Sterk staða nýsjálenska dollarsins veldur vanda
03.06.2011
Afar sterk staða nýsjálenska dollarsins nú um stundir er farin að valda þarlendum bændum vanda og koma niður á samkeppnishæfni helstu útflutningsgreina. Undanfarin ár hefur nýsjálenskur landbúnaður, með mjólkurafurðafyrirtækið Fonterra í broddi fylkingar, unnið mikla sigra á alþjóðlegum mörkuðum en nú er þeim vandi á höndum. Samkvæmt mati Alþjóða gjaldeyrissjóðsins er verðlag á búvörum frá Nýja-Sjálandi nærri 20% yfirverðlagðar vegna hinnar sterku stöðu gjaldmiðilsins og opnar það fyrir tækifæri í öðrum löndum.
Vegna þessarar stöðu eru stórar innkaupakeðjur nú þegar byrjaðar að skoða aðra innkaupamöguleika og sést það á sölutölum landbúnaðarafurðafyrirtækja bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Sem dæmi um þetta má nefna að útflutningur Nýja-Sjálands á osti fyrstu þrjá mánuði ársins var 26% minni en árið 2010, en skýringin felst að líkindum fyrst og fremst í mun hærra verði ostanna eða sem nemur um 10,5% yfir meðalverði á Bandarískum ostum. Á sama tíma stefnir í metframleiðslu í Bandaríkjunum á bæði osti og smjöri þessa mánuðina sem mun vafalítið gera þeirra stöðu enn sterkari gagnvart Fonterra, sem er aðalsöluaðili mjólkurafurða frá Nýja-Sjálandi/SS.