
Bændur semja við ríkisvaldið um bókun við nýendurskoðaðan nautgripasamning
26.11.2019
Fulltrúar bænda og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa skrifað undir bókun við samkomulag um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar sem gert var 25. október síðastliðinn. Í bókuninni er vikið að þremur atriðum; hámarksverði greiðslumarks, aðilaskiptum á greiðslumarki og tilfærslu greiðslumarks á milli lögbýla.
Atkvæðagreiðsla um endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar hefst á hádegi miðvikudaginn 27. nóvember. Sem kunnugt er var atkvæðagreiðslunni frestað um viku til þess að ná fram frekari útfærslu á atriðum sem endurskoðun hafði í för með sér.
Bókunin hljóðar svo í heild sinni:
„Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að verð á greiðslumarki á hverjum tíma stuðli að aukinni verðmætasköpun á bújörðum og hagkvæmni í rekstri. Í samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar, sem skrifað var undir þann 25. október 2019, kemur fram að ef verðþróun á markaði verður óeðlileg að teknu tilliti til framboðs, eftirspurnar og aðstæðna að öðru leyti sé ráðherra heimilt, að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga, að setja hámarksverð á greiðslumark.
Aðilar eru sammála um að í janúar 2020 muni framkvæmdanefnd búvörusamninga taka afstöðu til þess hvort setja skuli hámarksverð á greiðslumark á fyrsta markaði með hliðsjón af markaðsaðstæðum. Tillaga verði lögð fyrir ráðherra eigi síðan en 1. febrúar 2020. Hámarksverð getur aldrei orðið hærra en þrefalt lágmarksverð mjólkur til framleiðenda eins og það er á hverjum tíma.
Aðilar eru sammála um að öll aðilaskipti greiðslumarks mjólkur skuli fara fram á markaði samkvæmt ákvæðum samkomulags frá 25. október 2019. Þó verður áfram heimilt að staðfesta aðilaskipti á milli aðila innan sama lögbýlis og tilfærslu greiðslumarks milli lögbýla í eigu sama aðila, enda hafi öll lögbýlin verið í hans eigu fyrir 31. desember 2018.
Aðilar eru einnig sammála um að heimilt verði, frá og með gildistöku samkomulagsins, að staðfesta tilfærslu greiðslumarks milli lögbýla ef framleiðandi, sem er einstaklingur, flytur búferlum með allan sinn rekstur, það er leggur niður rekstur á einu lögbýli í því skyni að hefja hann að nýju á öðru lögbýli, enda sé viðkomandi sannarlega ábúandi á nýju jörðinni, með skráð lögheimili þar og stundi þar búrekstur.
Fyrirkomulag viðskipta með greiðslumark skal nánar útfært í reglugerð í samræmi við samkomulag um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 25. október 2019 og bókun þessa.“
Undir bókunina skrifa Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, formaður Bændasamtaka Íslands, og Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda.
Ný reglugerð, þar sem allar breytingar sem endurskoðaður nautgripasamningur hefur í för með sér, fer í Samráðsgátt stjórnvalda fyrir hádegi á miðvikudag.