Beint í efni

Stjórnarfundir – 3. 2013-2014

07.06.2013

Fundargerð þriðja stjórnarfundar Landssambands kúabænda starfsárið 2013-2014, haldinn að Bitruhálsi 1 í Reykjavík föstudaginn 7. júní 2013 kl. 11.00. Mætt eru Sigurður Loftsson formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð. Gestur undir liðum 2 og 3 er Einar Sigurðsson, forstjóri MS og Auðhumlu.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna og gekk því næst til dagskrár.

 

1. Fundargerð síðasta fundar afgreidd og undirrituð.

 

2. Staða viðræðna um tollkvóta til ESB fyrir mjólkurafurðir. Formaður fór yfir gang mála í viðræðum um aukna tollkvóta til ESB og þær tillögur sem liggja fyrir. Einar rakti stöðuna eins og hún horfir við mjólkuriðnaðinum. Að hans mati eru fram komnar tillögur í þessum efnum algerlega óásættanlegar fyrir iðnaðinn og kúabændur. Fram kom að tvíhliða samningur við Sviss heimilar ótakmarkaðan aðgang fyrir íslenskt skyr, gegn 15 tonna innflutningi á osti þaðan, frá 1. júlí 2013. Verið er að kanna möguleika á skyrsölu þar í landi. Ýtarlegar umræður voru um möguleika og hindranir í útflutningi mjólkurafurða.

 

3. Verðlags- og sölumál mjólkur. Samkvæmt söluyfirliti apríl er sala sl. 12 mánuði á fitu- og próteini jafn mikil, nálægt 117 milljónir lítra. Í því felast talsverð tíðindi enda hefur próteinsalan verið meiri en fitusalan í rúmlega tvo áratugi hið minnsta. Það sem af er ári er 14% aukning á smjörsölu. Mat mjólkuriðnaðarins er að aukning í fjölda ferðamanna hafi umtalsverð áhrif á söluna. Sumarið fer vel af stað og virðast söluhorfur góðar næstu mánuði. Verðlagsgrundvöllur 1. júní liggur ekki fyrir og stefnt er að næsta fundi verðlagsnefndar búvara í lok júní.

 

4. Staða mála á kalsvæðum. Formaður reifaði stöðu mála á kalsvæðum norðan- og austanlands. Staða mála hefur verið kortlögð ýtarlega af samtökum bænda og einnig hefur ráðherra landbúnaðarmála kynnt sér ástandið. Víða eru 20-80% túna ónýt vegna kals og tjónið er meira og útbreiddara en áður hefur sést. Ljóst er að útgjöld vegna heykaupa bænda á þessum svæðum verða gríðarleg, einnig er fyrirséð að bændur á mörgum búum munu lítið geta beitt gripum sínum í sumar. Á móti kemur að úrræði vegna gróffóðuröflunar eru meiri en áður var, ennfremur hefur tíðarfar verið hagstætt að undanförnu. Stjórn ræddi hvort mögulegt væri að samið verði við bændur utan áfallasvæða um að tryggja fóðuröflun. Þá er stjórn þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að setja á fót stóráfallasjóð sem taki á hamförum af þessari stærðargráðu.  Fyrir liggur að Bjargráðasjóður er ekki í neinum færum til að koma til móts við áföll af þessu tagi.

 

5. Málefni nautakjöts og vinna starfshóps um endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna. Formaður fór yfir vinnu starfshópsins og þá möguleika varðandi útfærslu á endurnýjun erfðaefnisins sem til skoðunar eru. Ljóst er að kostnaður við að halda uppi einangrunarbúi er gríðarlega mikill. Ef fara á í beinan sæðisinnflutning er nauðsynlegt að gera áhættumat gagnvart slíkum innflutningi. Efnahagslegt umfang og styrkur nautakjötsframleiðslunnar setur talsverðar skorður um hve kostnaðarsöm útfærslan má verða. Í fyrirliggjandi skýrsludrögum kemur fram að LK hefur undanfarin ár ráðstafað umtalsvert meiri fjármunum til markaðsstarfs í nautakjöti en sem nemur búnaðargjaldstillagi nautakjötsframleiðslunnar. Í drögunum kemur einnig fram að starfshópurinn telur einboðið að hefja undirbúning að upptöku EUROP kjötmats í nautakjöti sem fyrst. Þá var rætt hvort sá möguleiki væri fyrir hendi að LK standi að innflutningi á holdanautasæði, líkt og fyrr á árum. Ósk um slíkt hefur komið fram í ályktunum aðalfunda LK undanfarin ár. Nautastöð BÍ er dreifingaraðili á nautgripasæði hér á landi og því nauðsynlegt að hafa samráð um málið við stöðina og BÍ.
Að lokum kom fram að starfshópurinn hyggst skila skýrslu mjög fljótlega og lögð er áhersla á að fá fund með ráðherra um málið hið fyrsta.

 

6. Samningur Bændasamtaka Íslands og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um framkvæmd verkefna samkvæmt búvörulögum og búvörusamningum. Framkvæmd þessara mála var áður á hendi Framleiðsluráðs. Þegar það var lagt niður fóru verkefnin yfir til BÍ samkvæmt samningi milli samtakanna og ríkisins. Til skoðunar er að segja samningnum upp frá 30. júní 2013 og fá þannig endurskoðun á forsendum þessara verkefna. Hugsanlegt er að þessi verkefni verði færð frá BÍ í framtíðinni. Vaxandi umsýslukostnaður er áhyggjuefni að mati stjórnar.

 

7. Stöðumat samkvæmt bókun við mjólkursamning. Í aðdraganda að gerð samningsins um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar árið 2004 voru teknar saman tvær umfangsmiklar skýrslur um nautgriparæktina. Annars vegar Staða, þróun og horfur í nautgriparækt á Íslandi (RANNÍS skýrslan) og Stöðumat og stefnumótun í  mjólkurframleiðslu. Lagt er til að þessar tvær skýrslur verði lagðar til grundvallar því stöðumati sem framundan er og upplýsingar í þeim verði uppfærðar; hvar hafi vel til tekist og hvar megi bæta úr. Stjórn telur nauðsynlegt að ASÍ og BSRB komi að málinu, sem aðilar að verðlagsnefnd búvara. Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði verði einnig kölluð að borðinu. Þeim möguleika velt upp hvort ekki sé eðlilegast að gerður verði heildarsamning fyrir nautgriparæktina; mjólkur- og nautakjötsframleiðslu. Ef gera á grundvallarbreytingar á núverandi fyrirkomulagi, þarf að þeim nauðsynlegan aðlögunartíma.

 

8. Af vettvangi Fagráðs í nautgriparækt. Formaður fagráðs fór yfir helstu atriði af síðasta fundi fagráðs. Rakti bréf frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti um ráðstöfun á þróunarfé nautgriparæktarinnar. Á fundinum var einnig tekin ákvörðun um framhaldsnotkun á nautum úr árganginum frá 2007 og besta nautið úr 2006 árganginum valið. Nokkur umræða var um hvort velja eigi sérstaka nautsfeður eður ei og hugsanleg áhrif þess á nautaval bænda. Þá var rædd nauðsyn þess að unnar verði pörunaráætlanir fyrir allar nautsmæður. Á fundinum kom einnig fram að skortur er orðinn á kynbótafræðingum með framhaldsmenntun hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.

 

9. Styrkumsóknir.

  • Sjónvarpsþættirnir „Hin fagra sveit“. Verkefnið kynnt fyrir stjórn. Framleiðendum bent á að sækja um tiltekna styrkupphæð til samtakanna.
  • Umsókn frá Íslandsdeild NJF vegna greiðslu á félagsgjöldum meðlima í hinum norrænu samtökum. Stjórn ákveður að hafna beiðninni.

 

10.  Önnur mál.

 

a. Tryggingar á gripatjónum. Þetta mál verður að leiða til lykta hið fyrsta. Framkvæmdastjóra falið að vinna að því.

b. Nýliðun í bændastétt. Verði tekin fyrir á fundi með nýjum ráðherra landbúnaðarmála. Felast möguleikar fyrir nýliða í að breyta lögum um ríkisjarðir og kvöðum um umgengni og nýtingu þeirra?

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.27.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri LK