Beint í efni

Reglur fagráðs í hrossarækt um ræktunarbú ársins:

Gögnin sem liggja til grundvallar við val á ræktunarbúi ársins eru dómar allra fulldæmdra hrossa á viðkomandi ári, með IS í sínu fæðingarnúmeri, þ.e. fædd á Íslandi. Þá liggja og allar kynbótasýningar í heiminum undir. Aðeins hæsti dómur hvers grips telur með. Öll hross telja þar sem viðkomandi ræktandi er tilgreindur, þ.e. hross sem hér telja til stiga eru stundum ekki lengur í eigu viðkomandi ræktenda/bús. Réttar skráningar upplýsinga í W-Feng eru hér lykilatriði, sá grunnur sem allt byggir á.

Fyrsta sían sem lögð er á gögnin er að a.m.k. fjögur hross frá búi hafi hlotið fullnaðardóm á árinu. Önnu sían að a.m.k. 2 þeirra hafi náð 8,00 í aðaleinkunn.

Aðaleinkunnir hrossanna eru þá leiðréttar fyrir aldri og kyni líkt og gert er við útreikning á kynbótamatinu. Við útreikning á meðaleinkunn sýndra hrossa og samantekt á fjölda hrossa er aðeins horft til hrossa frá hverju búi sem ná 8.00 í aðaleinkunn (sem búið er að leiðrétta fyrir aldri og kyni) – lágmark er fjögur hross. Þá er búum raðað upp eftir fjölda sýndra hrossa og leiðréttum aðaleinkunnum. Stig þessara þátta eru lögð saman fyrir hvert bú og raðað eftir skori.

Heiðurs- og fyrstu verðlauna gripir ræktenda, á sýningarárinu, telja til stiga samkvæmt eftirfarandi reglum:

  • Heiðursverðlaun hryssu á árinu gilda sem eitt einstaklingsdæmt hross og hækkar meðaleinkunn búsins um 0.05 stig.
  • Heiðursverðlaun stóðhests á árinu gilda sem fjögur einstaklingsdæmd hross og hækkar meðaleinkunn búsins um 0.05 stig.
  • 1. verðlaun stóðhests á árinu gilda sem tvö einstaklingsdæmd hross og hækkar meðaleinkunn búsins um 0.05 stig.


Fagráð tilnefnir á hverju ári 12 efstu búin til þessarar viðurkenningar og þegar það liggur fyrir hver þessi bú eru, er stigað og raðað að nýju innbyrðis (eftir meðaleinkunn og fjölda hrossa) svo endanleg röðun náist fram.

Tekið skal fram að sá hrossahópur sem kemur til álita ár hvert sem grundvöllur ræktunarbús ársins og þeirra búa sem tilnefnd eru verður að hafa sama uppruna/upprunanúmer. Skráðir ræktendur hrossanna verða að vera skráðir undir upprunanúmeri búsins (s.s. einstaklingur og rekstrarkt. hans / fjölskyldur og rekstrarkennitölur á sömu fastanúmerum).

Undantekning: Tengja má saman tvö upprunanúmer ef viðkomandi ræktendur hafa flust búferlum eða rækta hross á tveimur jörðum, enda er um sama (eða sameiginlegan) rekstur að ræða. Til að Fagráð geti tekið tillit til þannig aðstæðna þarf að tilkynna þetta fyrir 1. maí ár hvert.

Að lágmarki einn ræktandi sem stendur að hverju ræktunarbúi þarf að vera fullgildur félagi í BÍ og er þá miðað við félagatal 1.maí ár hvert. Ekki er gerður greinamunur á að ræktandi sé persóna eða skráð kennitala fyrirtækis.