Beint í efni

Stjórn búgreinadeildar kúabænda ásamt formanni gefur áframhaldandi kost á sér

01.03.2022

Formaður kúabænda, Herdís Magna Gunnarsdóttir ásamt núverandi stjórn búgreinadeildar kúabænda gefur kost á sér til áframhaldandi setu. Í stjórn búgreinadeildar kúabænda sitja:

 

Bessi Freyr Vésteinsson, Hofsstaðaseli

Sigurbjörg Ottesen, Hjarðarfelli

Rafn Bergsson, Hólmahjáleiga

Vaka Sigurðardóttir, Dagverðareyri


Kjósa þarf stjórn á Búgreinaþingi sem haldið verður í Reykjavík dagana 3.-4. mars nk.

 

Formaður stjórnar

 

Herdís Magna Gunnarsdóttir
Egilsstöðum
Herdís er bóndi á Egilsstöðum á Fljótsdalshéraði. Hún er í gift Sigbirni Þór Birgissyni og saman eiga þau tvo syni. Herdís er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og lauk BS. prófi frá LBHÍ og Háskólanum á Hólum árið 2012. Að námi loknu flutti Herdís austur og gekk inn í búsreksturinn með foreldrum sínum. Á Egilsstaðabúinu eru um 75 árskýr og talsverð nautakjötsframleiðsla. Herdís hefur verið formaður kúabænda síðan 2020.

Meðstjórnendur

Rafn Bergsson
Hólmahjáleigu

Rafn er bóndi í Hólmahjáleigu Rangárþingi-Eystra. Hann er giftur Majken E Jörgensen og eiga þau 2 börn. Rafn er menntaður bifvélavirki og vann mest við viðgerðir og járnsmíði en árið 2005 keyptu hann og Majken jörðina Hólmahjáleigu af foreldrum Rafns og hófu þar kúabúskap. Í dag eru á búinu um 50 mjólkurkýr, auk uppeldis gripa. Rafn hefur setið í stjórn frá 2018.  

 

 

Bessi Freyr Vésteinsson
Hofsstaðaseli

Bessi er bóndi og verktaki í Hofsstaðaseli Skagafirði. Hann er giftur Sólrúnu Ingvadóttir og eiga þau 3 uppkomin börn. Bessi hefur verið við búskap sl. 32 ár og í sérhæfðri nautakjötsframleiðslu sl. 11 ár. Um 250  holdanautakýr eru á búinu auk tilheyrandi gripa í uppeldi. Auk þess á Bessi og rekur fyrirtækið Sel ehf. sem þjónustar fjölda bænda um alla verkþætti sem unnið er með vélum í landbúnaði. Bessi hefur setið í stjórn frá 2016.

 

Vaka Sigurðardóttir
Dagverðareyri

Vaka er bóndi á Dagverðareyri við Eyjafjörð. Hún er gift Haraldi Jónssyni og eiga þau fjóra syni. Vaka er menntaður búfræðingur frá Hvanneyri og stúdent frá Fjölbrautaskólanum á Selfossi. Vaka hafði ásamt manni sínum starfað við landbúnað bæði norðan heiða og á suðurlandi áður en þau festu kaup á Brattavöllum á Árskógsströnd árið 2001, þar sem þau voru með 50 kýr og allt sem þeim tilheyrir. Þau keyptu svo Dagverðareyri árið 2013 og búa þar með 80 árskýr, auk gripa í uppeldi. Vaka er formaður Félags eyfirskra kúabænda og hefur setið í stjórn síðan 2020.

 

Sigurbjörg Ottesen
Hjarðarfelli

Sigurbjörg er bóndi á Hjarðarfelli í Eyja- og Miklaholtshrepp á Snæfellsnesi. Hún er gift Gunnari Guðbjartssyni og á hún þrjár dætur. Sigurbjörg og Gunnar reka Hjarðarfellsbúið sf. og eru í mjólkur- og nautakjötsframleiðslu. Á Hjarðarfelli eru að jafnaði mjólkaðar um 45 kýr, ásamt tilheyrandi fjölda gripa í uppeldi.  Sigurbjörg er fædd og uppalin í landbúnaði, er búfræðingur frá Hvanneyri, ásamt því að vera menntuð sjúkraliði. Árið 2018 keypti hún tengdaforeldra sína út úr Hjarðarfellsbúinu sf., eftir að hafa starfað við búið í nokkur ár. Sigurbjörg hefur setið í stjórn síðan 2020 en er í fæðingarorlofi frá stjórnarstörfum til 1. júní.