Beint í efni

Um verkefnið

Íslensk garðyrkja á sér stutta sögu miðað við annan landbúnað hér á landi. Árið 1924 hófst ræktun í fyrsta atvinnugróðurhúsinu í Mosfellsdalnum. Á síðustu 40 árum hafa miklar tæknibyltingar átt sér stað sem hefur gert íslenskum garðyrkjubændum kleift að stunda heilsársræktun á grænmeti og blómum í gróðurhúsum og rækta harðgerðar garð og skógarplöntur sem þrífast á Íslandi. Verkefnið "Brautryðjendur garðyrkjunnar" segir sögur og heiðrar þá frumkvöðla sem gert hafa íslenska garðyrkju að þeirri þekkingargrein sem hún er í dag.

Mikið hefur verið rætt um kynslóðarskipti og nauðsyn þess að fá inn ungt fólk í greinina. Þá hefur búum verið að fækka og þau sem eftir verða að stækka, hver garðyrkjustöð hefur að sama skapi verið að sérhæfa sig og því mjög sérhæfð þekking sem byggist upp á hverju garðyrkjubúi. Þá er mjög mikilvægt fyrir nýliða í greininni að fræðast um þá sem ræktað hafa íslenska garðyrkju á undanförnum áratugum til að læra af þeim svo þeir geti gert betur fyrir komandi kynslóðir

Upphaf verkefnisins

Verkefnið hófst í upphafi 2024 og er stýrt af ritnefnd á vegum stjórnar deildar garðyrkjubænda. Í ritnefnd sitja Óli Finnsson, formaður ritnefndar, Guðríður Helgadóttir skólastýra Garðyrkjuskólans og Bergvin Jóhannsson kartöflubóndi og fyrrum formaður Landsambands Kartöflubænda. Ritnefnd fékk svo Pálma Jónasson sagnfræðing og rithöfund til að undirbúa og taka viðtöl við brautryðjendur í garðyrkju.

Pálmi Jónasson er sagnfræðingur með meistarapróf í stjórnun (MBA). Hann starfaði á fjölmiðlum í rúmlega þrjá áratugi, þar af aldarfjórðung á fréttastofu RÚV. Pálmi hefur gefið út fimm bækur en sú síðasta "Að deyja frá betri heimi - Ævisaga Jónasar Kristjánssonar læknis" kom út 2023.