Beint í efni

Heilsa og velferð dýra eru samofin hugtök í nútíma samfélagi. Þegar dýr er tekið í umsjá þarf að hafa þetta tvennt að leiðarljósi í öllum gjörðum.


Ákvæði 1. gr. laga um velferð dýra nr. 55/2013 er markmiðsákvæði sem hafa ber að leiðarljósi við framkvæmd og skýringu laganna og við setningu reglugerða á grundvelli laganna. Meginmarkmið laganna er að stuðla velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.


Bændur sem búfjárhaldarar bera mikla ábyrgð þegar kemur að því að tryggja þau markmið sem koma fram í lögum um velferð dýra, verandi stór hluti þeirra sem halda dýr í stórum stíl. Ætli bóndi að halda dýr þarf að huga að þessum markmiðum ásamt því að vera með viðunandi aðbúnað sem hæfir því dýri sem haldið er. Sá er heldur dýr þarf einnig að búa yfir og afla sér þekkingar sem hæfir viðkomandi dýri og búa að getu til að annast dýrið í hvaða aðstæðum sem kunna að koma upp.


Matvælastofnun fer með eftirlit um að lögum sé fylgt eftir og er ábyrgð þeirra rík og mikilvæg í því að tryggja að hver sá sem heldur dýr framfylgi lögum. Opin og hreinskiptin upplýsingagjöf til fagfólks, eftirlitsaðila og almennings er mikilvægur þáttur í dýravelferð. Í nútíma samfélagi er sífellt verið að þrengja að þeim viðmiðum sem þekkst hafa og þurfa bæði þeir sem hafa dýr í sinni umsjá og eftirlitsaðilar að sjá til þess að ekki sé verið að ofbjóða kröftum dýrs eða þoli og vernda þau gegn hverjum þeim meiðslum, sjúkdómum eða hverri annarri hættu sem kann að steðja að á meðan lífi þeirra gætir.


Bændasamtök Íslands eru leiðandi afl í upplýstri umræðu um landbúnað og framleiðslu landbúnaðarafurða og er heilsa og velferð dýra þar ekki undanskilin. Samtökin eiga fulltrúa sem sitja í fagráði um velferð dýra og situr hann mánaðarlega fundi ásamt öðrum fulltrúa ráðsins. Ráðið er skipað af matvælaráðherra og er ráðgefandi til Matvælastofnunar um öll þau mál sem fyrir ráðið koma.


Í stefnumörkum samtakanna segir að tryggja þurfi fæðuöryggi, matvælaöryggi og að sjálfbærni í matvælaframleiðslu sé tryggð með innra eftirliti, áhættugreiningu, rekjanleika afurða og vara. Aðbúnaður búfjár þarf að vera í samræmi við lög og reglur og notkun lyfja-, varnarefna- og hormónanotkunar í matvælaframleiðslu er ein sú minnsta á heimsmælikvarða. Sérstaða íslenskra bænda er mikil og er t.a.m. notkun á einskiptis vatni fyrir dýr, þar ofarlega á blaði. Góð meðferð dýra skilar heilnæmum og gæðamiklum afurðum og beita samtökin sér fyrir því að svo sé með því að tryggja velferð búfjár í íslenskum landbúnaði með fræðslu og upplýsingagjöf til félagsmanna.


Í stefnumörkum Bændasamtakanna er kafli 5 helgaður dýravelferð. Þar er fjallað um mikilvægi þess að hafa eftirlit með dýrahaldi skilvirku og að leiti þurfi allra leiða til að greina aðsteðjandi vanda sem fyrst. Aftur á móti þá þurfa kröfur um aðbúnað og velferð dýra einnig að gilda um innfluttar dýraafurðir og að þær framleiddar við sambærilegar aðstæður og hér gilda til að bændur hér á landi standi jafnfætis bændum í öðrum löndum.