Slá ástralskir bændur met í sáningu?
23.04.2011
Hátt verð á korni og gott útlit með verðþróun á næstu misserum hefur nú leitt af sér metsáningu á hveiti í Ástralíu. Þannig lítur út fyrir að alls hafi verið sáð í heila 13,8 milljón hektara þar í landi en það sem er þó all merkilegt við þessa háu tölu er að það er ekki einungis verðið sem dregur bændurna áfram heldur einnig mikil úrkoma! Vegna mikilla rigninga undanfarin tvö ár hafa ástralskir bændur lent í miklum hremmingum og tapað þónokkru magni af korni vegna flóða. Vegna þessa er nú sáð í mun fleiri hektara en áður og bændurnir hreinlega búnir undir það að einhverjir hektarar tapist vegna úrkomu, þ.e. ef úrkoman verður áþekk því sem hefur verið síðustu tvö ár.
Þeir bændur sem ekki hafa fullnýtt akra sína með hveitisáningu hafa flestir valið maís sem valkost, en kosturinn við maís er að hann er með afar stuttan vaxtartíma og fellur maísframleiðsla því vel að breytilegu veðurfari sem virðist vera orðin staðreynd þarna suðurfrá. /SS