Beint í efni

Af mörgu er að taka er fjallað er um kynbætur og ræktun. Yfir 100 ár eru liðin frá því að fyrsta ræktunarfélagið um íslenskar kýr var stofnað og byggir ræktun kúa í dag að miklu leiti enn á sömu viðhorfum og í upphafi voru viðhöfð.

Með verkefni um erfðamengisúrval hefur komið í ljós að íslenski kúastofninn á sér ættingja meðal norður norrænna kúakynja og nánustu ættingjar eru gömlu skandinavísku landkynin.

Frekari upplýsingar um erfðamengisúrval má finna HÉR

Hér að neðan er hægt að tengjast nokkrum undirsíðum meðal annars með upplýsingum um uppbyggingu sæðingastarfsins í dag, upplýsingum um holdanautastarfsemina, nautaskrá ofl.


Kynbótamat (frá 2019)

Kynbótaeinkunn fyrir afurðir lýsir mögulegri erfðafræðilegri getu til að framleiða sem mest magn verðefna, það er mjólkurfitu og -próteins. Kynbótamat fyrir afurðir og frumutölu hefur verið byggt á mælidagalíkani síðan 2019 og byggja aðferðirnar á meistaraverkefni Jóns Hjalta Eiríkssonar og rannsóknum Egils Gautasonar. Þegar mælidagalíkanið var tekið upp 2019 varð sú breyting á að vægi á afurðum lækkaði úr 44% í 36%. Samsetning afurðareinkunnar breyttist einnig á þann veg að fituafurðir fengu 47% vægi, próteinafurðir 48% og próteinhlutfall 5%. Með þessari breytingu endurspeglar afurðaeinkunnin verðhlutföll verðefnanna auk þess sem 5% próteinhlutfallið viðheldur hlutfallinu jafnháu og áður var. Vægi annarra eiginleika breyttist einnig lítillega en stærsta breytingin var sú að ending er eingöngu inn í heildareinkunn nauta sem hafa reiknaða endingareinkunn.
Í töflunni má sjá vægi eiginleika fyrir og eftir breytingu:

 EldriNý heildareinkunn 
EiginleikieinkunnNautKýr
Afurðir44%36%36%
Frjósemi8%10%11%
Frumutala8%8%9%
Júgur8%10%11%
Spenar8%10%13%
Mjaltir8%8%10%
Skap8%8%10%
Ending8%10%

Við keyrslu kynbótamats í október 2021 var nýtt frjósemismat tekið í notkun en það byggir á bili frá burði til fyrstu sæðingar, bili frá fyrstu til síðustu sæðingar og fanghlutfalli við fyrstu sæðingu hjá kvígum í stað bils milli burða áður. Frjósemismatið er unnið af Þórdís Þórarinsdóttur og byggir á MSc-verkefni hennar við LbhÍ. 


Í janúar 2022 var tekið upp nýtt endingarmat sem byggir á fjölbreytu-einstaklingslíkani í stað feðralíkans áður. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins annast kynbótamatsútreikninga í nautgriparækt og í dag hefur Þórdís Þórarinsdóttir veg og vanda að þeirri vinnu. 

Kynbótamatið er keyrt fimm sinnum á ári og hefst keyrsla á eftirfarandi dögum: 

  • 20. janúar
  • 20. mars
  • 20. maí
  • 20. september
  • 20. nóvember

Niðurstöður eru að jafnaði lesnar inn í Huppu 2-4 dögum eftir að keyrsla hefst.

Hér má finna niðurstöður úr skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar.

Vaxtargeta íslenskra nauta í kjötframleiðslu: Skýrsla eftir Þórodd Sveinsson (2017), SJÁ HÉR

Hagrænt vægi eiginleika í nautgriparækt: Skýrsla eftir Jón Hjalta Eiríksson og Kára Gautason, SJÁ HÉR

Gagnasafn úr íslenskum fóðrunartilraunum með mjólkurkýr—nýting í leiðbeiningastarfi: Samantekt eftir Jóhannes Sveinbjörnsson (2018), SJÁ HÉR


Lokaverkefni nemenda við Landbúnaðarháskóla Íslands sem snúa að greininni:

Athugið að Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins býður upp á þjónustu og aðstoð tengda ræktun og kynbótum nautgripa, nánar á www.rml.is


Holdagripir - Innflutt Angus erfðaefni 

Nautgriparæktarmiðstöð Íslands (Nautís) sem á og rekur einangrunarstöð fyrir holdagripi á Stóra Ármóti er í jafnri eigu Bændasamtaka Íslands, Landssambands kúabænda og Búnaðarsambands Suðurlands. Einangrunarstöðin var byggð í kjölfar samþykkis reglugerðar árið 2015 um innflutning erfðaefnis holdanauta. Reglugerðin gerir stífar kröfur um allt sem að innflutningnum snýr, jafnt útbúnað einangrunarstöðvarinnar sem og þess erfðaefnis sem flutt er inn. Þar segir m.a. að erfðaefnið megi eingöngu koma frá ákveðinni ræktunarstöð í Noregi og einungis úr gripum sem fæddir eru í Noregi og dvalið þar allt sitt líf. Það byggist alfarið á þeirri staðreynd að heilsufar nautgripa í Noregi er með því besta sem þekkist.

Fyrstu Angus fósturvísarnir voru fluttir inn haustið 2017 og að morgni 30. ágúst 2018 fæddist fyrsti kálfurinn, Vísir, tilkominn með innfluttum fósturvísum af Aberdeen Angus kyni frá Noregi í einangrunarstöð Nautís á Stóra Ármóti. Alls voru ellefu kýr sæddar með Angus fósturvísum og en skiluðu þær tólf lifandi kálfum sumarið 2018, 7 kvígum og 5 nautum, þar sem ein kýrin var tvíkelfd. Kálfarnir voru undan nautinu Lis Great Tigre nema einn nautkálfur sem var undan First Boyd og hlaut hann nafnið Draumur. Að mjólkurskeiði loknu voru allir kálfarnir færðir í 9 mánaða einangrun þar sem þeir þyngdust vel eða um 1,1-1,76 kg á dag. Sex kýr fylgdu þeim inn í einangrunina en kálfarnir voru teknir frá þeim í febrúar 2019. Það var svo í ágúst 2019 sem sæðistaka hófst úr nautunum sem þar fæddust. Að henni lokinni voru nautin seld bændum til brúkunar í sínum hjörðum. Kvígurnar voru hins vegar fluttar að tilraunabúinu að Stóra Ármóti þar sem þær voru síðar sæddar með sæði úr Draumi og fósturvísum skolað úr þeim. Það náðust 46 fósturvísar sem seldir voru til bænda. Að því loknu voru kvígurnar sæddar með innfluttu sæði. 

Í júní 2018 voru keyptar 38 kýr og fósturvísum komið fyrir í þeim. Einungis 11 kýr héldu þó og fæddust 7 kvígur og 4 naut í lok júní 2019. Nautin voru undan Hovin Hauk (3 stk), Horgen Eirie (1 stk) og kvígurnar undan sömu nautum og þrjár undan Stóra Tígra. Einni kvígunni undan þeim síðastnefnda varð að farga vegna hjartagalla. Vaxtarhraði kálfanna sem fæddir voru 2019 var ívið meiri en kálfanna 2018 eða að meðaltali 1,36 kg á dag. Að lokinni einangrun fóru nautin í sæðistöku og voru síðan seld bændum í ágúst 2020 en kvígunum var haldið eftir til áframhaldandi ræktunar í einangrunarstöðinni. 

Vorið 2019 voru keyptir 41 fósturvísar undan nautinu Emil av Lillebakken og 40 kýr. Fósturvísainnlögnin gekk vel en einungis átta kýr festu fang. Sex kýr báru síðan kálfum í júní 2020 þar sem tvær kýr létu stuttu fyrir burð. Þriðji árgangur holdanautagripa í einangrunarstöðinni fæddist því sumarið 2020 voru það 3 naut og 3 kvígur. Að mjólkurskeiði loknu voru þau færð í einangrunarhluta stöðvarinnar þar sem þau dvöldu þar til í júní 2021. Þau þroskuðust vel, tömdumst vel, eru jafnvaxnir og geðgóðir gripir. Nautkálfarnir uxu að meðaltali um nærri 1,6 kg/dag frá fæðingu og kvígurnar um tæp 1,3 kg/dag. Líkt og árin á undan, fóru nautin í sæðistöku að einangrun lokinni, voru síðan seld holdanautabændum sumarið 2021 en kvígurnar urðu í einangrunarstöðinni til áframhaldandi ræktunar.

Í janúar 2020 var fósturvísum skolað úr kvígunum sjö undan Stóra Tígri. Alls náðust 46 fósturvísar, af þeim var 7 fósturvísum komið fyrir í fósturmæðrum á Stóra-Ármóti. Einungis tvær þeirra festu þó fang. Þann 2. nóvember fæddist nautið Skugga-Sveinn en hann var fyrsta afurð fósturvísaflutnings úr kvígum fæddum 2018 (fyrstu Angus kvígurnar). Að lokinni einangrun var Skugga-Sveinn fluttur á Nautastöðina á Hesti en ekki hefur tekist að ná sæði úr honum. Í framhaldinu voru kvígurnar sjö sæddar um sumarið 2020 með frosnu sæði úr Jens av Grani frá Noregi. Héldu þær allar og ákveðið var að sæða kvígurnar fæddar 2019 sömuleiðis með sæði úr Jens av Grani í stað þess að skola úr þeim fósturvísum. 

Alls fæddust þrettán kálfar, 6 naut og 7 kvígur á tímabilinu febrúar til ágúst 2021, allir undan Jens av Grani. Að auki fæddust þrjár kvígur úr fósturvísum undan Emil av Lillebakken. Ákveðið var að skola fósturvísum úr nokkrum kvígum sem fæddar voru 2018. Tíu góðir fósturvísar fengust og var komið fyrir í jafnmörgum kúm af mjólkurkúakyni. Þrjár kýr heldu fangi og því fyrstu kálfar ársins 2022 undan Jens af Grani. Í framhaldinu var ákveðið að koma kálfi í tvær af þessum þremur kvígum og selja þær fengar til bænda. Nautin fóru að mjólkurskeiði loknu í einangrun, sæðistöku og verða seld bændum sumarið 2022. 

Að vori 2022 voru alls 10 kvígur og 6 kálfar í einangrun. Tólf Angus kýr og sex fósturmæður af mjólkurkúakyninun með fangi. Þegar aðalfundur Nautís var haldinn í maí 2022 voru 15 kálfar fæddir, 9 kvígur og 6 naut. Von var á þremur kálfum til viðbótar. Alls voru þá 46 holdagripir í eigu Nautís, þarf af þrír utan einangrunarstöðvarinnar (Tvær Angus kvígur á Stóra-Ármóti ásamt Skugga-Sveini) og þrír kálfar væntanlegir. 

Um miðjan júní voru síðan auglýstir til sölu eru 12 Angus gripir, sjö naut og fimm kvígur, þar af tvær kelfdar.


Fagráð

Fagráð í nautgriparækt er skipað samkvæmt fjórðu grein búnaðarlaga nr. 70/1998. Í fagráðinu skulu sitja menn úr hópi starfandi kúabænda, ábyrgðarmaður nautgriparæktar hjá RML og jafnframt skulu sitja í fagráðinu eða starfa með því sérfróðir aðilar.

Hlutverk fagráðs í nautgriparækt er:
– að móta stefnu í kynbótum og þróunarstarfi greinarinnar
– að skilgreina ræktunarmarkmið
– að setja reglur um framkvæmd meginþátta ræktunarstarfsins
– að móta tillögur um stefnu í fræðslumálum og rannsóknum búgreinarinnar
– að fjalla um þau mál sem vísað er til fagráðsins til umsagnar og afgreiðslu


Erfðanefnd landbúnaðarins