Beint í efni

Stjórnarfundir – 5. 2010-2011

14.10.2010

Stjórnarfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 14. október 2010.
Fundur var settur kl. 15.00. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Sigurgeir Hreinsson var í síma undir fyrrihluta fundarins, einnig sat fundinn Jóhanna Hreinsdóttir Káraneskoti 1. varamaður.

1. Fundargerð síðasta fundar. Samþykkt með smávægilegum breytingum.

2. Framleiðsla, sala og verðlagsmál. Búið er að reikna nýja stuðla sem notaðir eru til að reikna magn seldra afurða yfir í mjólk. Þar með hafa verið leiðrétt ofhöld á fitu- og próteingrunni seldra afurða sem verið hafa viðvarandi síðustu misseri. Samkvæmt þessu er salan 115,1 milljón lítra á próteingrunni og 111,1 milljón lítra á fitugrunni sl. 12 mánuði. Væntingar eru um að þessar tölur hækki þegar líður að lokum ársins, sala gengur ágætlega og er í góðu samræmi við áætlanir. Flest bendir því til að greiðslumarkið verði óbreytt frá því sem nú er þ.e. 116 milljón lítrar á ársgrunni. Verðlagsnefnd hefur verið að störfum að undanförnu, horfur eru á að afkoma mjólkuriðnaðarins komist í jafnvægi fyrir árslok. Lífeyrissjóðsmál hafa einnig verið til  skoðunar, en ríkið hætti greiðslu mótframlags í Lífeyrissjóð bænda um mitt þetta ár. Ekki er útilokað að frekari greiðslur berist með afgreiðslu fjáraukalaga sem gætu dekkað hálft ár eða svo. Þar með ljúki þátttöku hins opinbera í þessum greiðslum. Staða verðlagningar er snúin um þessar mundir og ekki ljóst hvert stefnir að svo komnu.Fyrirsjáanlegar eru aðfangahækkanir í vetur og hljóðið farið að þyngjast í bændum. Greinilegt að staða verðlagningarkerfisins er í mikilli deiglu meðal þeirra, en mikilvægt er að horfa á heildarsamhengi hlutanna hvað það varðar.

3. Reglugerð um greiðslumark mjólkur 2011. 

Stjórn gerir eftirfarandi tillögu um útdeilingu C-greiðslna. Upphæð C-greiðslna er áætluð miðað við innvigtun undanfarinna 12 mánaða:

 

Mánuður C-greiðsluhlutfall Upphæð C-greiðslu pr. ltr
janúar 0%
febrúar 0%
mars 0%
apríl 0%
maí 0%
júní 0%
júlí 10% 8 kr
ágúst 15% 12 kr
september 15% 13 kr
október 20% 18 kr
nóvember 20% 18 kr
desember 20% 16 kr

Greiðslur á óframleiðslutengdum stuðningi þarf að rétta af, þar sem verið er að fara úr 16 mánaða verðlagsári í hefðbundið 12 mánaða verðlagsár. 45,2 milljónir í kynbótaverkefni, mjólkursýnatöku og skýrsluhald. Jarðræktarverkefni fá 86,1 milljón og 11,6 milljónir í þróunarfé. Samtals 143 milljónir kr. Samkvæmt fjárlögum 2011 fara 169 milljónir kr. í óframleiðslutengdan stuðning, mismunur upp á 26 milljónir. Verður fært yfir á beingreiðslur.

4. Staða stefnumörkunar. Málið ítarlega rætt. Farið verður yfir stöðu málsins á haustfundunum.

5. Kvótamarkaður, staða málsins. Hefur verið kynnt ítarlega fyrir starfsmönnum búnaðarsambanda og fjármálastofnana. Verður kynnt á haustfundum fyrir bændum og brýnt fyrir þeim sem hyggjast eiga viðskipti að fara að huga að þeim. Málið í ágætum farvegi.

6. Reglugerð um erfðabreytt matvæli og fóður. Landssamband kúabænda sendi inn athugasemdir vegna draga að reglugerð um erfðabreytt matvæli og fóður. Í henni er gert ráð fyrir að gengið verði mun lengra en í nágrannalöndunum varðandi merkingar matvæla. Krafa LK er sú að jafnræðis verði gætt í þessum efnum.

7. Haustfundir LK. Mikilvægt að taka saman umræður á haustfundunum og koma til vefstjóra svo fréttaflutningur af þeim verði skilvirkur.

8. Stefnumörkun í málefnum heimavinnslu. Nýr formaður Beint frá býli hefur komið að máli við LK vegna stefnumörkunar í heimavinnslu mjólkur. Stefnt er að fundi með samtakökunum fljótlega.

9. Heimasíða LK. Nýtt útlit síðunnar er í vinnslu og stefnt að opnun í þessum mánuði. Tryggja þarf tengingu við samskiptavefi.

10. Starfsmannahald næstu mánuði. Framkvæmdastjóri fer í feðraorlof í nóvember n.k. Verkefnum framkvæmdastjóra verði sinnt af formanni á þeim tíma. Eðlilegt að hann njóti sömu starfskjara og framkvæmdastjóri meðan á því stendur.

11. Staða aðlögunarferils Íslands að ESB. Farið yfir ýmsa fundi og erindi sem málinu tengjast frá síðustu vikum.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19.05

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri LK