Beint í efni

Tillögur stjórnvalda vegna erfiðleika í sauðfjárrækt

04.09.2017

Stjórnvöld hafa lagt fram tillögur til þess að mæta þeim vanda sem uppi er í íslenskri sauðfjárrækt. Á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins segir að ýmsar tillögur að lausnum hafi litið dagsins ljós frá því samtal bænda og stjórnvalda hófst í mars síðastliðnum og flestar þeirra tekið talsverðum breytingum eftir því sem staða greinarinnar hefur skýrst og ítarlegri gögn legið fyrir. 

Á vef stjórnarráðsins segir:

"Á fundi ríkisstjórnarinnar þann 18. ágúst 2017 lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram minnisblað um mögulegar aðgerðir til stuðnings sauðfjárbændum, sama dag kynnti ráðherra efni minnisblaðsins fyrir atvinnuveganefnd Alþingis. Ríkisstjórnin ákvað að fela fulltrúum þriggja ráðuneyta að útfæra nánar þær hugmyndir sem þar voru settar fram. Tillögur hafa nú verið útfærðar en í þeirri vinnu hefur m.a. verið haft samráð við forystu Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sauðfjárbænda. 

Meðfylgjandi tillögur um aðgerðir og áherslur fara til umfjöllunar og ákvörðunar á vettvangi Alþingis og samtaka bænda. Meginmarkið þeirra er að draga úr framleiðslu um 20%, mæta kjaraskerðingu bænda, styðja við sauðfjárbúskap á jaðarsvæðum og gera úttekt á birgðum sauðfjárafurða og afurðastöðvakerfinu."

Tillögur stjórnvalda vegna erfiðleika í sauðfjárrækt