Beint í efni

Sameining afurðastöðva hefur skilað 1,8 milljarða sparnaði á ári!

11.04.2011

Aðalfundur Auðhumlu var haldinn sl. föstudag og var full mæting fulltrúa, en alls eru kjörnir 59 fulltrúar. Þá sátu fundinn einnig hluti starfsmanna auk gesta. Að sögn Egils Sigurðssonar, stjórnarformanns Auðhumlu, urðu miklar umræður á fundinum um reksturinn og þann árangur sem endurskipulagning fyrirtækisins og sameining vinnslustöðva er að skila í bætri afkomu og lýstu fundarmen ánægju með það.

 

„Umtalsverður rekstrabati varð á milli ára en afkoma breyttist úr 624 milljóna tapi árið 2009 í 142 milljóna hagnað fyrir skatta árið 2010, sem er bati á milli ára uppá 766 milljónir fyrir skatta. Á ársgrunni er sú hagræðing 1.800 milljónir sem tekist hefur að lækka kostnað í  iðnaðinum á umliðnum árum“, sagði Egill í viðtali við naut.is. Á fundinum var einnig töluvert rætt um um stöðu búvörulaga og meðferð umframmjólkur og þá ógn sem  það gæti skapað bændum ef  af brotum  búvörulögum verði látin óáreitt.

 

Á fundinum var lögð fram tillaga að breytingum á samþykktum Auðhumlu, þess eðlis að stjórnarmönnum yrði fækkað úr 7 í 5 en tillagan var felld með miklum mun og greiddu aðeins tveir fulltrúar tillögunni  atkvæði. Það kom fram að en væri full þörf á að hafa 7 manna stjórn til að tryggja tengingu við félagsmenn og að fleiri sjónarmið kæmust að.

 

Stjórn Auðhumlu var endurkjörin með frá 39 atkvæðum upp í 56 atkvæðum pr. mann, þannig að stjórnin fékk góðan stuðning. Stjórn hefur skipt með sér verkum og er Egill Sigurðsson áfram formaður, Erlingur Teitsson varaformaður og Guðrún Sigurjónsdóttir ritari. Aðrir stjórnarmenn eru Arnar Bjarni  Eiríksson, Birna Þorsteinsdóttir, Jóhannes Ævar Jónsson og Jóhannes Torfason. Varastjórn (í röð) eru: 1. Stefán Magnússon 2. Björn Harðarson 3. Pétur Diðriksson.

 

Tvö erindi voru flutt á fundinum Sigurður Loftsson formaður LK fór yfir stefnumörkun  LK er snýr að mjólkuriðnaðinum og ytra umhverfi greinarinnar og Haraldur Benediktsson formaður BÍ fór yfir samningsafstöðu Bændasamtakanna vegna Evrópusambandsumsóknar. /SS