
Undirritaður hefur verið samningur milli Sjóvár og Bændasamtaka Íslands (BÍ) fyrir alla félagsmenn samtakanna. Hóptryggingin greiðir bætur vegna útlagðs kostnaðar vátryggðs félagsmanns við tímabundna afleysingu verði hann ófær til starfa á vátryggingartímanum af völdum slyss eða sjúkdóms. Félagsmenn munu því framvegis leita til Sjóvár varðandi bætur en ekki til Velferðarsjóðs BÍ eins og áður. Sjóðurinn stendur straum af greiðslu iðgjalda fyrir hóptrygginguna sem og greiðslu á eigin áhættu.
Hér að neðan er að finna helstu upplýsingar um trygginguna. Starfsfólk BÍ getur veitt nánari upplýsingar en að öðru leyti skal leita til Sjóvár varðandi bætur og meðhöndlun tjóna.
Bændasamtökin hvetja félagsmenn til að huga vel að sinni tryggingavernd.
Hægt er að fá upplýsingar um landbúnaðartryggingar Sjóvár hér.
Spurt og svarað um Staðgengilstryggingu
Hvað er Staðgengilstrygging?
Staðgengilstrygging greiðir kostnað við staðgengil eða aðkeypta þjónustu sem fellur til ef félagsmaður verður óvinnufær í a.m.k. þrjá mánuði af völdum veikinda eða slysa.
Hverjir eru tryggðir í Staðgengilstryggingu?
Staðgengilstrygging nær yfir alla félagsmenn Bændasamtaka Íslands á aldrinum 18 til og með 74 ára.
Hvað eru bætur staðgengilstryggingar háar og hvað eru þær greiddar lengi?
Bætur geta orðið allt að 350.000 kr. á mánuði og eru greiddar í sex mánuði að hámarki, þó ekki fyrir fyrsta mánuð óvinnufærni.
Hvað þarf óvinnufærni að vera mikil til að eiga rétt á bótum úr Staðgengilstryggingu?
Óvinnufærni þarf að vera 50% að lágmarki til að eiga rétt á bótum úr Staðgengilstryggingu.
Hvenær falla nýir félagsmenn Bændasamtakanna undir Staðgengilstryggingu?
Nýir félagsmenn eru tryggðir í Staðgengilstryggingu eftir þrjá mánuði frá félagsaðild.
Hvernig tilkynni ég tjón í Staðgengilstryggingu?
Þú getur tilkynnt í gegn um heimasíðu Sjóvár, www.sjova.is. Á forsíðunni er grænn hnappur „Tilkynna tjón“. Þegar þú hefur smellt á hann, skráir þig inn með rafrænum skilríkum og hefur ferlið. Spurningarnar skýra sig sjálfar en mikilvægt er að hafa eftirfarandi í huga:
- Þar sem spurt er hver sé skráður fyrir tryggingunni, er kennitala Bændasamtaka Íslands slegin inn en hún er 631294-2279
- Þar sem óskað er eftir fylgigögnum, setur þú inn afrit af reikningi fyrir þjónustu staðgengils eða aðra aðkeypta þjónustu sem er eingöngu til kominn vegna óvinnufærninnar.
Þegar þú hefur lokið ferlinu fer það í vinnslu hjá Sjóvá sem sendir þér upplýsingar um næstu skref.