Beint í efni

Stjórnarfundir – 8. fundur 2001/2002

01.05.2002

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Áttundi fundur stjórnar LK starfsárið 2001/2002 var haldinn í Bændahöllinni miðvikudaginn 1. maí 2002 og hófst hann klukkan 11:00. Mættir voru: Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Egill Sigurðsson, Birgir Ingþórsson og Sigurgeir Pálsson. Kristín Linda Jónsdóttir var forfölluð. Einnig var á fundinum Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Starfsmannamál í landbúnaðarráðuneytinu

Formaður fór yfir þau vandamál sem komið hafa upp í landbúnaðarráðuneytinu og fyrirsjáanlegt brotthvarf skrifstofustjóra ráðuneytisins til Brussel. Fundarmenn ræddu málið en ljóst er að brotthvarf jafn reynds manns og núverandi skrifstofustjóra mun hafa einhver áhrif á störf ráðuneytisins fyrst um sinn.

 

2. Regugerð um greiðslumark næsta verðlagsárs

Formaður kynnti yfirlit um innvigtun mjólkur. Á milli funda voru gögn send út um málið og kemur í þeim fram upplýsingar um innvigtun hvers mánuðar síðustu ár.

Ákveðið var að gera að tillögu LK um reglugerð næsta verðlagsárs að C-greiðslu verði miðlað þannig að Nóvember-Febrúar hljóti 8%, Júlí 1,5%, Ágúst 2,5%, September 2% og Október 1%. Með þessu móti ætti verðið á mjólkinni að hvetja bændur til framleiðslu mjólkur þá mánuði sem mjólk vantar til vinnslu. Á móti kemur að C-greiðsla á sumar- og haustmánuðina gerir mun meiri kröfur til beitar kúabændanna og er ástæða til að hvetja ráðunauta landsins að vinna nákvæmar áætlanir í samstarfi við bændurna um beitarskipulag og ræktun grænfóðurs. Ákveðið var að senda bréf á öll búnaðarsambönd og BÍ í þessu sambandi. Þá var ákveðið að beina því til Framkvæmdanefndar búvörusamninga að samhliða útsendingu á tilkynningu um greiðslumark, verði bændum landsins gerð grein fyrir þeim leikreglum sem gilda varðandi innvigtun mjólkur. Þá var samþykkt að beina því til Framkvæmdanefndar að heimila um verðlagsáramót sveigjanleika við innvigtun sem nemur 7 dögum til hvors mánaðar.

 

3. Framleiðsla og sala mjólkur

Formaður kynnti stöðu mála og er ljóst að miðað við framleiðsluna eins og hún er í dag, þá geti vantað mjólk í ágúst. Óvíst er þó í dag hvaða áhrif C-greiðslan á ágúst hafi, en hafa verður þó í huga að kúm hefur fækkað um 3.262 frá árinu 1997.

 

4. Framleiðsla og sala á nautakjöti

Framkvæmdastjóri kynnti stöðu mála, en sölusamdráttur varð á nautakjöti í mars. Apríl lofar ágætu, en ljóst að samkeppnin við annað kjöt, sér í lagi svínakjöt, er gríðarlega hörð. Töluverð eftirspurn er eftir nautagripum í slátrun og bendir það til hækkandi verðs, þó sláturleyfishafar treysti sér ekki til að hækka verðið mikið umfram svínakjöt.

            Vefur LK, kjot.is, hefur gengið mjög vel og þannig að nú hyggjast aðrar búgreinar fara sömu leið. Í dag er ekki vitað hverju þessi vefur skilar í raun, en vefurinn er mikið heimsóttur og hefur haldist vel ferskur. Ákveðið var að halda þessari tilraun a.m.k. áfram fram á mitt næsta ár og meta svo stöðuna. Þá var samþykkt að gera skriflegan samning við ritstjóra og ganga frá honum á næsta stjórnarfundi.

Verð á nautgripakjöti til bænda hefur staðið nokkuð í stað undanfarin misseri, en væntingar gerðar til einhverrar hækkkunar nú í byrjun maí.

 

5. Viðhorfskönnun kúabænda

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir hugmyndum um viðhorfskönnun á meðal kúabænda, en hugmyndin hefur verið rædd við fjölmarga aðila og allir tekið vel. Fundarmenn tóku málinu vel, en lögðu á það áherslu að faglega yrði að standa að málinu t.d. með aðkomu viðurkennds aðila. Framkvæmdastjóra var falið að vinna áfram að málinu.

 

6. Stefnumótun nautgriparæktarinnar

Formaður fór yfir stöðu mála með stefnumótunina. Á formannafundinum fyrr í vetur var málið rætt og þær ábendingar sem þar komu fram verið teknar inn í drögin. Samþykkt var að koma drögunum út til aðildarfélaga og óska eftir skriflegum athugasemdum frá þeim fyrir 1. júlí nk.

 

7. Sala á eignum NLK ehf. í Hrísey

Framkvæmdastjóri fór yfir stöðu mála, en búið er að ganga frá viljayfirlýsingu um kaup Hríseyjarnauta ehf. á eigum NLK ehf. í Hrísey fyrir kr. 5,5 milljónir. Þá er ennfremur búið að ganga frá lausum endum gagnvart GENO um NRF-fósturvísana. Kaupin hafa gengið til baka og mun BÍ og LK ekki verða gert að greiða frekar til GENO.

 

8. Gæðastýringin

Unnið er að því að koma á samkomulagi um framkvæmd tilraunaverkefnis.

 

9. Aðalfundur LK

Vinna við starfsskýrslu er nú að hefjast og ráðgert að skýrslan liggi fyrir um miðjan júní. Ákveðið var að fækka heldur viðaukum og dreifa heldur á aðalfundinum.

 

10. Næsti mjólkursamningur

Formaður gerði grein fyrir þeim viðræðum sem farið hafa fram, en óljóst er hvort þær leiða til frekari vinnu á næstu mánuðum. Það var mat stjórnar að ef af  viðræðum verður, beri að stefna að sama stuðningi og sem minnst breyttri ráðstöfun og  leikreglum áfram.

 

11. Innsend bréf

a. Reglugerð um mjólk og mjólkurvörur

Til LK barst bréf, dagsett 5. apríl, frá formanni nefndar sem endurskoðað hefur reglugerðina um mjólk og mjólkurvörur. Óskað er umsagnar stjórnar LK um reglugerðina fyrir 6. maí nk.

            Formaður kynnti þá undirbúningsvinnu sem unnin hefur verið í málinu og fór yfir útsend gögn, sem m.a. innihalda drög að reglugerðinni og drög að umsögn LK. Þá hefur formaður fundað með fulltrúum úr nefndinni sem unnið hefur reglugerðardrögin, sem og hitt forsvarsmann RM og farið yfir hugsanleg áhrif nýrrar reglugerðar á framleiðsluna hjá kúabændum landsins.

            Ljóst er af fyrirliggjandi gögnum að nokkur atriði í hinni nýju reglugerð eru óásættanleg fyrir kúabændur landsins og að breytingar þarf að gera á drögunum til að stjórn LK geti sætt sig við ákvæði reglugerðarinnar. Sérstaklega er þar um að ræða atriði sem snerta kröfur til mjólkurgæða og hvernig standa á að útreikningum á þeim.

            Formaður fór yfir drög að umsögn LK og voru þar gerðar athugasemdir við fjölmörg atriði s.s. skort á lagastoðum við einstök ákvæði, skort á skilgreiningum um einstök atriði, sölubannskröfur, kröfur um frumutölu sem og gildistökuákvæði. Samþykkt var að fela formanni að ganga frá umsögnin og leita samstarfs við SAM og BÍ.

            Ennfremur var rætt um forvarnarstarf og vakin þar athygli á árangri erlendis við að berjast gegn penicillin-smitaðri mjólk. Ljóst er að hagsmunir afurðastöðva eru mikilir og því rétt að LK leiti samstarfs við afurðastöðvar um að vinna í forvörnum. Þá var rætt um embætti dýralæknis júgursjúkdóma, en lítið hefur borið á því starfi undanfarið. Ástæða þykir til að hvetja til frekari greinaskrifa og leiðbeininga til bænda frá hendi dýralæknis júgursjúkdóma.

            Formaður greindi frá því að þegar væri búið að óska eftir fundi hans og framkvæmdastjóra með umhverfisráðherra til að kynna viðhorf LK gagnvart reglugerðardrögunum.

 

b. Bréf frá yfirdýralækni um eftirlit með fóðri

Til LK barst bréf, dagsett 25. mars, frá yfirdýralækni um aukið salmonellueftirlit með fóðri. Bréfið var sent LK til kynningar, en til afgreiðslu hjá Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Stjórn LK lýsir yfir fullum stuðningi við hugmyndir yfirdýralæknis um aukið eftirlit.

 

c. Bréf frá Myndbæ um styrk til kennslumyndbandsgerðar fyrir heimilisfræðikennslu

LK hefur borist styrkbeiðni frá Myndbæ um styrk til að standa að kennslumyndbandi um heimilisfræði. Samþykkt var að beina málinu til Upplýsinga- og kynningarsviðs BÍ.

 

d. Þingsályktunartillögur um breytingar á lögum um innflutning dýra

LK hefur borist þrjár þingsályktunartillögur um endurskoðun á lögum um innflutning dýra.

1.      Þskj. 585 – 373. mál, um breytingu á lögum um innflutning dýra. Stjórn gerir ekki athugasemdir við efni frumvarpsins.

2.      Þskj. 1053 – 654. mál og þskj. 1093 – 677. mál. Gengið frá umsögn um málið.

 

f. Bréf frá BÍ um faghóp í jarðrækt

LK hefur borist beiðni frá BÍ um að LK tilnefni fulltrúa í faghóp í jarðrækt. Samþykkt var að tilnefna Þórarinn Leifsson, Keldudal, í faghópinn.

 

12. Til kynningar

a. Evrópusamtök kúabænda

Dreift var upplýsingabæklingi um EDF Club (European Dairy Farmers Club) sem eru samtök kúabænda í Evrópu. Kynning á samtökunum verður sett á naut.is

 

b. Markmiðssetning danskrar nautgriparæktar

Dreift var afriti af markmiðssetningu danskra kúabænda um framtíðarsýn.

 

c. Fundargerð fagráðs í nautgriparækt

Fundargerð fagráðs var dreift til fundarmanna.

 

d. Bréf frá Framleiðnisjóði um skiptingu fjármuna

Bréf frá FL um skiptingu útgjalda dreift til fundarmanna.

 

13. Önnur mál

a. Sameining heimasíðu LK og SAM

Framkvæmdastjóri hefur rætt við forráðamenn SAM um hugsanlega sameiningu kynningarvefja þessara aðila. Erindinu var vel tekið og er næsta skref að gera þarfagreiningu og meta þannig betur hvort mögulegt sé að sameina þessa tvo vefi.

 

b. Sjaldan launar kálfur/kvíga ofbeldi!

Framkvæmdastjóri kynnti hugmyndir um að gera átak í haust varðandi eldi og aðbúnað smákálfa, sem og að útbúa gott fræðsluefni um kvígur, undirbúning undir burð o.þ.h. Fundarmenn tóku málinu vel og var framkvæmdastjóra falið að undirbúa málið frekar og senda til fagráðs.

 

c. Ráðstefnan um nautakjötið

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir kostnaði við ráðstefnuna um nautakjötsframleiðslu, en heildarkostnaður við ráðstefnuna er tæplega 100 þúsund krónur. Á ráðstefnuna mættu 55 manns, sem er vel ásættanleg mæting. Í kjölfar fundarins hefur verið óskað eftir fundi með landbúnaðarráðherra til að ræða stöðu og framtíð nautakjötsframleiðslu.

 

d. Ræktunarnefndin

Gunnar gerði grein fyrir vinnu innan nefndarinnar, en haldnir hafa verið þrír fundir. Nokkur áherslumunur er á milli fundarmanna varðandi hvaða stefnu beri að taka, en líkur á að gert verið töluvert átak í að hvetja til aukinnar ræktunarvitundar bænda.

 

e. Viðskipti með greiðslumark

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir málefnum nokkurra bænda sem hafa kvartað undan afskiptum afurðastöðva með viðskipti með greiðslumark. Stjórn fjallaði um málið og var ákveðið að setja kraft í það að kynna fyrir bændum kosti frjálsra viðskipta með greiðslumarki, í stað þess að nota milliliði.

 

f. Samningur SÞ frá 5. júní 1992, oft kenndur við Rio de Janeiró

Ákveðið að leita eftir því að fá afrit af þessum samningi fyrir næsta stjórnarfund.

 

g. Staða Lánasjóðsins

Formaður svaraði spurningum um stöðu bænda gagnvart Lánasjóði landbúnaðarins.

 

h. Fóðurtollar

Fram hefur komið tillaga stjórnar BÍ um breytingu á fóðurtollum. Samþykkt var að fá nánari upplýsingar um tolla og tillögu BÍ til lækkunar á fóðurtollum, sem og útskýringar á þeirri aðferðarfræði sem notuð var til grundvallar tillögu stjórnar BÍ.

 

i. Upplýsingar frá RM

Bændur landsins virðast fá nokkuð misjanfar upplýsingar um mjólkurgæði frá afurðastöðvunum og var samþykkt að óska eftir upplýsingum frá RM um hvað bændum standi til boða í þessu sambandi.

 

Fleira ekki bókað.

Næsti stjórnarfundur: 4. júní 2002.

Snorri Sigurðsson