Beint í efni

Sænskir kúabændur með smávinnslur

17.10.2015

Það hefur vart farið fram hjá neinum lesanda naut.is að staða sænskra kúabænda er einkar erfið nú um stundir og hafa margir brugðið búi undanfara mánuði. Skýringin felst fyrst og fremst í óhagkvæmni í rekstri búanna en afurðaverðið er lágt og búin of lítil til þess að geta framleitt mjólk með hagkvæmum hætti. Þá er opinber stuðningur lítill en þó gerðar miklar opinberar kröfur til sænskra kúabúa, meiri en til margra annarra kúabúa innan Evrópusambandsins. Allt þetta hefur jafnt og þétt þrengt að þarlendum kúabændum og nú heltast margir hratt úr lestinni, sér í lagi þeir sem eru skuldlitlir og geta stigið frá borði án þess að fara í gjaldþrot.

 

Þrátt fyrir framannefnt eru ljós í myrkrinu fyrir sænska kúabændur og við sögðum frá því daginn að lífræn sala hefur stóraukist í Svíþjóð með tilheyrandi tækifærum fyrir kúabúin. Þá hafa margir bændur tekið upp á því að hefja sölu beint frá býli og enn aðrir hafa farið þá leið að hefja fullnaðarvinnslu mjólkurafurða heima á búum sínum til þess að styrkja tekjugrunn búanna. Eiginlega má tala um að um hreina byltingu sé að ræða í því sambandi, enda hefur búum með heimavinnslu mjólkurafurða fjölgað um 50 síðustu tvö árin og er heildarfjöldi slíkra vinnslubúa nú 124 í landinu öllu. Eins og við er að búast vinna þessi bú afar fjölbreyttar mjólkurvörur og hafa stóraukið úrvalið á hinum sænska markaði. Hægt er að fræðast nánar um þessa áhugaverðu leið sænsku bændanna á heimasíðu félags sænskra bænda í heimavinnslu mjólkurafurða með því að smella hér á hlekkinn: www.sverigesgardsmejerister.se /SS.