Beint í efni

Verð á sæðingum í Skandinavíu

01.03.2011

Fyrirkomulag og verðlagning á sæðingum hér á landi hefur verið í talsverðri deiglu undanfarin misseri. Bæði aðalfundur LK og Búnaðarþing á síðasta ári afgreiddu ályktanir um málið, auk þess sem tillögur þ.a.l. liggja fyrir Búnaðarþingi sem sett verður 6. mars n.k. Því er ekki úr vegi að skoða hvernig þessum málum er fyrir komið í nágrannalöndunum. Í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi er Viking Genetics orðið nær allsráðandi en fyrirtækið er samvinnufélag kúabænda í þessum löndum. Er það til orðið með sameiningu ræktunarfélaganna á Norðurlöndum. Geno er hliðstætt fyrirtæki í Noregi, samvinnufélag kúabænda þar. Þegar gjaldskrá Viking Genetics er skoðuð

sést að hún er talsvert margbrotnari en hliðstæðar gjaldskrár hér á landi. Fyrir það fyrsta er sæðið er verðlagt annars vegar og sæðingin hins vegar. Greitt er heimsóknagjald, 95 dkk og gjald pr. sæðingu, 25 dkk. Ef hringt er í farsíma frjótæknis, utan símatíma sem er 7.00-7.45 kostar það 50 dkk. Þess ber reyndar að geta að flest dönsk kúabú eru það stór, burðartími dreifður og heimsóknir það tíðar, að helst þarf að láta vita þegar frjótæknirinn á ekki að koma. Þurfi að taka gripi frá og mýla, kostar það 50 dkk fyrir hverjar byrjaðar 10 mínútur. Fangskoðun kostar 15 dkk. Verðið á sæðinu tekur síðan mið af kynbótagildi reyndu nautanna og er það 75, 90 eða 120 dkk. Verð á kyngreindu sæði, X-Vik, úr t.d. Dansk Holstein kostar 275 dkk skammturinn. Einnig er hægt að fá kyngreint sæði úr holdakynjunum, Y-Vik og kostar skammtur af því 200 dkk. Sæði úr efnilegustu ungnautunum sem valin eru á grunni erfðaprófa (e. genomic selection), GenVikPlus kostar 90 dkk skammturinn. Sæðing í Danmörku kostar bóndann því 240 dkk (5.175 isk) ef sætt er með reyndu nauti en 210 dkk (4.529 isk) ef sæði úr GenVikPlus nauti er notað.

 

Verðskrá Viking Genetics má sjá í heild sinni hér.

 

Verðskrá Geno er byggð upp með svipuðum hætti, vara og þjónusta er verðlögð sitt í hvoru lagi. Þar er hægt að velja um sæði úr reyndum nautum með mismunandi kynbótagildi, ungnautum, holdanautum og nautum af gömlu nautgripakynjunum. Verðið er talsvert hærra en í Danmörku,   sæði úr NRF kostar frá 87 nok fyrir ungnaut, upp í 460 nok fyrir kyngreint sæði. Sæði úr gömlu landkynjunum kostar 130-180 nok skammturinn.

 

Sæðing framkvæmd af frjótækni kostar 245 nok en 265 nok ef hún er framkvæmd af dýralækni, sem mun talsvert algengt þar í landi. Ef sæðingar eru fleiri en ein í hvert skipti, er gefinn 50 nok afsláttur pr. sæðingu. Fyrir 3 mánaða kálf sem sendur er á sæðingastöð greiðir Geno 6.200 nok (128.712 isk).

 

Félagsmaður í Geno sem velur að sæða kú með einhverju af bestu reyndu nautunum greiðir alls fyrir það 545 nok, eða 11.314 isk. Velji hann ungnaut, kostar það 332 nok eða sem nemur 6.892 isk.

 

Gjaldskrá Geno í heild sinni er hér.

 

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá búnaðarsamböndunum hér á landi árið 2010, er útlagður kostnaður bænda vegna sæðinga hér á landi á bilinu 540-2.700 kr pr. sæðingu og heildarkostnaður pr. sæðingu 4-7.000 kr, misjafnt eftir svæðum. Það sem útaf stendur er greitt með fjármunum annars vegar úr búnaðarlagasamningi og hins vegar úr mjólkursamningnum.