Stjórnarfundir – 4. fundur 2003/2004
08.09.2003
Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda
Fjórði fundur stjórnar LK starfsárið 2003/2004 var haldinn sem símafundur 8. september 2003 og hófst hann klukkan 11:00. Mætt voru á línuna: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Kristín Linda Jónsdóttir, Jóhannes Jónsson og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð. Þá var fyrsti varamaður, Gunnar Jónsson, jafnframt á línunni.
Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til eina dagskrárliðs fundarins, málefni og staða nautakjötsframleiðslunnar.
1. Nautakjötsmál
Formaður fór yfir stöðu mála og útsend gögn, sem miða að því að finna viðunnandi lausn fyrir þá bændur sem framleiða gæðakjöt. Búið er að setja upp minnisblað um málið sem fundarmenn höfðu fengið sent fyrir fundinn. Staðan er mjög erfið og verðin á kjötinu langt undir framleiðslukostnaði. Töluvert hefur verið rætt við stjórnvöld um málið, en því þokar mjög hægt. Í framhaldi af síðustu viðræðum við fulltrúa landbúnaðarráðuneytisins og landbúnaðarráðherra var ákveðið að skoða hvort hægt sé að nota sjóði Framleiðnisjóðs til að koma að málinu.
Ljóst er að tilgangurinn er að styðja við framleiðslu á gæðakjöti með einum eða öðrum hætti, en úrræðin eru fá. Á minnisblaðinu eru settar upp tillögur um að setja upp sérstakt markaðsverkefni í samstarfi við Kjötframleiðendur ehf. og með aðkomu Framleiðnisjóðs. Hugmyndin með því er að taka út af markaði allt kjöt sem flokkast í UNI Ú og markaðssetja sérstaklega í gegnum Kjötframleiðendur ehf. Áður en af því getur orðið þarf þó að tryggja samstöðu allra sláturleyfishafa og ná þyrfti samkomulagi við þá alla og/eða við einstaka framleiðendur.
Fundarmenn ræddu málið ítarlega, kosti og galla. Fyrirsjáanleg ljón á veginum eru mörg en jafnframt ljóst að reyna þarf að ná tökum á vandanum. Bæði þarf að ná samstöðu sláturleyfishafa, ná betur utan um uppruna/aldur gripanna, tryggja kjötmatið og endurnýja það. Þá er ljóst að ná þarf fram samstarfi við sölulaðila kjötsins s.s. kjötvinnslur og veitingastaði þar sem verðhækkanir þurfa að koma til. Jafnframt þarf að finna verðminni hlutum skrokkanna farveg, s.s. gúllas og hakkefni.
Rætt var jafnframt um næstu skref og ákveðið að vinna minnisblað um málið áfram í samræmi við umræður á fundinum.
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 12:30
Næsti stjórnarfundur: 26. september 2003
Snorri Sigurðsson