Stjórnarfundir – 6. 2010-2011
09.11.2010
Símafundur stjórnar LK 9. nóvember 2010. Á línunni voru Sigurður Loftsson, formaður, Sigurgeir Hreinsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.
Formaður setti fund kl. 12.00 og gengið var til dagskrár.
1. Beiðni um stuðning LK við verkefni Áforms og Baldvins Jónssonar í Bandaríkjunum. Formaður reifaði málið og fór yfir drög að ályktun vegna þess, sem send hafði verið stjórnarmönnum fyrir fundinn. Ítarlegar umræður urðu um málið þar sem spurningar komu fram um með hvaða hætti umrætt erindi berst LK og hvort eðlilegt sé að samtökin komi að verkefnum sem þessu? Hvar liggja skilin milli LK og MS í markaðsmálum? Er eðlilegra þar sem búið er að sameina mjólkurvinnsluna að hún hafi svona verkefni með höndum? Athyglisvert að verkefni sem áður hafa verið með einhverjum hætti í höndum BÍ skuli nú vera komin á herðar búgreinafélaganna. Mikilvægt er þó að halda þessu starfi áfram og fellst stjórnin á að greiða helmings hlut landbúnaðarins á móti LS fyrir árið 2011. Nauðsynlegt er að rædd verði aðkoma LK að verkefnum sem þessum á næsta aðalfundi. Formanni og framkvæmdastjóra falið að ganga frá ályktuninni skv. framlögðum drögum og umræðum á fundinum.
Ályktun stjórnar LK:
Landssambandi kúabænda hefur borist ósk um þátttöku í kostnaði vegna þeirra markaðsverkefna sem unnin hafa verið á vegum Áforms og Baldvins Jónssonar í tengslum við verslanir Whole Foods Market í Bandaríkjunum. Hugmyndin gengur út á að verkefnið falli undir verkstjórn Íslandsstofu og Baldvin muni vinna áfram að þeim þar ásamt öðrum verkefnum. Auk Landssambands kúabænda er hugmyndin að Landssamband sauðfjárbænda, Íslandsstofa, Icelandic Group og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið muni standa straum af þessum verkefnum Baldvins.
Unnið hefur verið að sölu á íslensku skyri og smjöri í verslunum WFM síðustu 6 ár. Lítill vöxtur hefur verið í sölu þessara afurða síðustu ár á þessum markaði, en þó hefur skilaverðið verið hagstætt, einkum á síðastliðnu ári. Eins eru nú uppi væntingar um að sala geti aukist, þar sem möguleiki er á að bjóða vörurnar í fleiri verslunum. Það er því mat stjórnar LK að ekki megi að svo komnu leggja frá sér þennan markað og að ekki sé fullreynt með að ná þar frekari vexti.
Stjórn LK fellst því á að greiða allt að 18.000 dollara framlag til þessa verkefnis vegna ársins 2011. Forsenda framlagsins er þó sú að unnið verði að milliliðalausum tengslum milli WFM og MS, auk þess sem óskað er eftir reglubundnum fundum LK, MS og Íslandsstofu um framgang þeirra söluverkefna sem í gangi eru.
Stjórn LK telur nauðsynlegt að tekin verði ítarleg umræða um aðkomu samtakanna að markaðsmálum bæði hér heima og erlendis á næsta aðalfundi LK.
2. Markaðsstaða íslensks kálfadufts. Málið rætt frá ýmsum hliðum.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 13.00
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK