Beint í efni

Stjórnarfundir – 2. 2011-2012

05.05.2011

2. fundur stjórnar haldinn 5. maí 2011. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri LK ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna og setti fund kl. 10.55. Því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Fundargerð síðasta fundar. Undirrituð og staðfest. Hefur þegar verið birt á heimasíðu Landssambands kúabænda. Fundargerð aðalfundar er ekki tilbúin, verður það mjög fljótlega. Stjórn ítrekar markmið um að flýta birtingu fundargerða svo sem verða má.

2. Fundur með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 4. maí 2011. Formaður lagði fram minnisblað sem fulltrúar LK fóru með til ráðherra. Þar komu fram áherslur með helstu ályktunum aðalfundar sem stjórn ákvað á síðasta fundi að kynna fyrir ráðherra.

 

Formaður greindi jafnframt frá umræðum á fundinum, en þar urðu ítarlegar umræður um kjaramálaályktun, verðlagsgrundvöll, framreikning og búvörulagafrumvarp. Skilningur ráðuneytisins er sá að það sé afdráttarlaust lögbrot ef greiðslumarkshafar markaðssetja mjólk utan greiðslumarks á innanlandsmarkað.

 

Ráðherra var greint frá því að Landssamband kúabænda leggst eindregið gegn hugmyndum um breytingar á uppgjörsreglum vegna ónýtts greiðslumarks, en fram kom að vilji ráðherra stendur til að skoða málið áfram. Ráðherra var kynnt minnisblað frá Auðhumlu svf. um aldursdreifingu greiðslumarkshafa og magn greiðslumarks. Þar kemur ljóst fram að eftir því sem greiðslumarkshafarnir eru yngri, hafa þeir meira greiðslumark.

 

Ítarlegar umræður urðu um kvótarmarkaðinn, framkvæmd hans og ástæður þess að mun minna framboð var á markaði 1. apríl 2011 en 1. desember 2010. Ráðherra gaf ekki vilyrði um fleiri markaðsdaga í ár, en fulltrúar LK fylgdu eftir ályktun LK hvað það varðar.

 

Breytingar á jarða- og ábúðalögum voru ræddar auk athugasemda LK sem settar voru fram 27. apríl sl. Einnig var farið yfir málefni nautakjöts og ályktun aðalfundur LK þar um og ályktun um dýralæknamál.  Ráðherra lýsti velvilja gagnvart ályktuninni um dýralæknamál.

 

Ráðherra var sammála ályktun aðalfundar um andstöðu við inngöngu Íslands í ESB. Að lokum var díoxínmengun í Skutulsfirði rædd við ráðherrann. Ráðherra lýsti áhyggjum sínum af fækkun afurðastöðva og sumarlokun þeirra. Þá kom fram sú skoðun hans að undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum, væri að einhverju leyti bundin við hæfilegan fjölda starfsstöðva og dreifingu þeirra um landið.

Ýmsar umræður urðu í stjórn við kynningu formanns á fundinum og viðbrögðum ráðherra. M.a. var nefnt að á samráðsfundi MAST í apríl kom fram að það stæði á svari til MAST frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og fjármálaráðuneyti varðandi staðaruppbætur til dýralækna í dreifðari byggðum. Hófleg bjartsýni er um að þeir fjármunir berist.

 

Vangaveltur urðu um afstöðu LK gagnvart því að ábúendur héldu óskertum beingreiðslum í ákveðinn tíma eftir að framleiðslu væri hætt. Í búvörulögum er ákvæði um að hægt er að leggja inn greiðslumark í allt að 3 ár. Ákvæði varðandi þetta yrðu að vera mjög skýr og afmörkuð í tíma. Ekki fyllilega hliðstætt við eldgosið í Eyjafjallajökli, því að við þær aðstæður varð ekkert ráðið. Díoxínmengunin var hins vegar af mannavöldum. Sá sem ber ábyrgð á henni er ábyrgur gagnvart ábúendum jarðarinnar. Þyrfti að koma ákvæði vegna mengunarslysa inn í rekstrarstöðvunartryggingar greinarinnar. Samtök bænda styðji ábúendur til að sækja rétt sinn í málinu. Formaður ræði málið við lögfræðing BÍ.

3. Breytingar á búvörulögum. Málið rætt ítarlega og ákveðið að vinna að því af fullum krafti áfram í samráði við aðra er málið varðar.

4. Framleiðsla og sala nautgripaafurða. Framleiðsla og sala mjólkur og nautakjöts. Sala mjólkur 1 millj. ltr undir greiðslumarki. Lagt fram yfirlit yfir sölu á tímabilinu jan-apr 2008-2011. Samanburður á sölu á þessu tímabili 2011 við 2010 leiðir í ljós 2,1% samdrátt í viðbiti, 3,9% aukningu í osti (skýrist m.a. af tilfærslu úr iðnaðarmjólk yfir í rifinn ost) og 3,9% aukningu í dufti. Samdráttur er í drykkjarmjólkinni upp á 4%, aukning í mjólkurréttum 3%, tæplega helmings samdráttur í iðnaðarhráefni, og 1% aukning í heilsuvörum. Ásetningur nautkálfa jókst um 1,1% milli 2009 og 2010. Framkvæmdastjóri fái héraðsráðunauta til að meta þróun í ásetningi og fái mat sláturleyfishafa á markaðsstöðu nautakjötsins.

5. Verðlagsmál. Fundur í verðlagsnefnd sl. þriðjudag. Verðlagsgrundvöllur frá 1. mars var staðfestur af nefndinni. Hækkun á breytilegum kostnaði frá des. 2010 til mar. 2011 er 1,66 kr/ltr. Fóðurverðshækkun í febrúar virðist ekki vera ekki komin inn og áburður ekki heldur. Hækki áburðarliður grundvallarins um 13% gerir það hækkunarþörf upp á 1,63 kr/ltr. Þá eru enn ótaldar nýjustu hækkanir á fóðri nú í maí, sáðvöruverðshækkanir ofl. Kjarasamningar munu kosta mjólkuriðnaðinn talsvert mikið, 3-400 milljónir. Hver verða markaðsáhrif hækkana? Brýnt er að ná fram leiðréttingu vegna breytilegu kostnaðarliðanna og launaliður verði leiðréttur í kjölfar kjarasamninga. Hver verða kaupmáttaráhrif kjarasamninga?

6. Útflutningsmál mjólkurafurða. Formaður hefur fundað tvívegis með Íslandsstofu um málið. Nauðsynlegt er að hið fyrsta verði gengið frá fyrirkomulagi þessara mála og þeirra verkefna sem Áform hefur staðið fyrir.  LK mun leggja verkefninu fjármuni á  yfirstandandi ári að því gefnu að niðurstaða verkefnisins verði í samræmi við fyrri ályktanir stjórnar.

7. Kynningarmál greinarinnar og fjölmiðlarekstur LK. Taka þarf á útivistarumræðunni á félagslegum grunni, hvernig er hægt að leysa þessi mál. Mat stjórnar er að slíkt sé vel mögulegt. Skoða möguleika á útgáfu kynningarmyndbands um mjólkurframleiðsluna. Setja upp viðburð í kringum það þegar kúnum verður hleypt út í vor. Samkvæmt nýjum fjölmiðlalögum rekur Landssamband kúabænda tilkynningaskyldan fjölmiðil, sem þarf að skrá hjá Fjölmiðlanefnd. Verður gert og tilkynnt á heimasíðu LK.

8. Stefnumörkun. Stefnt að fundi stefnumörkunarhóps í byrjun júní, Snorri Sigurðsson verður á landinu þá. Gengið frá stefnumörkunarefni þá.

9. Tilnefning fulltrúa í tilraunanefnd Stóra-Ármóts. Óskað hefur verið eftir tilnefningum af hendi LK. Mat samtakanna er að eðlilegt sé að slík nefnd starfi við allar tilraunastöðvar, slíkt skapar markvissara tilraunastarf. Samþykkt að tilnefna Jóhann Nikulásson sem fulltrúa Landssambands kúabænda.

10. Fjármögnun og rekstur Huppu. Gestir fundarins undir þessum lið eru Jón Baldur Lorange, forstöðumaður tölvudeildar BÍ og Eiríkur Blöndal framkvæmdastjóri BÍ. Skýrsluhaldsforritið Huppa hefur verið í mikilli þróun árin 2009 og 2010, vinnan hefur mest verið unnin af verktaka fyrir BÍ sem er Stefna hugbúnaðarhús á Akureyri. Í þá vinnu hafa farið 16 milljónir á þessu tímabili. Rekstrarkostnaður Huppu hefur verið kannaður, þróun og nýjar viðbætur. 186 klst það sem af er ári 2011 hafa farið í þjónustu við notendur. Skráðir skýrsluhaldarar eru 605, en 410 af þeim skrá gögn í Huppu, þar af eru tæplega 200 í skýrsluhaldi í gegnum Búnaðarsamböndin. Skv. fjárhagsáætlun BÍ er ekki gert ráð fyrir fjármunum í þróun. Niðurskurður á framlögum kemur einhvers staðar niður. Umtalsverðir fjármunir renna til samtakanna í formi búnaðargjalds. Það er kjörinna fulltrúa að ákveða um nýtingu þeirra. Hefur verið rætt við Lagastofnun HÍ varðandi álitamál gagnvart innheimtu og útdeilingu á búnaðargjaldi. Nú er hætt að nýta þróunafé sauðfjársamnings til að greiða notendagjöld á Fjárvís. Má færa rök að því að notendagjöld fyrir búfjárræktarforrit eigi að vera þau sömu, þar sem að talsverðu leyti eru þetta sömu forritin. Með því að innheimta svipað notendagjald fyrir Huppu, Fjárvís og WorldFeng væri hægt að framkvæma eðlilega þróunarvinnu og rekstur á forritunum. Stærri nýsmíði yrði fjármögnuð með styrkjum. Fá þarf nýjustu útgáfu af lykiltölublaði fyrir danska kúabændur, til að bera saman við þær niðurstöður sem hægt er að fá í Huppu. LK ítrekar þá skoðun að það þurfi að forgangsraða tekjum af búnaðargjaldi í þau verkefni sem vilji er til að vinna. Sé hinsvegar ekki önnur leið fær að svo komnu til að reka gagnagrunninn en innheimta notendagjöld, er eðlilegra að þau séu lögð á alla þátttakendur í skýrsluhaldinu en ekki einungis þá sem annast sína skráningar sjálfir í gegn um Huppu.    

11. Önnur mál.

a. Uppgjör á aðkeyptri sérfræðivinnu frá BÍ og setu framkvæmdastjóra LK í samningahópi um landbúnaðarmál vegna ESB umsóknar og vinnslu á kynbótamati í nautgriparækt, sem hann hefur með höndum.

b. Hvernig á að bregðast við þegar starfsmenn samtaka bænda tala þvert gegn hagsmunum umbjóðendanna?

c. Fundur í samstarfsnefnd SAM og BÍ. Gögn sem lögð eru fyrir nefndina eru ófullnægjandi að mati fulltrúa LK og skrifaði hann því undir mjólkuruppgjörið með fyrirvara. Nauðsynlegt er að ræða tilgang nefndarinnar og þær skyldur sem nefndarmönnum eru ætlaðar.

d. Útgáfa Matís á rafrænni kjötbók. Hugmyndin kynnt fyrir stjórn. Fjármögnun skilyrt aðkomu sláturleyfishafa.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.17.

 

Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK