Beint í efni

Hólmfríður og Steinar í Jarðarberjalandi í Reykholti

05.12.2024

Framtíðin er björt í greininni

Hólmfríður Geirsdóttir garðyrkjubóndi og Steinar Jensen rafvélavirki stofnuðu garðyrkjustöðina Kvista í Reykholti árið 2000 en ráku lengi garðyrkjustöðina Jarðarberjaland í Reykholti, Biskupstungum. Hólmfríður lauk námi við Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1982 og hefur starfað við garðyrkju síðan. Hólmfríður hefur séð um ræktunina en Steinar um allt viðhald og uppbyggingu.

Eftir útskriftina úr Garðyrkjuskólanum starfaði Hólmfríður hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur í Fossvogsdal og var þar ræktunarstjóri. Árið 2000 fluttu þau í Reykholt og hófu eigin rekstur. „Ég er lærð í garðplöntuuppeldi og skógarplöntuuppeldi. Á þessum tíma voru landshlutaverkefnin að óska eftir framleiðendum á plöntum og voru með útboð í gegnum Ríkiskaup. Við tókum þátt í útboðinu og fengum verkefni. Við fórum því af stað að leita okkur að landi til að reisa garðyrkjustöð og skoða eldri stöðvar og enduðum hér í Reykholti. Við byrjuðum reyndar á að leigja Garðyrkjustöðina Stalla sem er í næsta nágrenni við Geysi. Þar vorum við með framleiðslu fyrsta árið, á meðan við vorum að byggja upp garðyrkjustöðina Kvista hér í Reykholti, gróðurhús og aðstöðu. Við fluttum svo það sem við ræktuðum á Stöllum, hingað að Kvistum.“

Upphaflega voru þau eingöngu með skógarplöntur í fjölpottabökkum en síðan þróaðist framleiðslan yfir í ýmsar tegundir garð- og skógarplantna, bæði ungplöntur í bökkum og eldri plöntur í pottum. „Þetta var svona aðaluppistaðan hjá okkur en við vorum líka í garðplöntuframleiðslu, trjám og runnum. Það var hugsað fyrir sumarbústaðamarkaðinn hérna í nágrenninu. Svo vorum við með opna sölu á hlaðinu hjá okkur þessi sumur.“ Hólmfríður segir að þetta hafi verið mikil tarnavinna. „Í mars, apríl, maí og júní er verið að fjölga og sá, taka græðlinga og stinga. Það er frekar mannfrek vinna en svo kemur ræktunartíminn yfir sumarið. Á haustin er svo aftur törn þegar þarf að undirbúa plönturnar fyrir vetrardvala, flokkun og pökkun á frystigeymslur. Síðan er rólegra yfir háveturinn. Þá er verið að þrífa bakka og annað, undirbúa og þrífa húsin og svo fer törnin aftur af stað. Þetta er mikil törn yfir sumarið en rólegra yfir vetrartímann.“

Mynd: Bændablaðið

„Þetta voru andvökunætur og erfiðasti tíminn“

Hólmfríður segir að mest hafi þau ræktað sitkagreni, stafafuru og birki en einnig sitkabastarð, ösp, elri, lerki og reyni. Veðrið var alltaf mesta áskorunin á þessum árum og er enn. „Það er alltaf veðrið. Að vera með ungplöntur úti yfir vetrartímann og vita ekkert hvernig veðrið verður. Að geta lent í vetrartjóni eða jafnvel vortjóni þegar plönturnar eru komnar í gang og það koma frostanætur. Þetta voru andvökunætur og erfiðasti tíminn. Við losnuðum við það með því að pakka nánast allri okkar framleiðslu inn á frystigeymslur. Það var mikill léttir að geta geymt plöntur inni á frysti og afgreitt þær þaðan.“ Afkoman var því mjög háð veðurfari. „Já, það var aldrei neitt öruggt með veðrið. Það fannst mér erfiðast.“

Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 ákváðu stjórnvöld að draga saman framlög til skógræktar í landinu. Það hafði þegar mjög neikvæð áhrif á starfsemi Kvista og neyddust þau hjón þá til að draga saman seglin í trjáplönturæktun. Fyrir hrun voru þau að selja um milljón trjáplöntur en eftir hrun fór salan niður í 500-600 þúsund plöntur. Það var ekki fyrr en árið 2019 að salan komst aftur yfir milljón plöntur. „Fyrir hrun vorum við með ágæta samninga við ríkið um skógarplöntuframleiðslu, bæði fyrir landshlutabundnu verkefnin og eins Hekluskóga. Í hruninu var þetta skorið niður um helming. Við vorum búin að reisa fleiri gróðurhús en við hrunið lendum við í að vera með tóm gróðurhús sem er náttúrlega alveg skelfilegt.“

„Berjarækt er töluvert öðruvísi en trjáplönturækt“

Það er vont fyrir reksturinn að vera með tóm gróðurhús og því fóru Hólmfríður og Steinar að leita að nýjum verkefnum. Þá kom Atlantberry verkefnið eins og himnasending en það var sett á fót til að stuðla að framþróun í berjaframleiðslu í atvinnuskyni á Norður-Atlantshafssvæðinu. „Já, við vorum heppin að detta inn i þetta Atlantberry verkefni. Þetta verkefni átti að styrkja og efla ræktun á Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og í norðurhluta Noregs. Við tökum þátt og fáum styrk. Gátum í raun leigt hluta af okkar gróðurhúsum í þetta verkefni. Við fengum þannig styrk til að starta þessu og það varð svo til þess að við heltum okkur út í berjarækt í framhaldinu.“

Upphaflega voru þau með berjarækt í nokkrum gróðurhúsum að Kvistum en síðan keyptu þau Garðyrkjustöðina Stóra-Fljót við hliðina á Kvistum. „Hún var þá orðin mjög illa farin og hafði staðið tóm. Mikið af gleri var brotið og gluggar, mikið frostsprungið, allt hitakerfi og slíkt. Þannig að það þurfti að endurbyggja þar allt og í kjölfarið fórum við með alla berjarækt þangað.“ Berjarækt er töluvert öðruvísi en trjáplönturækt og því margt sem breyttist. „Það tekur sinn tíma að læra á berjaplöntur og maður er náttúrlega alltaf að læra. Ég var náttúrlega heppin að fá ráðunauta til mín í gegnum ráðunautaþjónustuna. Fékk ráðunauta bæði frá Belgíu og Hollandi. Þeir hjálpuðu mér mikið í þessari berjarækt. Lögðu línurnar fyrir mig um hvernig ég ætti að standa að þessu. Ég hef alltaf fengið ráðunaut einu sinni eða tvisvar á ári. Þetta lærist smám saman.“

Hólmfríður Geirsdóttir garðyrkjufræðingur með klasa af hindberjum á mismunandi þroskaskeiði.
Mynd: Bændablaðið

Hólmfríður og Steinar voru í áratug bæði í trjáplöntum og berjarækt. Hólmfríður segir að það fari alls ekki illa saman. „Þetta fór ágætlega saman. Trjáræktin er tarnavinna þar sem mikið er að gera á vorin og svo aftur á haustin. Þar er rólegra á sumrin og því gott að hafa berjaræktina sem er meira á sumrin. Ég gat því flutt mannskapinn á milli verkefna.“ Þegar leið að árinu 2020 ákváðu þau samt að draga saman seglin og selja trjáplöntuhlutann. Eftir nokkuð langt söluferli tók Kvistabær ehf., við rekstri trjáplöntuframleiðslu Garðyrkjustöðvarinnar Kvista í Reykholti, þann 1. mars 2021. „Við ákváðum að fara að trappa okkur niður. Við vorum komin með þrjár garðyrkjustöðvar og ansi mikið að gera. Við hugsuðum með okkur að nú væri komin tími á að róa sig aðeins.“ Þau seldu þannig tvær gróðrarstöðvar af þremur. Héldu einni eftir og sneru sér eingöngu að jarðarberjarrækt í Jarðarberjarlandi sem þau keyptu árið 2017. „Við ákváðum að halda þessari stöð eftir þar sem hér er bara ein tegund í framleiðslu. Það er einfaldara að öllu leyti að vera bara með eina tegund.“

Í Jarðarberjalandi eru ræktuð jarðarber allt árið af yrkinu Sonata sem gefur sæt og bragðmikil ber. Berin eru tínd beint í söluöskjurnar og komið í kæli innan við tveimur klukkustundum eftir tínslu. Gróðurhúsið er þrjú þúsund og sex hundruð fermetra hús og á því eru sex burstir. Hverri burst er skipt í tvennt sem gefur tólf einingar. Með örlítilli einföldun er plantað með viku millibili í hverja einingu. „Þannig rúllar húsið í gegnum allt árið. Þannig að það er alltaf verið að planta og plönturnar á öllum stigum. Bæði nýjar plöntur og verið að klára tínslu á sumum plöntum. Ferlið frá útplöntun og þar til plöntunni er hent er svona fjórir til fjórir og hálfur mánuður.“

„Engin plöntulyf eða eiturefni notuð“

Við framleiðslu berjanna eru engin plöntulyf eða eiturefni notuð, heldur notast við lífrænar varnir gegn skordýrum eins og vespur sem ráðast á lýsnar og maura sem éti aðra maura sem valda plöntuskaða. „Við setjum vikulega inn heilmikið af lífrænum vörnum. Ég er þeirrar skoðunar að það sé betra að setja meira en minna þannig að engin hætta sé á að það komi upp einhverjar pestir. Hér er aldrei úðað og við erum með UVC lýsingu yfir öllu. Hún hangir hér með ræktunarlýsingunni og fer í gang þrisvar á sólarhring. Hún heldur niðri öllum sveppasýkingum og jafnvel vírusum. Það er fyrst og fremst mjöldögg sem við höldum niðri með lýsingunni.“ Í gróðurhúsinu er mikið af býflugum og þær eru mikilvægur starfskraftur. „Já, býflugurnar eru náttúrlega hérna til að frjóvga blómin. Við fengjum engin ber án þeirra og það er mikilvægt að þær séu virkar. Við kaupum býflugnabú og flugurnar eru aktívar í svona tvo til þrjá mánuði. Frjóvgun getur verið vandamál yfir vetrartímann því flugurnar sjá ekki ræktunarlýsinguna og því er myrkur fyrir þeim allan sólarhringinn. Þá þarf að örva þær með því að banka svolítið í búrin og fjölga flugum.“

Mynd: Sölufélag Grænmetisbænda - SFG

Garðyrkjustöðin varð fyrir þungu höggi árið 2017 þegar Costco kom inn á markaðinn. Salan hrundi en ári síðar var komið jafnvægi aftur á markaðinn. Enn verra áfall varð 22. febrúar 2022 þegar Jarðarberjarland eyðilagðist í aftakaveðri sem gekk yfir Suðurland. Ársframleiðslan var þá um 32 tonn en þá voru rúmlega 18 þúsund jarðarberjarplöntur í húsinu sem eyðilagðist. „Þetta var rosalegt áfall. Við misstum alveg húsið okkar, það var tvö þúsund fermetrar þá. Það fór alveg. Við vorum nýbúin að græja húsið í mjög gott stand með alveg ágætum búnaði. Ég var búin að stilla ræktuninni eins og ég vildi hafa hana til að hér væri jöfn uppskera allt árið. Þetta fór bara allt saman. Þetta var rosalegt áfall.“

„Þetta var rosalegt áfall“

Tryggingar bættu tjónið að hluta en Hólmfríður og Steinar urðu fyrir miklu fjárhagslegu tjóni og ákváðu að hætta rekstri. Mánuði síðar skiptu þau um skoðun. „Við vorum alveg samtaka í því að hætta en kannski ekki eins samtaka í að hætta við að hætta. Ég held að ég hafi kannski ýtt svolítið meira á að halda áfram. En við urðum sammála um að gera það. Þá settum við allt í gang til að finna sterkara hús sem þolir meira og byrjuðum uppbygginguna aftur.“ Þau rifu gamla húsið sem var 2000 fermetrar og byggðu nýtt 3600 fermetra gróðurhús sem þolir meira veðurálag. Með nýjum lömpum og öðrum búnaði ná þau meiri framleiðslugetu.  

Mynd: Bændablaðið

„Húsið er mikið sterkara og allur búnaður er nýr. Við hentum öllu út úr gamla húsinu og endurnýjuðum allt saman. Lýsingin er orðin töluvert betri en áður og við erum að fá betri og jafnari uppskeru allt árið. Við breyttum því sem við töldum að þyrfti að breyta og ég er mjög ánægð með húsið eins og það er núna.“ Fyrstu plönturnar voru settar í nýja húsið í desember 2022 og fyrsta uppskera fór á markað í mars 2023. „Húsið er núna þrjú þúsund og sex hundruð fermetrar og hér starfa níu manns fyrir utan okkur hjónin. Fjöldi plantna sem við gróðursetjum yfir árið er svona 95 þúsund plöntur og uppskeran er áætluð sextíu til sextíu og fimm tonn.“

Hólmfríður segir að helstu áskoranir og hættur í berjaræktun liggi í pestunum. „Hætturnar liggja á áföllum varðandi pestir. Við þurfum alltaf að vera mjög vakandi að það komi ekki nýjar pestir í plönturnar. Það þarf alltaf að finna nýjar varnir eins og ránmaura eða vespur sem ráðast gegn kvikindunum sem ráðast á plönturnar. Veðrið er alltaf áskorun og manni líður ekki vel í vondum veðrum. En ég treysti nýja húsinu miklu betur og búnaðurinn er líka að standa sig vel. Áskorunin felst í að halda þessu gangandi. Gera áætlun og fylgja henni fast eftir.“

Gróðrarstöðvarnar hafa verið að stækka á umliðnum árum en hefur fækkað að sama skapi. Sérhæfing hefur aukist. „Öll sérhæfing er náttúrlega til góðs. Það er náttúrlega hagkvæmara að vera með færri tegundir. Vinnan verður léttari.“ Hólmfríður segir að þessi þróun muni halda áfram. „Ég held að þetta sé bara stefnan. Sérhæfingin verði meiri, stöðvarnar stækki og fjölgi vonandi. Ég held að Ísland hafi svo margt að gefa en stjórnvöld verða að stíga betur inn að mínu mati. Það þarf að styrkja nýliðun og uppbyggingu. Þetta snýst um fæðuöryggi.“

Hólmfríður og Steinar eru að hugsa um að draga saman seglin eða selja stöðina. „Okkur langar til að fara að stíga út úr þessu. Ég er með gott starfsfólk og er að reyna að byggja upp langtímaráðningar hérna. Ég get vonandi farið að losa aðeins um okkur hjónin svo við séum ekki alveg frá morgni til kvölds alla daga. Vonandi kemur svo einhver kaupandi og tekur við.“

Mynd: Sölufélag Grænmetisbænda - SFG

Hólmfríður er mjög bjartsýn á framtíð greinarinnar. „Hér eru miklir möguleikar og hægt að taka nýjar tegundir í framleiðslu. Við getum framleitt hvað sem er hérna en það kostar. Varan er dýrari en sú innflutta og þannig verður það áfram ef við hugsum um vinnuaflið og launakostnaðinn og allan þann kostnað sem liggur að baki. En ég held að við getum gert miklu meira. En framtíðin er björt í garðyrkjunni.“

Gengið var frá sölu Jarðarberjalands skömmu eftir að viðtalið við Hólmfríði var tekið. Nýjir eigendur eru Friðheimar og taka þau við rekstrinum 1. janúar 2025. „Ég er mjög ánægð með það, veit að þau munu halda vel á rekstri Jarðarberjalands.“