Útlit fyrir lækkandi heimsmarkaðsverð á korni
17.01.2003
Einn stærsti kornseljandi í heimi, Canadian Wheat Board (CWB), gerir ráð fyrir að á árinu 2003 muni framleiðsla á korni aukast verulega og verðin lækki samhliða. Í skýrslu frá CWB er birt spá um þróun á verðum á árinu og þar kemur m.a. fram að útlit er fyrir að fóðurhveiti lækki um 20%, brauðhveiti um 5% og maltbygg um heil 15%.
Í Kanada er því spáð að ræktun á hveiti aukist um 5% og í Bandaríkjunum um 6%. Innan landa Evrópusambandsins er hinsvegar gert ráð fyrir að framleiðslan verði áþekk í ár og sl. ár. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að í Rússlandi og Indlandi muni draga nokkuð úr framleiðslunni, en þessi lönd eiga í dag gríðarlegar birgðir af korni frá síðasta hausti.
Ef fram fer sem horfir er því útlit fyrir lækkandi kjarnfóðurverð á árinu, en þess ber að geta að skýrsla CWB er birt í upphafi árs þannig að ýmislegt getur breyst þegar líður á árið.