
SAM: 5,3% minni innvigtun í júlí en í fyrra
18.08.2020
Samkvæmt nýju yfirliti Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM), sem nær yfir tímabilið frá byrjun ágúst í fyrra til lok júlí í ár, var innvigtun mjólkur fyrstu sjö mánuði þessa árs 93,5 milljónir lítra en á sama tíma í fyrra nam innvigtunin 91,6 milljónum lítra. Munurinn nemur alls 1,9 milljónum lítra eða 2,1%. Innvigtun hvers mánaðar á þessu ári hefur verið nokkuð rokkandi í samanburði við árið 2019 en af fyrstu 7 mánuðum ársins hefur innvigtun verið meiri fjóra mánuði en árið áður og í 3 mánuði minni. Í júlí nam innvigtunin 13,2 milljón lítrum en í fyrra nam hún 13,9 milljón lítrum. Munurinn er 5,3%.
Í yfirlitinu kemur einnig fram að sala á fitugrunni nam 145,9 milljónum lítra sem er lækkun á 12 mánaða tímabili um 0,2%. Er þetta í fyrsta sinn í langan tíma sem sala á fitugrunni dregst saman, þó lítið sé. Enn gengur ekki nógu vel með sölu á próteininu en þar hefur verið neikvæð söluþróun í þónokkurn tíma. Á 12 mánaða tímabili nam salan á próteingrunni ekki nema 123,7 milljónum lítra, sem er samdráttur um heil 3,2% á 12 mánaða tímabili. Munurinn á sölu á prótein- og fitugrunni er því kominn í 22,2 milljónir lítra.