
Alþjóðlegi mjólkurdagurinn er í dag!
01.06.2023
Til hamingju með daginn!

Alþjóðlegi mjólkurdagurinn er haldinn hátíðlega víða um heim í dag, 1. júní og óska Bændasamtökin mjólkurframleiðendum, neytendum og öðrum mjólkurunnendum innilega til hamingju með daginn!
Deginum hefur verið fagnað síðan 2001 en það ár ákvað Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna að ýta af stað átaki til þess að vekja athygli á efnahagslegum, næringarlegum og félagslegum ávinningi mjólkur og mjólkurafurða í matvælakerfum heimsins.
Mjólk er ein hollast og næringarríkasta fæða sem völ er á, hún er uppspretta hágæða próteins - sem styrkir vöðva og bein, kalks sem styrkir tennur og bein, joðs sem styrkir taugakerfi og vitsmunastarfsemi og B og D vítamíns sem styrkja orkubúskap líkamans! Mjólk inniheldur 13 af 18 mikilvægustu vítamínum og steinefnum sem líkaminn þarf á að halda!
Mjólkin tekur á sig ýmsar myndir en úr henni eru framleiddar fjölmargar vörur eins og ostar, smjör, rjómi, ís, skyr og skyrdrykkir, jógúrt og jógúrtdrykkir, LGG, kókómjólk og svo mætti lengi telja. Úr henni er meira að segja framleitt íslenskt mjólkurlíkjör! Í tilefni að deginum hvetjum við alla til þess að skála í mjólk, eða gera vel við sig með því að neyta annarra girnilegra mjólkurvara, en fjölbreytileiki íslenskra mjólkurvara er mikill og allir ættu því að geta fundið mjólkurvörur við sitt hæfi.
Hér á landi framleiða um fimmhundruð kúabændur og fjölskyldur þeirra mjólk víðsvegar um landið. Mjólkurframleiðslan skapar þannig fjölda manns lífsviðurværi en mjólkurframleiðslan er mikilvægur hluti af byggðafestu ásamt því að hún styður beint við fjölda annarra atvinnugreina, svo sem dýralækningar, ráðgjafarþjónustu, tækni- og vélaþjónustu auk afurðastöðva bæði í mjólk og kjöti.
Í tilefni af deginum verður hægt að fylgjast með íslenskum mjólkurframleiðendum á Instagram síðu Bændasamtakanna (@baendasamtokin)! Þar munu íslenskir mjólkurframleiðendur gefa neytendum innsýn inn í sína góðu framleiðsluhætti og lífið í sveitinni.
Fyrir þá sem hafa áhuga á að deila myndum úr sveitinni, af hágæða íslenskum mjólkurvörum eða öðru tengdu mjólkurframleiðslunni eru hvattir til þess að notast við myllumerkið #mjólkurdagurinn.
Ekki er verra ef @baendasamtokin eru merkt í færsluna, þannig getum við deilt gleðinni áfram.
Njótið dagsins !