Beint í efni

Stonyfield skiptir um franskar hendur

12.07.2017

Frönsku afurðafyrirtækin Lactalis og Danone hafa náð samkomulagi um að það fyrrnefnda kaupi afurðafélagið Stonyfield af hinu síðarnefnda fyrir 875 milljónir dollara eða um 92 milljarða íslenskra króna. Kaupverðið er um 20 föld EBITDA Stonyfield og rúmlega tvöföld velta þess en árið 2016 nam velta Stonyfield 370 milljónum dollara. Eins og við höfum áður greint frá hér á naut.is þá er Stonyfield afar fyrirferðarmikið á hinum lífræna markaði í Norður-Ameríku og er í dag talið vera með næst sterkustu stöðuna á þeim markaði með um 13% markaðshlutdeild. Samkeppniseftirlit Bandaríkjanna gerði Danone að selja fyrirtækið þegar Danone keypti lífræna framleiðslufyrirtækið WhiteWave fyrr á árinu.

Stonyfield hefur verið starfrækt síðan 1983 og er sérhæft í framleiðslu á lífrænt vottaðri jógúrt, drykkjarmjólk og rjóma. Danone, sem er eitt stærsta afurðafyrirtæki heims á sviði mjólkurvinnslu, keypti 40% hlut í Stonyfield árið 2001 og eignaðist það svo að fullu árið 2014 og hefur s.s. nú selt það á ný. Lactalis er óumdeilanlegur afurðarisi og ræður í dag yfir mörgum öðrum afurðafyrirtækjum í mjólkurvinnslu sem einnig selja afurðir sínar víða um heim. Má þar t.d. nefna bæði hin þekktu Galbani og Parmalat frá Ítalíu, Dukat frá Króatíu, Ljublijanske Mlekarne sem er með aðsetur í Slóveníu, Harvey Fresh í Ástralíu og indverska fyrirtækið Tirumala/SS.