Beint í efni

Þingsköp Búgreinaþings Nautgripabænda BÍ

1. gr.

Formaður Nautgripabænda BÍ setur Búgreinaþing deildarinnar og gerir tillögur að starfsmönnum fundarins, þ.e. fundarstjóra, vara fundarstjóra og ritara. Í forföllum fundarstjóra gengur vara fundarstjóri að öllu leyti í hans stað, eftir hans ákvörðun.

Að lokinni kosningu á starfsmönnum fundarins skulu formaður og sérfræðingur Nautgripabænda BÍ flytja skýrslur sínar og að því búnu skulu leyfðar almennar umræður.

2. gr.

Í upphafi fundar leggur stjórn fram lista yfir þá fulltrúa sem hafa atkvæðis- og kosningarrétt á þinginu.

3. gr.

Í þingbyrjun skulu lögð fram þau mál sem borist hafa. Um frest til að skila málum fer skv. samþykktum Nautgripabænda BÍ. Fundarstjóri getur tekið mál út af dagskrá og tekið ný mál á dagskrá ef svo ber undir, þó með samþykki fundarins.

Á búgreinaþingi skulu eftirgreind mál tekin fyrir:

  1. Skýrsla formanns deildar og sérfræðings BÍ.
  2. Tillögur og erindi til umræðu og afgreiðslu, sem borist hafa með löglegum fyrirvara.
  3. Kosning stjórnar skv. 7. gr.
  4. Kosning aðalfulltrúa og varafulltrúa á Búnaðarþing samkvæmt lögum BÍ.
  5. Önnur mál.

Fulltrúar með kjörgengi og kosningarétt hafa rétt til þess að tjá sig um öll mál sem eru til meðferðar á þinginu. Stjórn deildar og varamenn skulu hafa málfrelsi og tillögurétt.

4. gr.

Fundarstjóri stýrir umræðum á þinginu og kosningum þeim er þar fara fram. Skal hann færa mælendaskrá og gefa þeim og öðrum er málfrelsi hafa, færi á að taka til máls í þeirri röð sem þeir óska þess. Þó má hann víkja frá þeirri reglu er sérstaklega stendur á. Nú vill fundarstjóri taka þátt í umræðum frekar en fundarstjórnarstaða hans krefur, víkur hann þá úr fundarstjórastól, en varafundarstjóri tekur við fundarstjórn á meðan. Fundarstjóra er heimilt að takmarka ræðutíma fulltrúa.

5. gr.

Heimilt er að hafa Búgreinaþing lokað um einstök mál eða að öllu leyti. Slíkt skal á valdi þingsins hverju sinni.

Komi fram fyrirspurnir til stjórnar deildar utan dagskrár má fundarstjóri ákveða eina umræðu um þær og setja mörk um ræðutíma.

6. gr.

Afl atkvæða ræður úrslitum mála á fundum. Tillaga fellur á jöfnu.

7. gr.

Stjórn deildarinnar skal skipuð fjórum einstaklingum auk formanns og þriggja  varamanna sem allir skulu kosnir á Búgreinaþingi. Fyrst skal kjósa formann til tveggja ára, næst fjóra fulltrúa í stjórn til eins árs og loks þrjá varamenn til eins árs. Kosningar skulu vera leynilegar. Stjórn kýs sér varaformann og ritara.

Kjörinn formaður og stjórn deildar eru sjálfkjörnir fulltrúar deildarinnar á Búnaðarþingi. Aðrir Búnaðarþingsfulltrúar skulu kjörnir samkvæmt þingsköpum deildarinnar.

Löglega kosin stjórn deildarinnar er jafnframt stjórn Landssamband kúabænda, LK. 

8. gr.

Fundarstjóri stýrir atkvæðagreiðslu.

Atkvæðagreiðsla um ályktanir fer að jafnaði fram með handaruppréttingu þegar um staðarfund er að ræða. Heimilt er að viðhafa leynilega atkvæðagreiðslu um einstök mál ef sérstakar aðstæður kalla á slíkt. Heimilt er að viðhafa atkvæðagreiðslu með nafnakalli.

Sé Búgreinaþing haldið með aðstoð fjarfundarbúnaðar fer atkvæðagreiðsla um ályktanir fram í gegnum rafrænt kosningarform.

Kjör stjórnar deildar, varamanna deildar og Búnaðarþingsfulltrúa skal fara fram með leynilegri atkvæðagreiðslu. Séu atkvæði jöfn í kosningu skal hlutkesti ráða. Kjörinn formaður og stjórn deildar eru sjálfkjörnir fulltrúar deildarinnar á Búnaðarþingi. Aðrir Búnaðarþingsfulltrúar skulu kjörnir samkvæmt þingsköpum deildarinnar. Að lokinni kosningu aðalmanna skal kjósa varamenn.

Fundargerðir skulu frágengnar svo fljótt sem verða má. Þær skulu bornar upp og samþykktar og síðan undirritaðar af fundarstjóra. Jafnframt er fundarstjóra heimilt að leita samþykkis á því að fundargerð sé send þingfulltrúum til staðfestingar.

9. gr.

Á aðal- og aukaþingum gilda almenn fundarsköp að því leiti sem reglur þessar taka ekki til.

Staðfest á Búgreinaþingi Nautgripabænda BÍ, 3. mars 2022