Beint í efni

Veffræðsla LK: staða júgurheilbrigðis í Danmörku

05.04.2014

Jørgen Katholm, dýralæknir júgursjúkdóma og landsráðunautur í Danmörku, þekktist boð LK um að taka upp erindi um júgurheilbrigði, átaksverkefni gegn júgurbólgu og hvernig tekist er á við júgurbólgu með forvörnum í Danmörku. Það er mikill fengur fyrir okkur að fá hann til þess að flytja erindi í Veffræðslunni enda með þekktari vísindamönnum og fyrirlesurum í Evrópu þegar júgurbólga og varnir gegn henni er annars vegar. Alls verða erindi Jørgens þrjú talsins og munu birtast með u.þ.b. viku millibili en öll erindin eru flutt á ensku.

 

Í þessu fyrsta erindi sínu fjallar hann almennt um stöðu nautgriparæktar í Danmörku, bústærðir þar í landi, áhrif kreppunnar á mjólkurframleiðsluna og hvernig fjósin í Danmörku eru hönnuð og útbúin í dag. Hann ræðir einnig um þróunina á mjaltatækni og að sjálfsögðu um mjólkurgæði í víðum skilningi og tekur þar meðal annars gögn frá Norðurlöndunum.

 

Í síðari hluta þessa fyrsta erindis síns fjallar hann svo um frumutölu og hvernig barist er gegn frumutölu og júgurbólgu í Danmörku. Þá skýrir hann hvernig bændur geta sjálfir meðhöndlað gripi án heimsóknar dýralæknis í hvert skipti, uppbyggingu þess kerfis, í hverju samningar á milli bænda og dýralækna byggja, í hverju forvarnarheimsóknir dýralækna  felast og hvaða árangri þetta danska kerfi hefur skilað.

 

Erindi Jørgens eru því miður ótextuð en unnið er að því að finna viðunnandi og ódýra lausn, þangað til textinn kemur verða erindin því aðgengileg ótextuð.

 
Að vanda má nálgast þetta erindi, líkt og hin erindin í Veffræðslunni með því að smella á hlekkinn hér neðst í fréttinni eða með því að velja hnappinn „Veffræðsla“ hér í valstikunni til vinstri.

 

Til þess að sjá og hlusta á þennan fyrirlestur eða eldri fyrirlestra þá geta þeir sem eru með aðgengi smellt hér á hlekkinn fyrir neðan og slegið þar inn notendanafn og lykilorð. Þeir sem ekki eru komnir með aðgang að kerfinu eru að sjálfsögðu hvattir til að gera það (er ókeypis) með því að senda tölvupóst á skrifstofa(a)naut.is. Taka þarf fram fullt nafn og bæjarnafn eða starfheiti ef viðkomandi er ekki kúabóndi.

 

Rétt er að taka fram að allir sem vilja geta fengið aðgengi og óhætt að mæla með því við sem flesta enda mörg erindi sem ná langt út fyrir nautgriparækt sem slíka.

 

Með því að smella hér færist þú yfir á Veffræðslusvæði Landssambands kúabænda/SS.