Stjórnarfundir – 9. 2013-2014
17.02.2014
Fundargerð níunda fundar stjórnar Landssambands kúabænda, sem haldinn var mánudaginn 17. febrúar 2014 á skrifstofu samtakanna að Bitruhálsi 1. Mætt eru Sigurður Loftsson formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Jóhann Gísli Jóhannsson og Trausti Þórisson. Einnig sat fundinn Guðrún Sigurjónsdóttir, búnaðarþingsfulltrúi LK. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri LK ritaði fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna og gekk til dagskrár.
Fundur settur kl. 12.00.
1. Fundagerð síðasta fundar. Afgreidd og birt á heimasíðu samtakanna.
2. Framleiðsla og sala mjólkurafurða. Áfram mjög mikil aukning á fitugrunni, salan undanfarna 12 mánuði hér á landi er 121,9 milljónir lítra, sem er 6,5% aukning frá árinu á undan. Á sama tímabili er salan 117,8 milljónir lítra á próteingrunni, sem er 1,9% aukning. Sala á skyri er nýfarin af stað aftur í Færeyjum og gengur vel. Sala á skyri er að fara af stað í Sviss. Formaður fór yfir fundi aðgerðahóps um aukningu mjólkurframleiðslunnar, athyglin beinist um þessar mundir fyrst og fremst að lækkandi fituhlutfalli í innleggsmjólk og hvernig megi bregðast við þeirri stöðu. Þá var staða verðlagsnefndar rædd og farið yfir framtíðarhorfur í starfi nefndarinnar. Formaður reifaði helstu atriði sem rædd voru á fundi hans og formanns BÍ með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar voru m.a. ræddar breytingar á útdeilingu beingreiðslna á þann veg að hlutdeild A-greiðslna verði lækkuð og fjármunirnir færðir yfir í C-greiðslur. Að mati stjórnar LK er nauðsynlegt að slíkar breytingar fái afgreiðslu á aðalfundi. Á fundinum með ráðherra var einnig ítarlega rætt um stöðu tollverndar og innflutning búvara. Þar kom fram að sótt hefur verið um heimild til innflutnings á lífrænni mjólk til ostagerðar. Að mati stjórnar er nauðsynlegt að kanna hvernig rekstrargrundvöllur sé fyrir lífrænni mjólkurframleiðslu hér á landi og hvernig sinna megi markaði fyrir slíkar afurðir. Stjórn telur einnig mikilvægt að farið verði yfir útjöfnun beingreiðslna fyrir árið 2013 á þeim aðalfundum aðildarfélaga sem framundan eru, hvaða hagræna þýðingu hún hefur fyrir einstök bú sem framleiða umfram greiðslumarkið.
3. Framleiðslu- og sölumál nautakjöts. Mikill samdráttur í slátrun á kúm veldur skorti á framboði af hakkefni. Varðandi endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna, þá hefur komið fram að niðurstaða á áhættumati MAST tefst fram í mars. Fyrir liggur stjórnarsamþykkt varðandi ósk um innflutning á holdanautasæði, frestað var að fylgja henni eftir þar til áhættumat liggur fyrir. Stjórn lýsir áhyggjum yfir því hversu mjög þessi vinna hefur dregist. Að mati stjórnar er mikilvægt að samtökin beiti sér fyrir miðlun á gripum. Framkvæmdastjóri setji upp póstlista í þeim tilgangi, í samráði við KS og Auðhumlu sem hafa látið listana í té. Ásetningur nautkálfa fer lítillega vaxandi á síðustu mánuðum ársins 2013.
4. Stöðumat fyrir nautgriparæktina. Upplýsingar hafa verið nokkuð misvísandi um hvar málið sé statt. Stjórn telur afar brýnt að þessari vinnu verði komið af stað hið fyrsta og samþykkt var að senda svofellda ályktun til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna málsins:
„Við breytingu á samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar, sem undirrituð var 28. september 2012, samþykkt á alþingi 19. desember 2012 og samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu meðal kúabænda 22. nóvember 2012, var sett inn í samninginn svohljóðandi ákvæði:
„Samningsaðilar eru sammála um, á grundvelli greinar 8.2 samningsins, að hefja vinnu við stefnumótun fyrir greinina með því markmiði að efla samkeppnishæfni og treysta afkomu hennar til lengri tíma. Til undirbúnings þessu verði skipaður starfshópur samningsaðila til að meta þá reynslu sem komin er af framkvæmd samningsins, þ.á.m. kostnaðarþróun í greininni, áhrif kvótakerfisins og stöðu verðlagningar og tolla. Starfshópurinn skal skila niðurstöðu sinni í síðasta lagi 31. desember 2013.“
Landssamband kúabænda hefur ítrekað minnt á umrætt ákvæði samningsins án þess að því hafi verið fullnægt með viðeigandi hætti. Stjórn Landssambands kúabænda lýsir þungum áhyggjum af málinu, komið er fram yfir miðjan febrúar 2014 og framangreindur starfshópur hefur ekki verið skipaður enn. Samtökin telja brýnt að það verði gert nú þegar, enda sé að öðrum kosti verið að ganga gróflega gegn framangreindum ákvæðum samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar.
Samtökin óska eftir því að ráðherra upplýsi nú þegar um stöðu málsins og hvenær fyrirhugað er að skipa starfshópinn“.
5. Búnaðarþing 2014. Farið yfir helstu mál sem tengjast komandi búnaðarþingi. Tillögur að samþykktabreytingum Bændasamtaka Íslands verða fyrirsjáanlega eitt stærsta mál þingsins. Í fyrirliggjandi tillögum er óljóst fyrir hvað BÍ eigi að standa og með hvaða hætti þau eigi að starfa. tillaga um fyrirkomulag við val fulltrúa á Búnaðarþing vekur undrun. Að mati stjórnar LK verður vægi einstakra búgreina að vera í hlutfalli við verðmætasköpunina og hagsmunina sem henni tengjast. Einnig telur stjórn mikilvægt að ná fram breytingum á lengd kjörtímabils og fjölda stjórnarmanna. Önnur mál sem snerta LK eru: Eignaumsýsla. Nautastöð. Jarðeignir ríkisins. Sjúkrasjóður. Félagskerfi landbúnaðarins. Hagtölusöfnun. Bjargráðasjóður. Upprunamerkingar matvæla. Lífrænar búvörur. Útgáfumál. Kúasæðingar. Landbúnaðarháskólinn. Stefnumótun í landbúnaði. Búvörusamningar. Brunatrygging landbúnaðarbygginga.
6. Frá síðasta fundi fagráðs í nautgriparækt. Formaður fagráðs fór yfir helstu atriði frá síðasta fundi fagráðs. Dr. Ágúst Sigurðsson kynbótafræðingur og rektor Lbhí var fenginn á fund nefndarinnar og fór hann yfir breytingar sem gerðar hafa verið á kynbótastarfi nautgriparæktarinnar. Þær eru helstar að hætt verður að nota gamla dómsskalann við byggingardóm á kvígum, þar sem nægjanlegt þykir að nota línulega skalann. Rætt um innskot á erfðaefni í íslenska kúastofninn og hvernig halda megi þeirra vinnu áfram í samvinnu við Lbhí. Einnig rætt um að gera þurfi verndaráætlun fyrir íslenska kúakynið og hversu stór kúastofninn þurfi að vera til að teljast sjálfbær í ræktunarlegu tilliti. Þá hefur fagráð einnig ákveðið að kvígur undan heimanautum verði dæmdar á kostnað bænda.
7. Drög að reglugerð um aðbúnað nautgripa. Formaður kynnti samantekt sína annars vegar og Guðmundar Jóhannessonar nautgriparæktarráðunautar RML hins vegar um athugasemdir við drög að aðbúnaðarreglugerð fyrir nautgripi. Samtökin gera mjög miklar og alvarlegar athugasemdir við drög að reglugerðinni og hafa þær verið sendar til lögmanns BÍ. Samtökin telja ámælisvert að ekki hafi verið gerð tilraun til að kostnaðarmeta breytingar á aðbúnaðarreglum. Fram kom að mál í viðauka reglugerðardraganna um stærðir á básum o.þ.h. hafi farið inn fyrir mistök, þar sem þau gildi fyrir mun stærri gripi en hér eru.
8. Aðalfundur LK. Verður haldinn 28. og 29. mars n.k. Fagþingið tekur á hinni faglegu hlið mála í þetta sinn. Varpað fram hugmyndum að erindi á aðalfundi og ákveðið að ganga frá ráðningu starfsmanna fundarins síðar.
9. Fagþing. Búið að ákveða hverjir halda erindi. Ákveðið að hafa verðlaunaafhendingu fyrir besta nautið í 2006 árgangi. Framkvæmdastjóri fái stuðningsaðila að fagþinginu.
10. KvægKongres í Danmörku. Stjórn ákveður að framlag LK til ferðarinnar verði að samtökin greiði fyrir tvo bílaleigubíla. Kostnaður áætlaður 8.300 DKK, eða um 165.000 kr.
11. Erindi frá Matís aukin gæði nautakjöts. Stjórn telur verkefnið áhugavert og styður framkvæmd þess. Ekki er farið fram á fjárhagslegan stuðning samtakanna við verkefnið.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.50.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK