
Samkomulag um notkun á gæðamerkinu Certified Iceland
20.02.2023
Í dag var undirritað samkomulag á milli Icelandic Trademark Holding og Bændasamtakanna um notkun ábyrgðar- og gæðamerkisins CERTIFIED ICELANDIC. Ábyrgðar- og gæðamerkið er enska skráningin af Íslenskt staðfest, sem er í eigu Bændasamtaka Íslands. Heimilt er nú að nota merkið á ýmsar vörur og þjónustu til útflutnings, þ. á m. hráar og óunnar vörur landbúnaðar, lagareldis, garðræktar og skógræktarafurðir, vatn og bjór. Samkomulaginu er einnig ætlað að stuðla að samvinnu beggja aðila við að auka veg og virðingu íslenskra afurða til frambúðar enda líta aðilar svo á að í jafn fámennu landi og Ísland er, sé afar mikilvægt að hið opinbera, félagasamtök og fyrirtæki stilli saman strengi og sendi út sömu skilaboðin þegar kemur að útflutningi íslenskra afurða og þjónustu.
Vigdís Hasler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna og Sigríður Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Trademark Holding, skrifuðu undir samkomulagið í dag.