
Sýnataka fyrir erfðamengisúrval vel á veg komin
09.02.2018
Nú er búið að taka DNA sýni úr rúmlega 6.000 kvígum og kúm á 100 búum víða um land. Sýnatökunni er lokið á búum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi og fá bú standa útaf á Suðurlandi. Undanfarna daga hafa verið tekin sýni á nokkrum búum á Vesturlandi og vonast er til að sýnatökunni ljúki fyrir vorið. Tilgangur sýnatökunnar er að afla gagna vegna erfðamengisúrvals í nautgriparækt og er fyrirhugað að heimsækja alls um 120 bú í þessum tilgangi; bú sem hafa vandað skýrsluhald, traustar ættfærslur og hátt hlutfall gripa er undan sæðinganautum. Greiningu á arfgerð tæplega 3.900 gripa er að ljúka; tæplega 500 afkvæmaprófaðra nauta og um 3.400 kúa og kvígna. Fer sú greining fram á rannsóknastofu Eurofins Genomics í Árósum í Danmörku. Voru send um 2.500 sýni til viðbótar þangað fyrir fáeinum dögum. Þetta kemur fram í frétt í Bændablaðinu.
Samkvæmt Baldri Helga Benjamínssyni, verkefnastjóra, hefur sýnatakan gengið vel og hafa bændur sýnt verkefninu mikinn áhuga og velvild. Eitt hefur þó vakið þá til umhugsunar sem að þessu verkefni standa, sem er sú staðreynd að víða er lítil sem engin aðstaða í lausagöngufjósum til að festa gripina til að hægt sé að meðhöndla þá. Í fjósum þar sem eru læsigrindur fyrir fáeina gripi, hefur það auðveldað þessa meðhöndlun verulega og er óhætt að mæla með uppsetningu á slíkum búnaði. Hann auðveldar vinnu við meðhöndlun, minnkar átök og dregur úr slysahættu fyrir menn og skepnur.