Beint í efni

Stjórnarfundir – 04. f. 1999/2000

14.01.2000

Fundargerð 14. janúar 2000


Fjórði fundur stjórnar LK var haldinn í Bændahöllinni föstudaginn, 14. jan. 2000 og hófst hann klukkan 11. Fundinn sátu Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Egill Sigurðsson, Kristín Linda Jónsdóttir, Hjörtur Hjartarson og Birgir Ingþórsson. Einnig sat fundinn Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og nýjan framkvæmdastjóra velkominn til starfa. Því næst var gengið til boðaðrar dagskrár:

1. Nautakjötsmál, staða og horfur
Snorri lagði fram gögn og kynnti stöðu mála. Biðlisti eftir nautgripaslátrun er lengri nú en verið hefur í langan tíma og ljóst að aðgerða er þörf. Fram kom m.a. í máli Snorra að eitt af þeim vandamálum sem LK stæði frammi fyrir væri að spálíkan það sem notað hefur verið undanfarin ár, til að gefa yfirsýn yfir stöðu mála, væri ekki lengur nægilega hentugt og í það vantaði betri forsendur. Fjöldi kúa nú sem bíða slátrunar mætti rekja til mikillar framleiðslu á mjólk á síðasta verðlagsári og aukinnar nytar kúa og það átak sem LK fór út í í sumar sem leið, s.k. úrbeiningarátak, hafi ekki aukið sölu á kýrkjöti heldur einungis frestað vandanum. Mikill fjöldi kúa nú, hafi einnig ýtt nautakjöti meira út af markaðinum og því sé verðið byrjað að falla.

Snorri lagði fram ýmsar hugmyndir um hvernig helst sé hægt að koma í veg fyrir verðlækkun á nautgripakjöti, ásamt því að auka hlutdeild nautakjöts á heildarkjötmarkaði. Helstu tillögur sem nefndar voru:

  • Einstaklingsmerking nautgripa.
    Til að tryggja betur grunn spálíkans, hafa möguleika á að upprunamerkja kjötið og til að halda betur utan um heildarframleiðslu í landinu þykir sýnt að nauðsynlegt sé að vinna að því að einstaklingsmerkingum nautgripa verði komið á. Einnig hefur reynslan kennt okkur að þegar biðlistar fara að myndast eykst bein sala og líklega sala á svörtum markaði til muna, sem auðvitað er óásættanlegt.
    Umræður urðu um málið og fundarmenn sammála að LK þyrfti að beita sér í þessu sambandi. Framkvæmdastjóra og formanni var falið að vinna að málinu í samvinnu við ráðuneyti.
  • Auka samvinnu LK við kjötvinnslur.
    Kynntar voru hugmyndir um auglýsingasamninga við kjötvinnslur, vöruþróunarstyrki, verðlaunasamkeppnir og fl. Kristín Linda lagði áherslu á að LK þyrfti að vinna náið með söluaðilum og gera átak með þeim. Gunnar lagði áherslu á nauðsyn þess að verja nautakjötið og setja hagsmuni þess ofar kýrkjöti. Fram kom að aukin þátttaka LK í markaðsmálum myndi kosta mikla fjármuni og tekjur verðskerðingarsjóðs myndu óbreyttar tæplega duga. Hjörtur sagði það þó en dýrara fyrir stéttina ef verðið fellur um of og tók Egill í sama streng. Samþykkt var að fela framkvæmdastjóra og formanni að gera tillögu að hækkun verðskerðingargjalds og var framkvæmdastjóra falið að ganga til samninga við kjötvinnslur.
  • Kynna merki „Nautgripabænda“ sem gæðastimpil.
    Undanfarin misseri hefur verið unnið að merki, sem nota má á afurðir sem standast vissar gæðakröfur. Samþykkti fundurinn að framkvæmdastjóri ynni áfram að málinu og geri tillögu að skilyrðum, fyrir kjötvinnslur, sem uppfylla þarf til að mega merkja vörurnar merkinu.

    2. Mál fyrir Búnaðarþing 2000
    Þórólfur kynnti hugmyndir um tillögur LK fyrir Búnaðarþing og urðu miklar umræður um málið. Málefni Bændahallarinnar bar þar hæst, en töldu fundarmenn kominn tíma á að skoða alvarlega hvort bændur landsins ættu að eiga hótel í Reykjavík. Miklar vangaveltur urðu um afdrif væntanlegs söluhagnaðar og ljóst að þar yrði nokkur vandi á ferð. Ljóst þykir að ef Lífeyrissjóður bænda fengi hluta eða allan söluhagnað myndi slíkt væntanlega gagnast fáum bændum, þar sem greiðslur sjóðsins eru langt undir tekjutryggingarmörkum Tryggingastofnunar Ríkissins. Auknar greiðslur sjóðsins myndu því fyrst og síðast minnka framlag TR í lífeyri bænda.

    Hjörtur nefndi að skoða þyrfti vel áhrif umsvifa Bændasamtaka Íslands á höfuðborgarsvæðinu og hvort bændur hafi þannig stuðlað að því að draga atvinnu úr dreifbýlinu.

    Þórólfur minntist á hlutverk BÍ og hver væri raunveruleg þjónustuþörf kúabænda. Nauðsynlegt væri að geta dregið fram, hvað hver liður kostar s.s. kynbótastarf í nautgriparækt og almennt hvernig fjármögnun hins sameiginlega kerfis væri háttað.

    Ræddar voru fleiri tillögur og framkvæmdastjóra og formanni falið að undirbúa tillögugerð fyrir næsta fund.

    3. Bú 2000
    Framkvæmdastjóri kynnti fyrirhugaða landbúnaðarsýningu og lagði til að LK myndi taka þátt í sameiginlegu kynningarstarfi búgreinafélaganna. Tillagan var samþykkt og honum falið að skoða einnig kostnað við að láta framleiða einhverjar vörur merktar félaginu fyrir sýningargesti.

    4. Tilnefning fulltrúa í mjólkurgæðanefnd ráðherra og Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins
    Formaður kynnti málið, en fyrir fundinum lá erindi frá landbúnaðarráðherra með ósk um að LK tilnefni mann í nefnd sem fjalla skal um gæði og hollustu íslenskrar mjólkur. Miklar umræður urðu um málið um það hvort LK ætti yfir höfuð að tilnefna fulltrúa, þar sem ljóst sé að erfitt geti verið fyrir væntanlega nefnd að skila niðurstöðu í málinu án þess að til tilraunainnflutningar á NRF komi. Ákveðið var þó að tilnefna framkvæmdastjóra LK í nefndina.
    Samþykkt var að tilnefna framkvæmdastjóra í Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins og Kristínu Lindu til vara.

    5. Minnispunktar um gæðastýringu/vistvæna mjólkurframleiðslu
    Samantekt lögð fram til kynningar, en umræðum frestað til næsta stjórnarfundar.

    6. Fjármál. Laun formanns og styrkir til aðildarfélaganna.
    Launamál voru samþykkt samhljóða.
    Styrkir LK til aðildarfélaga voru ræddir og ljóst að með tilkomu arðgreiðslna frá Framleiðsluráðssjóði ættu tekjur LK að aukast. Ræddar voru hugmyndir að útreikningum og styrkhæð til aðildarfélaganna og ákveðið að byggja greiðslur á félagagrunni og nota kosningareglur LK sem grunn. Framkvæmdastjóra og formanni var síðan falið að móta tillögur fyrir næsta stjórnarfund.

    7. Áherslur fagráðs
    Lagt fram til kynningar.

    8. Málefni NLK.
    Fundargerð síðasta stjórnarfundar NLK lögð fram til kynningar.

    9. Ýmiss bréf og erindi til afgreiðslu og kynningar
    · Erindi félags kúabænda í V-Húnavatnssýslu, þar sem óskað er fjárhagslegrar aðstoðar LK við að kanna eignarhald á mjólkursamlaginu á Hvammstanga. Formanni var falið að vinna að málinu.
    · Kristín Linda kynnti stöðu mála á KEA-svæðinu og í hvernig farvegi mjólkursamlagsmálin væru þar. Hvað hún erindi kúabændafélaga á svæðinu væntanlegt til LK, varðandi fjárhagslega aðstoð við að kanna eignarhald á samlaginu.
    · Þórólfur kynnti vangaveltur kúabænda í Önundarfirði um hugsanlegan ávinning af því að sameinast um rekstur á einu stóru fjósi. LK mun aðstoða bændurna eftir föngum.
    · Erindi Bjarna Axelssonar um afgreiðslu Bjargráðasjóðs á málefnum hans. Um leið var rætt um þau vandamál sem komu upp á Bjólu í tengslum við salmonellusmit og aðkomu Bjargráðasjóðs að því máli. Ákveðið var að fela framkvæmdastjóra og formanni að taka upp viðræður við Bjargráðasjóð og reyna að vinna að farsælli lausn mála.
    · Bréf frá Landssamtökum sláturleyfishafa lagt fram, þar sem LK er innt eftir svörum við hvaða áhrif hugsanlegur innflutningur á NRF hafi á nautakjötsframboð þegar frá líður. Framkvæmdastjóra falið að svara erindinu.
    · Bréf frá BÍ, þar sem óskað er eftir viðræðum við LK um hugsanlega yfirtöku LK á nautastöð BÍ á Hvanneyri. Formanni og framkvæmdastjóra falið að ganga til viðræðna við BÍ.
    · Lagt fram til kynningar: fundargerð Fagráðs í nautgriparækt frá 2. nóv 1999, fundargerðir frá 9. og 10. fundum Upplýsingaþjónustu landbúnaðarins og upplýsingar frá SAM um innvegna mjólk á yfirstandandi tímabili.


    10. Önnur mál
    Ræktunarfélag LK
    Þórólfur sagði frá hugmynd um að skoða nýja leið varðandi hugsanlegan innflutning á NRF, en það væri með stofnun ræktunarfélags um verkefnið. Formaður fékk umboð til að skoða málið nánar og kanna vilja helstu áhugamanna um innflutning á þessari leið.

    Stofnun Framleiðsluráðssjóðs
    Formaður kynnti hvernig staðið var að niðurlögn Framleiðsluráðs og hvernig fé ráðsins var ráðstafað í Framleiðsluráðssjóð. Í samþykktum sjóðsins kemur fram að LK mun fá 24,9% arð þess fjár sem sjóðurinn mun byggja á, en endanlegt uppgjör stofnfjár liggur ekki fyrir þar sem ekki er búið að ganga frá lífeyrisskuldbindingum Framleiðsluráðs.

    Fjármálanámskeið
    Þórólfur kynnti hugmynd um að LK og Búnaðarbanki Íslands hf haldi fjármálanámskeið fyrir kúabændur, um fjárfestingar og lántökur. Stjórn tók vel í málið og formanni og framkvæmdastjóra falið að vinna að málinu.

    Vangaveltur stjórnmálamanna um breytingar á beingreiðslum
    Þórólfur kynnti vangaveltur sem heyrst hafa um hugsanlegar breytingar á beingreiðsluformi því sem nú er í mjólkurframleiðslu. Hefur sérstaklega verið nefnt í því sambandi þak á stærðir framleiðslueininga og hugsanlegar minni beingreiðslur til þeirra sem hafa hátt tæknistig bús síns, s.s. með notkun mjaltaþjóna, huganlega öðru kúakyni og öðru slíku. Miklar og ákveðnar umræður urðu um málið, þar sem m.a. kom fram að stjórn LK telur að ekki eigi að hreyfa við beingreiðsluformi því sem nú er. Minnt var á að þegar núverandi mjólkurframleiðslusamningur var gerður, var sértaklega gert ráð fyrir því að menn gætu hagrætt í rekstri fyrir komandi tíma og því telur stjórnin óeðlilegt að fara að breyta kerfinu með einhverskonar takmörkunum á miðjum samningstímanum. Ákveðið var að senda landbúnaðarráðherra ábendingu stjórnar LK um málið.

    Málefni sauðfjárræktar
    Þórólfur kynnti stöðu mála í núverandi sauðfjárræktarsamningaviðræðum.

    ÍSKÝR að koma á markað
    Í tengslum við að forritið ÍSKÝR er loks að koma á markað, minnti Kristín Linda á ályktun frá síðasta aðalfundi LK þess efnis að aðstoða bændur við tölvuvæðingu. Umræður urðu um málið og þar sem væntanlega verða haldin námskeið víða um land varðandi notkun á ÍSKÝR, þá er upplagt að nota tækifærið til að miðla fleiri upplýsingum til bændanna. Framkvæmdastjóra var falið að ræða við tölvudeild BÍ um málið.

    Fleira var ekki gert og fundi slitið.

    Snorri Sigurðsson