Beint í efni

Yfir helmingur kúnna í lausagöngufjósum

25.11.2009

Landssamband kúabænda hefur látið taka saman þróun á fjósgerðum hér á landi undanfarin ár. Hefur þessi samantekt verið gerð á tveggja ára fresti og er nú nýlokið. Hana annaðist Snorri Sigurðsson, verkefnisstjóri hjá Sprota – frumkvöðla og tækniþróunarsetri LBHÍ. Það sem helst vekur athygli er að í fyrsta skipti í sögunni er yfir helmingur mjólkurkúnna í lausagöngufjósum, réttur fjórðungur mjólkurinnar kemur frá mjaltaþjónum og enn eru viðhöfð hér á landi öll grundvallar vinnubrögð við mjaltir sem þekkjast – allt frá handmjöltum til mjaltaþjóna.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér. Önnur atriði úr skýrslunni eru eftirfarandi:

 

Fjöldi fjósa í framleiðslu á Ísl andi í fyrsta skipti niður fyrir 700, eða í 685, sem þýðir fækkun um 4,9% á tveimur árum.

Fjögur nýbýli hafa verið stofnuð frá síðustu samantekt, sem er einsdæmi.

Básafjós eru enn algengust á Íslandi, eða 65% allra fjósa, en þeim heldur þó áfram að fækka hlut fallslega.

Hlutfall básafjósa með rörmjaltakerfum er hæst á starfssvæði Búnaðarsamtaka Vesturlands (64,8%), en þar fækkar fjósum jafnframt minnst (2,7%).

 

Hlutfall legubásafjósa með mjaltaþjónum er hæst á starfssvæði
Leiðbeiningarmiðstöðvarinnar í Skagafirði (30,2%) en þar fækkar fjósum jafnframt mest (8,6%).

 

Einungis 4,0% búa á starfssvæði Ráðgjafaþjónustu Húnaþings og Stranda er með mjaltaþjónum.

Sjálfvirkir aftakarar eru í nærri fjórum af hverjum fimm mjaltabásafjósum en einungis í fimmtungi fjósa með rörmjaltakerfi.

Kýr í lausagöngu eru að jafnaði afurðahærri en kýr í básafjósum.

Legubásafjós með mjaltaþjónum eru í fyrsta skipti frá upphafi gagnasöfnunarinnar afurðahæstu bú landsins að meðaltali, bæði ef horft er til heildarinnar en einnig ef eingöngu er horft til afurðahæstu búa landsins (hærri nyt en 6.000 kg/árskú).

 

Legubásafjós með mjaltaþjónum eru stærstu bú landsins að jafnaði með 65,9 árskýr og er það eina fjósgerðin þar sem fjölgun kúa er veruleg frá árinu 2007.

Rúmlega helmingur allra kúa eru í 35% fjósa landsins.
Óvenju mikill munur er á tæknilegri uppbyggingu mjaltakerfa (tíðni aftakarabúnaðar) á milli landshluta, sem hugsanlega skýrist af ólíku aðgengi bænda að faglegri ráðgjöf.