á aðalfundi.

    c) Tillögur og erindi til umræðu og afgreiðslu, sem borist hafa með löglegum fyrirvara.

    d) Kosning stjórnar skv. 7. gr. og tveggja skoðunarmanna til eins árs og einn til vara.

    e) Fjárhagsáætlun til næsta árs.

    f) Önnur mál.

    Aðalfund skal halda í kjölfar búgreinaþings búgreinadeildar kúabænda innan Bændasamtaka Íslands og skal boðað til fundarins með minnst 30 daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.
  6. gr.

    Aukafund skal halda þyki stjórn Landssambands kúabænda sérstök nauðsyn bera til og jafnan þegar að minnsta kosti 1/4 félagsmanna óskar þess, enda sé þá fundarefni tilgreint. Aukafund skal boða með minnst 7 daga fyrirvara. Um rétt til fundarsetu á aukafundum gilda sömu reglur og á aðalfundi.
  7. gr.

    Stjórn Landssambands kúabænda skal skipuð fjórum einstaklingum auk formanns, sem allir skulu kosnir til eins árs í senn. Einnig skal kjósa tvo varamenn til eins árs í senn. Kjörgengi til stjórnar og varastjórnar LK skulu hafa þeir einstaklingar sem sitja í stjórn og varastjórn búgreinadeildar kúabænda innan Bændasamtaka Íslands hverju sinni. Formaður LK skal vera sá sami og gegnir starfi formanns búgreinadeildarinnar.

    Komi til þess að samstarfi Landssambands kúabænda og Bændasamtaka Íslands skuli hætt í núverandi mynd, að mati stjórnar LK eða minnst 2/3 félagsmanna LK, skal stjórn LK boða til aukafundar skv. 6. gr. þar sem taka skal málið fyrir. Sé samstarfi hætt skal fara fram stjórnarkjör. Kjörgengi til þeirrar stjórnar skulu eiga allir félagsmenn Landssambands kúabænda og skulu stjórnarmenn kjörnir til næsta aðalfundar. Fyrst skal kosinn formaður og svo aðrir stjórnarmenn. Sú stjórn skal sjálf skipta með sér verkum.
  8. gr.

    Hlutverk stjórnar er að vinna að hagsmunum kúabænda innan Bændasamtaka Íslands í gegnum búgreinadeild, annast málefni LK milli félagsfunda og sjá um að þau séu jafnan í sem bestu horfi.

    Undirskriftir þriggja stjórnarmanna þarf til að skuldbinda félagið.
  9. gr.

    Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda þegar ástæða þykir til og stjórnar þeim. Þó er honum skylt að boða fund ef tveir stjórnarmenn óska þess, enda sé þá fundarefnið tilgreint. Stjórnarfundur er lögmætur sé meirihluti stjórnar á fundi. Stjórn er heimilt að halda fundi með aðstoð fjarfundabúnaðar í gegnum rafræna miðla.

    Stjórn Landssambands kúabænda skal skrá fundargerðir á fundum sínum. Stjórnarmenn skulu staðfesta afrit af fundargerðinni með undirskrift sinni og skal stjórn sjá til þess að þau afrit séu varðveitt með tryggilegum hætti.
  10. gr.

    Staðfestur fjöldi fulltrúa á aðalfundi skal liggja fyrir eigi síðar en 15 dögum fyrir aðalfund. Frá þeim tíma er 7 daga frestur til að gera athugasemdir við fulltrúatöluna. Komi upp álitamál skal stjórn Landssambands kúabænda úrskurða um málið í samræmi við 3. mgr. 5. gr. svo fljótt sem kostur er.

    Mál sem taka á til afgreiðslu á aðalfundi Landssambands kúabænda, skulu hafa borist stjórn Landssambands kúabænda eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund. Öll gögn sem leggja á fram, til umfjöllunar eða afgreiðslu skulu birt aðalfundarfulltrúum eigi síðar en 10 dögum fyrir setningu aðalfundar. Aðalfundur getur þó ákveðið að taka til afgreiðslu mál sem koma síðar fram ef meirihluti þingfulltrúa samþykkir.
  11. gr.

    Samþykktum þessum má aðeins breyta á aðalfundi eða aukafundi, sem boðaður er til þess sérstaklega. Tillögur þar um skulu kynntar félagsmönnum eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund. Ná þær því aðeins fram að ganga að meirihluti fundarmanna greiði þeim atkvæði.
  12. gr.

    Leggist starfsemi Landssambands kúabænda niður og félaginu er slitið skulu eigur þess ganga til búgreinadeildar kúabænda innan Bændasamtaka Íslands.
  13. gr.

    Ákvæði samþykkta þessara gilda frá og með 1. júlí 2021.

    Samþykkt á aðalfundi Landssambands kúabænda í apríl 2021.