Sigurdís og Gunnar í Ártanga
09.12.2024

Gróðrastöðin Ártangi
„Byrjaði sem brúðkaupsgjöf“
Hjónin Sigurdís Edda Jóhannesdóttir og Gunnar Þorgeirsson garðyrkjufræðingur eiga garðyrkjustöðina Ártanga í Grímsnesinu, rétt norðaustan við Hestvatn. Stöðin var reist árið 1986 í landi sem hafði tilheyrt Ormsstöðum en þar hafði Edda búið frá sjö ára aldri. Mun meira vatn kom í ljós þegar borað var eftir heitu vatni á Ormsstöðum um 1980 og það kom í góðar þarfir þegar Edda og Gunnar reistu gróðurhús í ársbyrjun 1986. Þau voru þá nýkomin frá Danmörku þar sem þau höfðu unnið á ýmsum garðyrkjustöðvum og Gunnar lært garðyrkju í Gartnerskolen í Søhus.

„þegar við giftum okkur þá fengum við tuttugu lömb og tvo hektara í brúðargjöf og aðgang að heitu vatni.“
Edda og Gunnar giftu sig árið 1984 og Edda segir að þetta hafi í raun byrjað sem brúðkaupsgjöf frá foreldrum hennar. „þegar við giftum okkur þá fengum við tuttugu lömb og tvo hektara í brúðargjöf og aðgang að heitu vatni.“ Edda flutti austur um haustið en Gunnar ekki fyrr í desember því hann þurfti áður að ljúka sveinsprófi í prentverki. Gunnar segir að þau hafi þá verið að velta fyrir sér hvað þau ætluðu að gera þegar þau væru orðin stór. „Mig dreymdi nú alltaf um að reisa fjós og fara bara að mjólka kýr af því að ég kunni það. En þá kom Bjarni Finnsson að máli við okkur en hann er tengdur inn í mína fjölskyldu og rak Blómaval í Sigtúni. Hann spurði hvort við værum ekki til í að fara til Danmerkur og prófa hvort við gætum orðið garðyrkjubændur og framleitt fyrir hann pottablóm.“
Gunnar og Edda fóru því til Danmerkur í febrúar árið 1985 og unnu á nokkrum garðyrkjustöðvum, saman og í sitt hvoru lagi. Fyrst voru þau saman á garðyrkjustöð sem framleiddi þykkblöðunga í stórum stíl. Bjarni Finnsson flutti rauðamöl til Danmerkur sem notuð var í garðyrkjustöðvar og gat því komið ungu hjónunum í samband við viðskiptavini sína. Þau voru síðar á ýmsum garðyrkjustöðvum fram á haust. Edda var þá lögst í barneignir en Gunnar fór í Gartnerskolen í Søhus sem margir íslenskir garðyrkjubændur hafa sótt í gegnum tíðina. „Gartnerskolen í Søhus í verdens navle í Óðinsvéum,“ eins og Gunnar orðar það.
„Gartnerskolen í Søhus í verdens navle í Óðinsvéum.“
Gunnar og Edda voru búin að kynna sér garðyrkju, komin með jarðarpart og áttu öruggan kaupanda afurðanna í Bjarna Finnssyni í Blómavali. En heita vatnið skipti sköpum. Þegar borað var fyrir heitu vatni á Ormsstöðum sem átti að vera til húshitunar, reyndist vatnsæðin mun öflugri en gert var ráð fyrir. Gunnar segir að heita vatnið hafi ráðið úrslitum. „Já, það er náttúrlega grunnforsendan fyrir því að vera í garðyrkju að vera með nógan hita.“ Í ársbyrjun 1986 byrjuðu þau að reisa 200 fermetra gróðurhús úr plasti sem var tilbúið í apríl sama ár. Þar ræktuðu ungu hjónin pottablóm sem seld voru í Blómavali. „Það er náttúrlega ótrúlegt að fara í rekstur í tvö hundruð fermetrum. Ég bara skil ekki hvernig það var hægt,“ segir Edda.
Gunnar segir að þetta hafi verið óttalegt basl í upphafi. „Maður þurfti eiginlega að brenna sig á öllum puttum allan tímann. Maður var svolítið að prófa eitthvað nýtt sem maður hafði aldrei prófað áður þótt við hefðum aðeins unnið við þetta. Það gekk á ýmsu og hefur náttúrlega gengið á ýmsu eins og gerist bara í garðyrkjunni. Þetta eru endalaust skakkaföll öðru hvoru og svo gengur vel hinn daginn. Stundum þarf maður að henda hluta af uppskerunni en á öðrum tímum er hægt að selja allt heila klabbið. Svona hefur þetta bara þróast í gegnum tíðina,“ segir Gunnar en bætir við að þetta hafi þó gengið ágætlega og stækkað smám saman. „Þetta hefur breyst heilmikið. Ég held að við séum með 4.500 fermetra í húsakosti í dag. Þetta hefur breyst mikið.“
„Það er náttúrlega ótrúlegt að fara í rekstur í tvö hundruð fermetrum. Ég bara skil ekki hvernig það var hægt.“
Pottaplöntur eða stofublóm voru ræktaðar í fyrsta gróðurhúsinu sem var aðeins 200 fermetra plasthús. Strax um haustið reistu þau 250 fermetra gróðurhús til viðbótar og næst vor bættu þau við öðrum 250 fermetrum. Tveimur árum síðar eða 1989 bættust við 720 fermetrar og þá var fermetrafjöldinn kominn í 1420 fermetra. Gunnar segir að þá fyrst hafi þau getað farið að kaupa einhvern tæknibúnað, áburðarblandara, gardínur og tæki til að endurvinna vatn. „Þá stökkvum við ansi mörg skref fram á veginn. Grunnkostnaður við garðyrkjustöð eru þessir grundvallar innviðir.

Heimtaug frá RARIK kostar fullt af peningum og áburðarblandari sem sinnir þessu öllu saman kostar líka fullt af peningum. Fullkominn stýribúnaður á gluggum og gardínum, vökvun og öllu saman kostar líka fullt af peningum. En þetta er tæknibúnaður sem ræður við miklu stærri einingar en við erum að vinna með. Það er til dæmis vinnufrekt að pakka túlípönum, tíu stykkjum í eitt búnt. Það er til svoleiðis vél sem pakkar túlípönum sjálfkrafa. En hún getur pakkað 20 milljónum á dag en við erum kannski að framleiða 700 þúsund túlípana allt árið. Er réttlætanlegt að kaupa vél fyrir 25 milljónir króna til að spara tvo starfsmenn í þrjá eða fjóra mánuði yfir árið?“ Grunnkostnaður við garðyrkjustöð eru þessir grundvallar innviðir.“
„Margoft mjög brattar brekkur og kúnninn vill alltaf eitthvað annað.“
Ártangi stækkaði jafnt og þétt á þessum upphafsárum og þau þurftu að prófa sig áfram. Gunnar segir að þau hafi þurft að læra um leið og stöðin stækkaði. „Þetta voru náttúrlega margoft mjög brattar brekkur og kúnninn vill alltaf eitthvað annað, eitthvað öðruvísi. Þá prófum við eitthvað nýtt og það tekur þrjú eða fjögur ár að koma þeirri vöru á markað. Stundum gengur það og stundum ekki. Kúnnanum finnst bara frábært að horfa á vöruna en vill svo alls ekki kaupa hana.“ Edda nefnir pálmatímabilið svokallaða þegar þau fluttu inn græðlinga af pálmatrjám í stórum stíl. Allir vildu kaupa pálmatré en kostnaðurinn varð allt of mikill. „Húsakosturinn var ekki réttur og ekki rétt hitastig. Hérna er maður með tuttugu tegundir í tvö hundruð fermetrum en í útlöndum eru stöðvarnar með eina tegund í fimm þúsund fermetrum. Það er stærsta verkefnið að finna meðalveginn þannig að allar plönturnar dafni vel.“
Gunnar segir að kollegar þeirra frá Norðurlöndunum hafi orðið hissa þegar þeir sáu að þau voru að framleiða jukku, begóníu, burkna og drekatré í sama húsinu. Sjálfir voru þeir kannski bara með begóníu sem þeir ræktuðu á fimm hekturum. Á Ártanga voru bara 500 begóníur innan um allar hinar plönturnar og útilokað að ná fullkomnu hitastigi, rakastigi eða birtuskilyrðum sem hentar öllum þessum mismunandi plöntum. „Það er ekkert hægt að lesa leiðbeiningarnar og stýra öllu rétt því það eru kannski 200 aðrar tegundir í sama húsinu. Þannig að maður þarf að finna þokkalegt meðaltal sem hentar öllum plöntunum.“ Gunnari dreymir um að fara aftur í pottaplönturnar. „Já mig dreymir um að fara aftur í 500 vörunúmerin. Það er ógeðslega skemmtilegt en alveg djöfull erfitt.“




Umsvifin jukust smám saman á upphafsárunum og þegar mest var ræktuðu þau hátt í 400 tegundir af pottaplöntum í 3000 fermetrum af gróðurhúsum. Megnið af sölunni fór í Blómaval en einnig á aðra staði. Árið 2002 bættust laukblóm við framleiðsluna og byggð var 500 fermetra kælirými á Ártanga. En svo kom efnahagshrun og Gunnar segir að þá hafi landsmenn hætt að kaupa blóm. „Þetta var ansi erfitt í pottablómabransanum. Maður hafði bara áhyggjur af því hvernig við gætum náð endum saman. Fólk keypti bara nauðsynjar en engan hégóma eins og ég segi.“
Þau fóru því að líta í kringum sig og niðurstaðan varð sú að fara til Noregs og kynna sér ræktun á kryddjurtum hjá fjórum garðyrkjustöðvum. Edda segir að það hafi verið að áeggjan Magnúsar Ágústssonar ráðunauts. „Magnús benti okkur á að athuga hvort okkur litist á það. Við þyrftum ekki að breyta miklu í húsunum. Við gátum notað borðin sem við vorum með í pottablómunum og fleira, þannig að það var ekki kostnaðarsamt að prófa þetta.“ Frá þeim tíma hefur þetta skipst nokkuð jafnt í Ártanga, helmingurinn kryddjurtir og helmingurinn garðplöntur, mest túlípanar.

„Til að fá lífræna vottun þyrftum við að leysa áburðarmálin einhvern veginn öðruvísi og fá leyfi til að framleiða í pottum.“
Ártangi er langstærsta garðyrkjustöðin á Íslandi í kryddjurtum. Gunnar segir að fjarðlægðarverndin hjálpi mikið, sérstaklega í pottaplöntum og garðplöntum. Sumt þoli einfaldlega ekki að velkjast yfir hafið í gámi í heila viku. „Það er umhugsunarefni af hverjum við náum ekki að framleiða nema 40-50 prósent af grænmetinu sem við borðum á Íslandi. Þar þurfum við að gera betur. Íslendingar eru líka sérstök þjóð sem heimtar bláber og jarðarber alla daga ársins.“ Þetta þekkist ekki annars staðar. Berin hafa sinn árstíma og aspasinn sinn tíma. „Svo gera Íslendingar ekkert úr því þegar fyrsta kartaflan kemur á markað. Í Danmörku er það bara heil skrúðganga til drottningarinnar og nú kóngsins að færa þeim fyrsta kílóið af kartöflum.
Danir eru snillingar í markaðssetningu og við getum lært margt af þeim. Í bændastéttinni höfum við verið að berjast fyrir því að skilgreina hvað sé íslenskt og hvað ekki. Það er gríðarlega mikilvægt að komast þangað með merkinu sem við erum að reyna að innleiða sem staðfestir að varan sé í raun og veru íslensk. Þetta hefði þurft að gerast fyrir 20 árum. Fólk er orðið miklu meðvitaðra núna, talar um sýklaónæmi, hreint vatn og laun fólksins sem vinnur við þetta. Innflutningur er alltaf ódýrari af því að það bitnar á einhverjum. Annað hvort eru menn að nýta sér eiturefni eða varnarefni í ómældu mæli sem er bannað hér á norðurhjara Evrópu eða greiða lág laun. Það skiptir máli að vekja athygli á íslenskri framleiðslu sem skapi störf í litlum samfélögum. Það er ekki hægt að flytja allt inn, bara af því að það er þægilegra, ódýrara og einfaldara.“
Ártangi er vistvæn garðyrkjustöð þótt ekki sé hún vottuð og þar er áhersla lögð á að endurnýta vatn, áburð og mold og lífrænar varnir notaðar í stað eiturs. Gunnar segir að það vanti aðeins upp á lífræna vottun. „Það er talað um það í leikreglunum að til að rækta lífrænt þá þarf það að vera jarðtengt. Það má ekki framleiða í pottum. Samt hefur maður nú farið í lífrænar kryddjurtastöðvar í hinni stóru Skandinavíu þar sem allt er í pottum, þannig að þetta er nú svona dálítið sérstakt. En svo vökvum við náttúrlega með tilbúnum áburði. Til að fá lífræna vottun þyrftum við að leysa áburðarmálin einhvern veginn öðruvísi og fá leyfi til að framleiða í pottum sem er ábyggilega alveg gerlegt. En maður hefur nú séð ýmislegt úti í hinum stóra heimi og mér var nú mest brugðið þegar ég fór til Svíþjóðar þar sem menn voru bara að nota bara kjötmjöl til að vökva með, uppleyst kjötmjöl. Ég held að það myndi aldrei líðast hér.“




„Kúnninn er ánægðari ef varan er eins og hún á að vera.“
Eftirspurnin eftir pottaplöntum og kryddjurtum sérstaklega hefur aukist stöðugt á umliðnum árum. Gunnar segir að vandinn hafi aðallega verið að fá búðirnar til að meðhöndla vöruna rétt. „Þetta hefur verið í stöðugri þróun en það sem hefur kannski helst verið að trufla okkur er umhirðan í búðunum, því þetta er talsvert viðkvæm vara. Maður hefur ítrekað rekist á basilíkuna inni á kæli en hún má alls ekki fara undir fimmtán gráður, því þá verður hún svört. Það kaupir enginn svarta basilíku. En mér sýnist nú vera komið svona nokkuð góður bragur á þetta og þá verða náttúrlega minni afföll fyrir bragðið. Kúnninn er ánægðari ef varan er eins og hún á að vera. Hún á ekki að vera á kæli.“
Á undanförnum árum hafa þau verið að opna garðyrkjustöðina fyrir almenningi. Fólk kemur á vorin og til júlíloka að kaupa garðplöntur og kryddjurtir beint frá býli. Einnig hafa þau verið að þróa sig áfram í að gera matvörur eins og pestó og olíur. „Já við fengum aðstoð við að útbúa viðurkennt eldhús og höfum verið að reyna að nota afgangs afurðir í pestó og smjör og einhverjar olíur til að nýta það sem á að henda,“ segir Edda og Gunnar bætir því við að þetta sé alfarið í hennar höndum. „Þetta vinnst svona eftir því hvað konan hefur mikinn tíma. Allt tekur þetta sinn tíma, því það er mikil handavinna í þessari matargerð. Þetta er ekki á neinum iðnaðarskala. Er í raun og veru bara handverk. Þannig að það skiptir máli hvenær frúin hefur tíma til að sinna þessu.“
"Gunnar er viðhaldið hennar Eddu"
Reksturinn hefur mikið til lent á herðum Eddu þar sem Gunnar hefur verið á kafi í félagsmálastússi. „Já, ég einhvern veginn leiðist alltaf út í einhverja endalausa félagsmálapólitík. Ég náttúrulega byrja á að fara í sveitarstjórn hérna strax 1994 og 1996 fer ég í stjórn Landsbjargar. Ég var í stjórn Landsbjargar í held ég í tólf ár og var oddviti hérna í samfélaginu í sextán ár. Ég var formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga í tíu ár og svo kom ég heim 2018 eftir kosningar og ætlaði bara að gerast almennur starfsmaður hjá konunni í garðyrkjunni. En strax haustið 2019 í aðdraganda Búnaðarþings 2020 þá linntu menn ekki látum fyrr en ég samþykkti að bjóða mig fram í formennsku í Bændasamtökunum sem ég varð árið 2020. Þannig að nú er ég kominn aftur á byrjunarreit og er að velta fyrir mér hvað ég ætla að gera þegar ég verð stór.“

Edda segir að þrátt fyrir allt hafi Gunnar alltaf verið viðhaldið sitt. Þótt oft hafi verið mikið að gera hjá Gunnari, hafi hann alltaf gefið sér tíma til að sjá um allt viðhald á Ártanga. Þetta hefur alltaf verið hálfgert fjölskyldubú á Ártanga. Starfsemin byggðist upp á jörð foreldra Eddu og þau hjónin hafa verið samtaka í rekstrinum þótt þunginn af vinnunni hafi lent á herðum Eddu. Börnin hafa líka tekið þátt í rekstrinum. Reyndar voru fréttir um það árið 2023 að stöðin væri til sölu en Edda segir að nú bendi flest til þess að dóttirin vilji taka við rekstrinum. „Já. Hún hefur áhuga og vill gjarnan taka við en hún er reyndar með svolítinn hrosshaus þannig að hún vill bara vera á hestbaki alla daga. En þetta passar ágætlega saman.“
Tilhneigingin hefur verið sú að garðyrkjustöðvunum hefur fækkað en þær sem eftir eru hafa stækkað. Í sumar verður borað fyrir heitu vatni við Ártanga og því er mögulegt að stöðin geti stækkað í framtíðinni. „Maður á aldrei að segja aldrei,“ segir Gunnar en Edda er varkárari. „No comment“.
„Stærstu áskoranir eru vaxtastigið og verðbólgan.“
Gunnar og Edda eru sammála um að framtíðin í greininni sé björt en það er ýmsar áskoranir sem þarf að kljást við. Gunnar nefnir sérstaklega vexti og flutningsverð á raforku. „Ég held að stærstu áskoranir bara almennt í atvinnurekstri í dag séu náttúrlega vaxtastigið og verðbólga sem er náttúrlega algerlega að fara með allan rekstur hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Við erum að kljást við verðbólgu í hæstu hæðum og vaxtastig sem er í ellefu til sextán prósentum. Svo er talsverð áskorunin í verðlagi á flutningi raforku og þó sérstaklega ef maður býr í dreifbýli eins og við. Það er talsverður verðmunur á flutningi raforku eftir því hvort þú býrð í dreifbýli eða þéttbýli. Eitt af því sem er að trufla okkur í garðyrkjunni er verð á kolsýru sem er nú að verða eitthvað mjög furðulegt fyrirbæri. Sá vandi einskorðast við einokunarstöðu eins fyrirtækis sem selur kolsýru á Íslandi og er að setja hér allt um koll. Svo má ekki gleyma að allir tollar á grænmeti voru afnumdir árið 2012. Þannig er opið á allan innflutning á kryddjurtum án nokkurra tolla. Allt spilar þetta saman og ræður því hvort eitthvað verður afgangs til að stökkva í einhverja risafjárfestingu til þess að halda áfram að vaxa og dafna.“

Gunnar segir að til lengri framtíðar sé framhald á þeirri þróun sem verið hafi á undanförnum árum. „Ég held að stöðvunum komi til með að fækka og stækka enn meira en þær sem fyrir eru í dag. Vandinn í þessu er grunnfjárfestingin. Það er ekki hægt að byrja bara í tvö hundruð fermetrum eins og við gerðum með gamlan áburðarblandara sem maður dæli sjálfur upp úr kari. Þá voru allir gluggar opnaðir með höndum svo það þurfi að rjúka til og opna þegar sólin skein og flýta sér að loka þegar ský bar fyrir sólu. Í dag verður þú bara að kaupa tölvukerfi, áburðarblandara og allan tæknibúnað. Og allur þessi tæknibúnaður í dag er hannaður til að ráða við tíu þúsund fermetra. Það er bara ekki til neitt minna fyrir þessar litlu stöðvar.“
Edda tekur undir að framtíðin sé björt. „Já, ég held að hún sé björt við garðyrkjuna. Við erum með svo hreint vatn og getum ræktað svo góða vöru hér á Íslandi. Framtíðin er bara björt.“