Beint í efni

Verð á innfluttu byggi hefur lækkað um 17,2% frá miðju ári 2004

27.01.2005

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands og útreikningum LK hefur verð á innfluttu byggi lækkað um 17,2% frá miðju ári 2004 og flutningskostnaðurinn jafnframt um 18,3% á sama tíma (júní til nóvember). Á sama tíma varð hinsvegar, framan af tímabilinu, verðhækkun til bænda, en verðið hefur þó lækkað lítillega síðustu mánuði. Því fer þó fjarri að verðin hafi lækkað í hlutfalli við breytingar á innflutningsverðunum. Nýjustu upplýsingar um

innflutning eru síðan í nóvember, en þá kostaði hvert kíló kr. 11,37 komið til landsins (þar af nam flutningur og tryggingar kr. 1,89). Þessu til viðbótar leggst á sk. fóðurtollur, sem er nettó kr. 0,80 og jafnframt eftirlitsgjald sem er 0,9% af verðmæti fóðursins eða um 10 aurar á hvert kg. Samtals kostar byggið því, komið að hafnarbakkanum með tollum og skoðunargjöldum um 12,5 kr/kg.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Fóðurblöndunni hf. er listaverð á byggi í lausu kr. 20,73 og kr. 21,15 hjá Mjólkurfélagi Reykjavíkur en framangreind fyrirtæki eru þau tvö stærstu á innlenda markaðinum. Rétt er að minna á að um er að ræða söluverð á byggi í dag, 26. janúar 2005, og innkaupsverð á byggi í nóvember 2004 þar sem innkaupsverð í desember 2004 liggur ekki fyrir ennþá. Jafnframt skal á það bent að hægt er að fá afslátt frá framangreindum verðum ef keypt er mikið magn í einu.