Beint í efni

Ræða Þórólfs Sveinssonar formanns LK á aðalfundi 2007

13.04.2007

 Ég vísa til framlagðra gagna um störf Landssambands kúabænda frá síðasta aðalfundi. Skýrsla um störf stjórnar og framkvæmdastjóra hefur verið send til fulltrúa, sem og samantekt um störf fagráðs í nautgriparækt. Þá koma ýmsar upplýsingar fram á haustfundum Landssambands kúabænda og á heimasíðu samtakanna, þannig að vel má vera að ekki rati í prentaða skýrslu nákvæm frásögn af öllu sem gerist.

Afurðasala gekk með ágætum á liðnu starfsári. Gildir þar einu hvort horft er til mjólkur- og mjólkurafurða, eða nautakjöts. Til viðbótar við gott gengi á innlendum markaði eru góðar horfur á því að útflutningur mjólkurafurða skili nálægt því lágmarksverði fyrir þá mjólk sem unnin er í vörur fyrir erlendan markað. Það er vissulega margt óunnið varðandi útflutninginn, en ef væntingar um magn og verð ganga eftir, þá eru þessir útflutningsmöguleikar ein stærsta breytingin sem orðið hefur á starfsskilyrðum mjólkurframleiðslunnar í mörg ár. Rétt er þó að undirstrika að þessir útflutningsmarkaðir standa ekki einir og sér undir okkar kostnaðarverði, en þeir eru frábær viðbót við íslenska markaðinn.
 Nú skiptir afar miklu að mjólkurframleiðendur viti sem allra fyrst við hverju þeir mega búast á næsta verðlagsári að þessu leyti.
 Til viðbótar því nautakjöti sem íslenskir kúabændur framleiddu fyrir íslenska neytendur voru flutt inn um 550 tonn af nautakjöti. Þetta er að sjálfsögðu beinlaus vara, líklega ígildi um þúsund tonna nautakjöts í heilum skrokkum.  

Afkoma kúabænda  árið 2005 var viðunandi, þó svo launagreiðslugeta lækkaði um 2,4 %.
Fjármagnsliðir hækkuðu verulega, eða  um 24 –  30 % eftir úrtaki.
Fjárfestingar á bú fóru úr 5,3 milljónum í 7,2 milljónir, sem er auking um 34 %. Skuldir alls hækkuðu um 23 %.
Fjárfestingar greinast þannig vegna ársins 2005:        
Vélar og tæki           3.458.000    eða 48 %
Jörð                               67.000    eða 1  %
Byggingar                    900.000   eða 13 %
Greiðslumark            2.732.000   eða 38 %

Ætla má, byggt á upplýsingum Hagþjónustunnar ofl., að heildarskuldir kúabænda hafi verið um 25 milljarðar í lok ágúst 2006. Sé horft til skiptingar fjárfestinga sl. 8 ár, er líklegt að 7 til 8 milljarðar séu vegna kaupa á greiðslumarki sl. 7 ár. Fjárfesting í greiðslumarki er liðlega 30 % af öllum fjárfestingum á kúabúum árin 1998 til 2005. Hver og einn verður að meta hvort það er eðlilegt hlutfall fjárfestinga.
 Árið 2005 voru fjármagnsliðir í fyrsta skipti hærri en launagreiðslugeta. Þetta er að sjálfsögðu áminning um það hvað atvinnugreinin er háð fjármagni og viðkvæm fyrir breytingu á vaxtakjörum. Breyting á vaxtastigi um eitt prósentustig, er að meðaltali á þriðju krónu í hvern innveginn lítra.

Umræðan um matarverðið – fyrsti hluti
 Það lá fyrir þegar síðasti aðalfundur var haldinn, að þáverandi forsætisráðherra hafði skipað nefnd til að greina ástæður hás matvælaverðs á Íslandi og gera tillögur til úrbóta. Nefndin komst ekki að niðurstöðu en formaður hennar, Hallgrímur Snorrason, skilaði skýrslu um starfið. Þar segir um skýrsluna   ,,Sú skýrsla sem hér birtist, er því skýrsla formanns nefndarinnar um störf hennar, þær leiðir til lækkunar matvælaverðs sem nefndin hefur rætt, álitamál og ágreiningsefni svo og niðurstöður útreikninga og áætlana“.  Mikil viðbrögð urðu við skýrslu þessari, og má fullyrða að aldrei hafi árangurslaust nefndastarf haft jafn mikil áhrif.
Eftir að Hallgrímur skilaði skýrslu sinni, hófust líflegar umræður um matvælaverð á Íslandi og þátt innflutningstolla á búvörum í verðinu. Umræðan var óvægin og fullyrðingasöm í meira lagi. Þannig gleymdist alveg sú staðreynd að mjólkurframleiðsla byggir annars vegar á flóknum líffræðilegum ferlum við framleiðsluna sjálfa og úrvinnslu afurðanna, og hins vegar á hagfræðilegum forsendum. Umræðan var einvörðungu um  hagfræðilegar forsendur, en þó ekki vandaðri en svo að enn er ósvarað mörgum grundvallarspurningum um það efni. Sem dæmi þar um má nefna;
• Í skýrslu Hallgríms Snorrasonar er áætlað að fullt afnám tollverndar leiði af sér minnkandi greiðslur frá markaðnum fyrir búvörur um 7,6 milljarða á meðalverðlagi 2005, (afleiddum áhrifum sleppt).  Þessi tala hefur mikla þýðingu fyrir alla umræðu um tollana og því er spurt, hversu trúverðug eða sennileg er þessi tala ?
• Hverjar eru líklegar afleiðingar þess að lækka eða fella niður tolla innfluttum búvörum ?  Meta þarf áhrifin sundurliðað eftir búgreinum og afleidd áhrif. Þetta er grundvallaratriði sem verður að leyta svara við því það er augljóst að ef fyrrnefnt mat Hallgríms Snorrasonar  í skýrslu hans er rétt, hefur breyting af þessu tagi stórfelld áhrif. (Benda má á skýrslu vinnuhóps á utanríkisráðuneytisins frá því 2003 en skýrsla heitir ,,Íslenskur landbúnaður í alþjóðlegu umhverfi“.)
• Það sjónarmið hefur komið fram að hægt sé að bæta bændum tekjumissi og eignaskerðingu með auknum stuðningi. Þetta þarf að ræða og þá vaknar spurningin  ,,Hvaða svigrúm hafa íslensk stjórnvöld gagnvart alþjóðasamningum til að auka framleiðslutengdar beingreiðslur til framleiðenda í einstökum búgreinum ef innflutningstollum yrði breytt ?“  Um þetta urðu nokkrar umræður í venjulegum íslenskum fullyrðingastíl og enginn nokkru nær um niðurstöðuna.
• Fyrir liggur að allt er í uppnámi með nýja WTO-samninga og einnig er ljóst að Ísland er ekki eina landið í heiminum með hátt verðlag. ,,Hver eru viðbrögð í öðrum velmegunarlöndum þar sem matvælaverð og annað vöruverð er hátt ? Er hliðstæð umræða í gangi þar ? “
• Ef þörfum íslendinga fyrir búvörur yrði að umtalsverðu leyti sinnt með innflutningi, hvaðan er þá líklegt að þær búvörur yrðu fluttar ?
Snemma í þessari umræðu komu fram sjálfskipaðir sérfræðingar sem töldu augljóst að út frá reynslu Nýsjálendinga væri hægt að fella hér niður verndartolla án þess að það hefði nokkur marktæk áhrif á íslenskan landbúnað. Skipti þá engu máli þótt engin lönd með líkar náttúrulegar aðstæður og Ísland, hafi reynt að fara það sem kallað hefur verið ,,Nýsjálensku leiðina“.  Líklega voru þessar fullyrðingar um hvað hefði gerst á Nýja-Sjálandi og hvaða lærdóm mætti draga af því hér, átakanlegasta vitleysan sem fram kom í þessari umræðu. Það er ástæða til að þakka Bændasamtökum Íslands fyrir forgöngu um að fá fyrrverandi framkvæmdastjóra Landssambands kúabænda og núverandi bankastjóra á Nýja-Sjálandi, Valdimar Einarsson, til að koma og greina frá hvað gerðist þar suður frá í raun og veru. Hins vegar er þetta mál glöggt dæmi um hversu fráleit íslenska umræðan getur verið og það er mjög alvarlegt. Það er ekki síst alvarlegt vegna þess að á grundvelli rangra fullyrðinga er síðan reynt að telja fólki trú um að það sé  ,,allt í lagi fyrir landbúnaðinn“ að umræddir verndartollar séu felldir niður. Þetta ,,allt í lagi“ sjónarmið er líklega ein alvarlegasta hættan sem steðjar að íslenskum landbúnaði í dag, því eins og síðar verður vikið að, þá vilja íslendingar nú yfirleitt hafa íslenskan landbúnað og atvinnugreinin nýtur mikils velvilja.
 Það má svo bæta því við að enn heyrist öðru hvoru að íslenskir verndartollar séu sérlega andsnúnir hagsmunum íbúa þróunarlandanna. Þetta er álíka vitlaust og kenningin um Nýja-Sjáland því leitun er á hagkerfi með jafn opinn aðgang fyrir framleiðsluvörur þessarra landa, hrísgrjón, kakó, sykur, kaffi, te og svo mætti áfram telja. Það hefur hins vegar ekki komið neinn Valdimar að leiðrétta þetta.


Umræðan um matarverðið – aðgerðir ríkisstjórnarinnar
Hinn 9. október 2006, birti ríkisstjórnin tillögur sínar um aðgerðir til að lækka matvælaverð o.fl.  Tillögurnar voru eftirfarandi:

1. Vörugjöld af innlendum og innfluttum matvælum, öðrum en sykri og sætindum, verða felld niður að fullu 1. mars 2007.
2. Virðisaukaskattur af matvælum verður lækkaður úr 14% í 7% frá 1. mars 2007.
3. Virðisaukaskattur af annarri þjónustu og vörum í 14% þrepi (bækur, tímarit, blöð, húshitun, hótelgisting) verður lækkaður í 7%.
4. Virðisaukaskattur af öðrum matvælum sem hefur verið 24,5% verður lækkaður í 7% frá sama tíma.
5. Virðisaukaskattur af veitingaþjónustu verður lækkaður úr 24,5% í 7% frá sama tíma.
6. Almennir tollar á innfluttum kjötvörum úr 2. kafla tollskrár verða lækkaðir um allt að 40% frá 1. mars 2007. Samhliða þessu verður áfram unnið að frekari gagnkvæmum tollalækkunum og bættum markaðsaðgangi gagnvart helstu viðskiptalöndum Íslands í milliríkjasamningum sem tryggja jafnframt útflutningshagsmuni íslensks atvinnulífs.
7. Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði hafa ákveðið raunlækkun á heildsöluverði mjólkurvara á næstu 12 mánuðum sem verði náð með óbreyttu verði á þessum tíma, hinu sama og ákveðið var af verðlagsnefnd búvöru þann 1. janúar 2006.
8. Áætlað er að þessar aðgerðir geti leitt til tæplega 16% lækkunar matvælaverðs og 2,3% lækkunar neysluverðsvísitölu á næsta ári. Auk þess mun ákvörðun um að lækka virðisaukaskatt á öðrum vörum og þjónustu úr 14% í 7% (bækur, hótelgisting, húshitun o.fl.) leiða til um 0,4% lækkunar í viðbót þannig að heildaráhrif þessara aðgerða eru metin til 2,7% lækkunar neysluverðsvísitölu á næsta ári. Kaupmáttur heimilanna eykst að sama skapi. Áhrif þessara aðgerða á afkomu ríkissjóðs eru metin á um 7 milljarða króna m.v. heilt ár og tæplega 6 milljarða árið 2007.
9. Með þessari lækkun væri matvælaverð á Íslandi orðið sambærilegt við meðalverð á matvælum á Norðurlöndunum miðað við upplýsingar um matvælaverð frá Evrópsku hagstofunni (Eurostat).
10. Verðlagseftirlit almennings er mjög mikilvægt til að tryggja framgang þeirra kjarabóta sem ríkisstjórnin hefur nú ákveðið. Miklu skiptir að ekki verði hækkanir á almennu matvöruverði á næstu mánuðum þangað til ákvarðanir ríkisstjórnarinnar koma til framkvæmda. Viðskiptaráðherra mun af því tilefni mælast til þess við Neytendastofu og verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands að fylgjast mjög náið með verðlagi í smásöluverslunum á næstu mánuðum og misserum. Sömuleiðis mun viðskiptaráðherra mælast til þess við Samkeppniseftirlitið að það fylgist vel með þróun samkeppnisaðstæðna á smásölumarkaði með matvöru.

 Fjármálaráðherra lagði síðan frumvarp fyrir Alþingi í samræmi við framangreind markmið. Einhverjar breytingar munu hafa orðið á frumvarpinu í meðförum Efnahags- og viðskiptanefndar þingsins en Alþingi samþykkti síðan lagabreytingar þann 9. desember 2006.

 Áður en þessi yfirlýsing var birt, hafði málið verið unnið af ráðuneytum fjármála, forsætis, iðnaðar-og viðskipta, og landbúnaðar, líklega frá því í ágúst. Einstaklingar frá Bændasamtökum  Íslands og Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði höfðu verið kallaðir til fundar um mögulegar leiðir og mögulega þátttöku landbúnaðarins í umræddum aðgerðum. Síðan er það á fundi 3. október sem það er formlega staðfest að fara eigi ,,blandaða leið“ til að ná niður matarverði.
 Á þessum fundi var það einnig staðfest að sú hugmynd væri til umræðu að SAM fyrir hönd mjólkuriðnaðarins og LK fyrir hönd kúabænda, gefi yfirlýsingu um óbreytt verð mjólkur og mjólkurvara út árið 2007, í trausti þess að tollar á mjólk og mjólkurvörum haldist óbreyttir til ca. 2012.

 Umræðan um matarverðið – aðkoma LK
 Þegar það lá nú fyrir hvaða hugmyndir væru uppi um aðkomu kúabænda að aðgerðum til að lækka matvælaverð, ákvað stjórn Landssambands kúabænda að halda þrjá fundi með trúnaðarmönnum. Á þessa fundi mættu ríflega sjötíu trúnaðarmenn Landssambands kúabænda. Þar var farið yfir stöðuna og ráðgast um hvað gera skyldi. Mjög knappur tími var til að boða þessa fundi og vil ég þakka sérstaklega öllu því góða fólki sem lagði á sig að koma, margt um langan veg. Það var ómetanlegt fyrir stjórnina að fá veganesti með þessum hætti, en ábyrgðin á því sem gert var í framhaldinu var eigi að síður stjórnarinnar einnar. Strax að loknum þessum fundum samþykkti stjórnin eftirfarandi yfirlýsingu:

Stjórn Landssambands kúabænda hefur haft til athugunar þá hugmynd að kúabændur taki á sig kostnað í tengslum við aðgerðir stjórnvalda til lækkunar matvælaverðs. Málið bar brátt að, en hefur verið kynnt fyrir trúnaðarmannahópi Landssambands kúabænda. Niðurstaða stjórnar LK er eftirfarandi yfirlýsing:

 Landssamband kúabænda er tilbúið að taka þátt í samræmdum aðgerðum til lækkunar á matvælaverði, en í þeim aðgerðum felst m.a. lækkun virðisaukaskatts á íslenskar búvörur. Í þessu skyni mun Landssamband kúabænda fallast á nokkra raunlækkun á lágmarksverði fyrir mjólk til framleiðenda á árinu 2007, eftir því sem um kann að semjast, sjá lið 2 hér eftir.

Forsendur þessa eru:
1. Að stjórnvöld raski ekki, með neikvæðum hætti,  starfs- og samkeppnisumhverfi íslenskrar mjólkurframleiðslu og mjólkurvinnslu með opinberum ákvörðunum umfram það sem milliríkja- og alþjóðlegir samningar leiða af sér fram til 31. ágúst 2012. Enda er það forsenda áframhaldandi hagræðingar í framleiðslu mjólkur og vinnslu mjólkurvara.
2. Að stjórnvöld gangi til samninga við Landssamband kúabænda um hvernig verði hraðast unnið að lækkun á framleiðslukostnaði mjólkur.


Greinargerð:
  Það er mat stjórnar Landssambands kúabænda að hár framleiðslukostnaður sé meginvandi íslenskrar mjólkurframleiðslu. Lækkun hans er forsenda þess að hægt sé að lækka verð á mjólk til bænda. Ef mjólkurverðið lækkar að óbreyttum kostnaði kemur það óhjákvæmilega fram sem skerðing á launum kúabænda.
  Stjórnin vekur sérstaka athygli á því að fyrir áratug var ljóst að ef mjólkurframleiðslan ætti að geta þróast eðlilega þyrfti að eiga sér stað veruleg fjárfesting í fjósum og öðrum búnaði tengdum framleiðslunni. Kúabændur hafa unnið stórvirki í þessu efni á síðustu árum og endurnýjað eða byggt frá grunni fjölda fjósa með tilheyrandi vélbúnaði. Þetta hefur leitt til verulegrar skuldasöfnunar en talið er að heildarskuldir kúabænda séu nú um 25 milljarðar. Það er því ljóst að fjölmörg kúabú eru þannig stödd eftir mikla uppbyggingu að þau þola ekki tekjuskerðingu. Framtíð mjólkurframleiðslu á Íslandi er í verulegri hættu ef þessi bú hætta starfsemi.
  Í núgildandi samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar sem undirritaður var í maí 2004, var gengið út frá því að ákveðin framleiðniaukning yrði í mjólkurframleiðslunni. Ríkissjóður nýtur þess með því að stuðningur við greinina er skertur á samningstímanum um ca. einn milljarð. Þetta skerðir enn svigrúm bænda til að taka á sig lækkun á afurðaverði. Þá er áformað að draga úr þeim hluta stuðningsins sem fer beint til lækkunar mjólkurverðs og greiða þann hluta sem grænar greiðslur sem dregur úr nytsemi greiðslnanna fyrir framleiðendur og neytendur.
  Með hliðsjón af framansögðu skiptir öllu máli að ná niður framleiðslukostnaði með
öllum tiltækum ráðum án þess að fórna hreinleika og heilbrigði afurðanna.

Yfirlýsing LK var tilbúin á föstudagskvöldi. Síðan var fundur með lykilmönnum SAM á laugardegi og þá varð ljóst að yfirlýsingarnar yrðu tvær. Það er misskilningur að ágreiningur hafi verið milli LK og SAM í þessu máli. Það var nokkur áherslumunur, en fullur skilningur  á þeim miklu sameiginlegum hagsmunum sem í því fólust að halda tollverndinni á mjólkurvörunum óbreyttum. Það er líka misskilningur að við, LK og SAM, höfum átt mikla valkosti í stöðunni. Ef komast átti hjá tollalækkunum, varð að tryggja óbreytt verð mjólkurvara út árið 2007.

Umræðan um matarverðið – áhrif aðgerðanna fyrir kúabændur núna Það er að sjálfsögðu ljóst að matvælaverð verður ekki lækkað án þess að einhver fái minna í sinn hlut. Að langmestu leyti er lækkun matvælaverðs  á kostnað ríkissjóðs. En það eru einnig fluttir fjármunir frá mjólkuriðnaði og mjólkurframleiðendum, til neytenda. Ætla má að meðalkúabú verði fyrir tekjuskerðingu sem nemur 300 þúsundum, eða sem næst 2 % af veltu. Hins vegar ber að hafa í huga að tollar á mjólkurvörum eru óbreyttir.  Þetta er afar mikilvægt því mjólkurvörur eru líklega viðkvæmari en nokkrar aðrar búvörur gagnvart tollalækkunum. Áhrif tollalækkana á nautakjötið eru ekki að fullu ljós, en eru líklega  meiri en gert var ráð fyrir í upphafi.

Umræðan um matarverðið – áhrif aðgerðanna fyrir kúabændur síðar
Stefnumörkunin sem felst í aðgerðum ríkisstjórnarinnar er mun mikilvægari fyrir kúabændur en áhrif aðgerða sem þegar hefur verið gripið til. Það hníga öll rök til þeirrar niðurstöðu að hér sé um að ræða upphaf á ferli en ekki einangraða aðgerð. Í því sambandi skal bent á eftirfarandi:
• Í tillögum ríkisstjórnarinnar segir ,,Með þessari lækkun væri matvælaverð á Íslandi orðið sambærilegt við meðalverð á matvælum á Norðurlöndunum miðað við upplýsingar um matvælaverð frá Evrópsku hagstofunni (Eurostat)“.  Þetta er til framtíðar mikilvægasta atriðið í tillögunum og hér er komin ný undirstaða íslenskrar landbúnaðarstefnu. Ef þessari stefnu verður fylgt eftir, verður íslenskur landbúnaður háður framleiðniaukningu viðmiðunarlandanna á komandi árum.
• Samkvæmt Verðlagsgrundvelli kúabús kostar nærri 99 krónur að framleiða hvern mjólkurlítra. Niðurstöður búreikninga styðja þessa niðurstöðu. Það er hins vegar ekki greitt svona mikið fyrir lítrann. Líklega er það 2,5 til 3 sinnum meira en kostar að framleiða mjólk í Danmörku, en álíka og í Noregi.
• Íslenskar mjólkurvörur eru góðar og hreinar. Það er hins vegar rangt að við getum haldið öllum íslenska mjólkurvörumarkaðnum á þeim forsendum einum ef við lendum í vaxandi samkeppni á komandi árum. Það bendir því allt til þess að á næstu árum verði þrýst á um lækkað mjólkurverð en  málið verður ekki leyst með því að lækkka laun kúabænda.
• Það er róttæk fullyrðing, en ekki verður annað séð en umtalsverð lækkun á framleiðslukostnaði mjólkur á næstu árum, sé forsenda þess að halda íslenska mjólkurvörumarkaðnum. Takist það ekki, muni hluti mjólkurframleiðslunnar óhjákvæmilega flytjast úr landi.

 

Á að leggja af heildsöluverðlagningu mjólkur ?
 Þeirri spurningu hefur nokkuð verið velt upp hvort tímabært sé að ræða endalok opinberrar verðlagningar mjólkur á heildsölustigi. Ekki verður hjá því komist að rifja upp fremur óvenjulegan aðdraganda þess að umrædd verðlagning er enn í gildi. Er í því efni best að vitna í skýrslu nefndar sem skilaði af sér í febrúar 2004, gjarnan talað um skýrslu mjólkurhópsins. Þar segir m.a að í  samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 1997, séu ákvæði um afurðaverð þar sem segi:
“Verðlagsnefnd skal strax við upphaf starfs síns hefja aðlögun heildsöluverðs einstakra vörutegunda að breyttu rekstrarumhverfi og viðskiptaháttum.  Slíkri aðlögun einstakra vörutegunda skal lokið eigi síðar en 30. júní 2001, en þá skal Verðlagsnefnd hætta verðlagningu mjólkur og mjólkurvara í heildsölu.” 
Síðan er rakið hvernig réttaróvissa ríki um það lagaumhverfi sem mjólkuriðnaður muni starfa í ef opinber verðlagning fellur niður, að öðrum lögum óbreyttum.
Í niðurstöðum nefndarinnar segir:
,,Nefndin skilar starfi sínu við þær aðstæður að vegna réttaróvissu (sjá kafla 3.2.1) hefur ekki verið fært að leggja af opinbera verðlagningu á mjólk og mjólkurafurðum á heildsölustigi eins og stefnt hefur verið að.  Nefndin telur að áfram beri að stefna að þessu markmiði, en slíkt er m.a. mikilvægur liður í þeirri aðlögun sem nauðsynleg er vegna þeirra skuldbindinga sem yfirstandandi WTO-samningar boða.  Nefndin leggur þó áherslu á að óskynsamlegt væri að afnema opinbera verðlagningu við þau skilyrði sem nú ríkja, enda ljóst að það starfsumhverfi sem samningsaðilar gengu út frá að yrði raunin eftir afnám opinberrar verðlagningar verður ekki tryggt nema með lagabreytingum.  Áframhaldandi stöðugleiki og fyrirsjáanleiki er nauðsynlegur á þeirri þróunarbraut sem mjólkurframleiðsla og –vinnsla hefur verið á undanfarin ár og verður að gæta þess að fórna ekki hagræðingarmöguleikum í skipulagi greinarinnar í vaxandi samkeppni við erlendar búvörur.  Ennfremur telur nefndin brýnt að í nýjum mjólkursamningi verði mótuð skýr aðhaldsskilyrði fyrir frjálsa verðlagningu, t.a.m. í krafti hagræðingarkröfu á vinnslustöðvar og/eða í gegnum lækkun innflutningstolla og aukningu tollkvóta, en þessi skilyrði eru ekki fyrir hendi sem stendur vegna ákvæða gildandi mjólkursamnings.  Leggur nefndin til í því skyni að gildistími núgildandi mjólkursamnnings verði nýttur til að eyða réttaróvissunni og að nýr samningur kveði á um að eftirlit verði haft með verðlagningu mjólkurafurða og afkomu afurðastöðvanna með möguleikum á inngripum stjórnvalda til að knýja fram hagræðingu í mjólkuriðnaði og stuðla að eðlilegri verðþróun“.
 Þess skal einnig getið að fáum mánuðum síðar skiluðu Eiríkur Tómason prófessor og Árni Vilhjálmsson hrl., álitsgerð til landbúnaðarráðherra um samkeppnisuphverfi í landbúnaði og stöðu búvöruframleiðslu gagnvart samkeppnislögum. Hin pólitíska niðurstaða, og um hana var full sátt við Landssamband kúabænda, varð sú að ganga út frá því að heildsöluverðlagningin héldist áfram, en tilteknar breytingar voru gerðar 71. grein búvörulaganna. Þær breytingar gerðu samlögunum kleyft að sameinast og hafa með sér samvinnu. Það er því ekki alveg einfalt að fella niður umrædda heildsöluverðlagningu og áður en af því getur orðið þarf að hugleiða og helst finna svör við nokkrum grundvallarspurningum.
• Er löggjafinn tilbúinn að fella heildsöluverðlagninguna án annarra breytinga á starfsskilyrðum greinarinnar og þá hverra ?
• Hvernig verður tryggt að stuðningur ríkisins við mjólkurframleiðsluna skili sér til neytenda ?
• Hvernig verður hægt að tryggja hagmuni smærri aðila á smásölumarkaði ?
• Hvernig verður tryggt að mjólkurvörur séu á sama verði til neytenda alls staðar á landinu ?
Það er hins vegar alveg ljóst að munur á framlegð einstakra vörutegunda er óeðlilega mikill og óhjákvæmilegt að draga úr honum hið fyrsta. Stórir vöruflokkar eins og nýmjólk verða að standa undir sér, án tilfærslu fjármuna frá öðrum vörutegundum. Það voru hreinlega mistök hjá Verðlagsnefnd búvöru hvernig verðlagt var haustið 2005, þegar verðtilfærsla yfir á nýmjókina var enn aukin.
 Við þurfum svo á þessum fundi og þó væntanlega einkum á haustfundunum, að ræða hvað gera skal í haust. Hversu mikil hagræðing er í gangi heima á búunum ?  Hvað þolum við í verðlagsmálum ?

Skoðanakannanir
Á síðustu mánuðum hafa verið gerðar skoðanakannanir sem varpa ljósi á viðhorf almennings til landbúnaðar almennt, til mjólkurvaranna sérstaklega og til hugsanlegs innflutnings á nýju kúakyni.
 Í skoðanakönnun Bændasamtaka Íslands nú í vetur var m.a. spurt:  ,,Hversu sammála eða ósammála ert þú fullyrðingunni: Ég er tilbúin(n) að greiða hærra verð fyrir íslenskar en innfluttar landbúnaðarsvörur ?  Af svörum mátti ráða að um 38 % þeirra sem afstöðu tóku myndu láta verðið ráða vöruvali ef innfluttar búvörur stæðu til boða. Nú er það svo að hugtakið ,,íslenskar landbúnaðarvörur“ hefur ekki einsleita merkingu í hugum neytenda. Því vitum við ekki hvaða vörur það eru sem neytendur höfðu í huga þegar spurningunni var svarað.
 Í desember var gerð könnun á vegum Capacent Gallup þar sem spurt var um afstöðu til þess að kaupa erlenda mjólk ef hún stæði til boða og hugsanlegs innflutnings á nýju kúakyni. Mjög jákvæð afstaða kom fram gagnvart íslensku mjólkinni og þá um leið neikvæð gagnvart erlendri mjólk. Í þessari könnun voru 63 % þeirra sem afstöðu tóku andvíg innfluttningi nýs kúakyns.
 Í mars var síðan gerð önnur könnun og þá spurt aftur um afstöðu til innflutnings á nýju kúakyni, hvort viðkomandi finndist mikilvægt að hafa áfram aðgang að drykkjarmjólk úr núverandi kúakyni ef til innflutnings kæmi og um afstöðu til ostsins.  Í þessari könnun voru 54 % þeirra sem afstöðu tóku andvígir innflutningi nýs kúakyns, 77 % töldu mikilvægt að hafa áfram aðgang að drykkjarmjólkinni úr núverandi kúakyni, og 63 % töldu að þeir tækju íslenskan ost fram yfir innfluttan. Á milli þessara skoðanakannana höfðum við Baldur fylgst með viðræðum starfsmanns Capacent Gallup við einstaklinga í fjórum rýnihópum og voru spurningarnar í seinni könnuninni samdar með hliðsjón af því sem kom fram þar. Almennt er gott samræmi milli þess sem fram kemur í þessum könnunum og niðurstöðum rýnihópa, þó með einni undantekningu. Það er að afstaðan til innflutta ostsins er verulega önnur í skoðanakönnuninni en fram kom í rýnihópum. Í rýnihópum kom glöggt fram að íslenskur ostur væri frábær vara, en það kom ekki að hann yrði tekinn framyfir innfluttan ost með þeim hætti sem kemur fram í skoðanakönnuninni. Þarna er óvissuatriði sem þarf að skoða betur.
 Það var afar áhugavert og skemmtilegt að fylgjast með þessum umræðum í rýnihópunum. Þátttakendur voru gott þversnið af íslenskum neytendum, margar athugasemdirnar voru skemmtilegar og sumar kostulegar. Eins og fram kemur í textanum sem kynntur verður á eftir, var talsvert rætt um viðhorf til mjólkurframleiðslunnar almennt og afstöðu til hugsanlegs innflutnings á mjólkurvörum. Þátttakendum er almennt alls ekki sama um íslenska mjólkurframleiðslu, íslenska kúabóndann og íslensku kúna.  Í heild er viðhorfið til alls þessa mjög jákvætt og er það í góðu samræmi við niðurstöður úr könnunum sem Bændasamtök Íslands létu gera. Þetta jákvæða viðhorf til þess sem íslenskir kúabændur standa fyrir og eru að gera er dýrmætt og því ber að fagna. Hinu er ekki að leyna að margir telja eðlilega þróun að erlendar mjólkurvörur fáist hér í meira mæli en nú er.
 Við mat á niðurstöðum skoðanakannana er margs að gæta. Sérstaklega skal minnt á þá staðreynd sem oft gleymist að kaupendum mjólkurvara, og þá væntanlega flestra annarra búvara einnig, má skipta í þrjá flokka: Almennir neytendur, stórnotendur svo sem stóreldhús og mötuneyti, og síðan matvælafyrirtæki sem kaupa landbúnaðarhráefni til nota í sínar vinnsluvörur. Það gilda ekki endilega sömu lögmál hjá þessum kaupendum öllum og í rýnihópunum komu reyndar fram sterkar vísbendingar í þá átt. Að lokum er það svo ,,fjórða valdið“, það er smásöluverslunin sem hefur með verðlagningu og framsetningu ómæld áhrif á kauphegðun neytenda en þau áhrif er ógerlegt að vita fyrir eða kortleggja.

Íslenskur mjólkuriðnaður
 Á liðnu starfsári hafa gerst mikil tíðindi á málefnum íslensks mjólkuriðnaðar. Mjólkursamsalan ehf var stofnsett, en hún er rekstrarfélag Auðhumlu annars vegar og Kaupfélags Skagfirðinga hins vegar. Þar með er vinnsla og markaðsetning allra mjólkurvara, annarra en þeirra sem Mjólka ehf framleiðir og selur, komin á eina hendi. Við erum komin í sama skipulag og við sjáum t.d. á norðurlöndunum, eitt stórt framleiðendasamvinnufélag og þar hefur orðið raunin að upp rísa einkarekin samlög. Eitt slíkt, Mjólka ehf, hefur verið að bæta við sig innleggjendum og hyggur nú á fjárfestingu í nýju samlagi í Borgarnesi.

Önnur atriði
Þróunarfé nautgriparæktarinnar hefur skroppið saman, fyrst með því að hætt var að leggja fóðurtoll á hráefni til fóðurgerðar, og hins vegar með því ekki hafa skilað sér nema 20 milljónir af 35 í svokölluðu ,,Átaksverkefni í nautgriparækt“. Það er óbærileg staða ef jafn öflug búgrein og nautgriparæktin er, hefur ekki yfirráð yfir neinu fjármagni til að hvetja til góðra faglegra verkefna. Því er það nú í skoðun hvort samkomulag geti náðst milli Landssambands kúabænda annars vegar og SAM eða Mjólkursamsölunnar ehf hins vegar, um stofnun þróunarsjóðs. Gangi það ekki upp, verðum við að horfa til þess að hluti af ríkisstuðningnum gangi til þessa verkefnis. Við hefðum hins vegar helst kosið að næsta verðlagsár verði ráðstöfun opinbers stuðnings með sama hætti og er á þessu verðlagsári, eins og kemur fram í tillögu sem liggur fyrir fundinum.
 Kosning um deiliskipulag. Nú hefur það gerst að að fram hefur farið kosning um deiliskipulag í Hafnarfirði, sem snerist í raun um fyrirhugaðar framkvæmdir eins fyrirtækis. Það er áleitin spurning hvort þessi kosning er einstakur atburður, eða hvort kosningar af þessu tagi verða viðhafðar í meira mæli hér eftir. Landbúnaður er eðli málsins samkvæmt nokkuð landfrekur en bændur í mörgum/ flestum tilfellum í minnihluta í sínum sveitarfélögum, ekki síst vegna mikilla sameininga sveitarfélaga. Það er því full ástæða til þess fyrir okkur að fylgjast vel með hver þróunin verður á þessu sviði.
Umræða um verðtrygginguna.  Það er ekki nýtt að umræða sé um það hvort verðtrygging fjárskuldbindinga sé góð eða slæm. Í ljósi þess að stærstur hluti skulda kúabænda eru verðtryggð lán í íslenskum krónum og skuldirnar eru miklar, er rétt að hugleiða hvaða breytingar það hefði í för með sér ef verðtrygging yrði bönnuð eins og hugmyndir hafa heyrst um. Í sem styttstu máli sagt hefði slík aðgerð þau áhrif að langtímalán í íslenskum krónum myndu hverfa. Lán til langs tíma yrðu í erlendri mynt en skammtímafjármögnun yrði í íslenskum krónum áfram. Ástæða þessa er að sjálfsögðu sú að einu gildir hvort litið er til lífeyrissjóðanna, stofnanafjárfesta eða almennra sparifjáreigenda, enginn fjármagnseigandi mun leggja til þær innistæður sem þarf til að fjármálastofnanir geti lánað óverðtryggð langtímalán. Hvort slíkt umhverfi er lántakendum hagfelldara en núverandi skipan skal ósagt látið, hitt er ljóst að það er út í hött að gefa í skyn að ekkert breytist hjá lántakendum annað en að verðbótaþátturinn hverfi.
Umhverfismál eru í brennidepli um þessar mundir. Innihald orðsins er óskýrt og eflaust fer það mjög eftir hverjum og einum hvaða skilning hann leggur í það. Þannig er fortakslaust bann við hvalveiðum umhverfismál í huga þeirra sem harðast ganga fram á því sviði. Umræðan tengist ekki síst ætlaðri hlýnum á jörðinni vegna ýmissa aðgerða mannsins og þá einkum notkunar á jarðefnaeldsneyti. Frá því er greint í fréttum að vandinn vegna hlýnunarinnar komi verst við þá fátækustu í heiminum. En til að bregast við vandanum og draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti, er í vaxandi mæli farið að nota ræktarland til að framleiða korn eða annan jarðargróða sem síðan er gerjaður yfir í eldsneyti. Afleiðingin er hækkað kornverð, sem við finnum orðið verulega fyrir. Þetta hækkaða kornverð er beinlínis atlaga að lífkjörum margra þeirra snauðustu í heiminum. Það getur aldrei orðið friður um þá leið að bæta samvisku þeirra ríkari í heiminum með aðgerð sem gerir mat þeirra fátækustu dýrari.
 Í allri þessari umhverfisvernd fer lítið fyrir umræðunni um verndun þess sem er grunnur að allri matvælaframleiðslu, jarðveginum sjálfum, landinu sem tæki til að framleiða mat. Ef spár um hlýnum loftslags ganga eftir, þá getur afkastageta lands á Íslandi vaxið mjög verulega og við megum ekki gleyma því markmiði að varðveita gott/besta ræktunarlandið.


Kemur velmegun  þjóðar af sjálfu sér ?
 Það liggur fyrir að atvinnuástand á landinu hefur verið þannig síðustu missiri að þúsundir erlends verkafólks hafa komið til landsins og sinna lausum störfum. Þetta er væntanlega ein ástæða þess að áhersla í þjóðfélagsumræðu hér er allt önnur en þar sem barátta við atvinnuleysi er eitt helsta kosningamálið, og nægir þá líta til ýmissa Evrópulanda. Það má vera að þetta sé hluti af skýringunni á  þeirrar þungu umræðu sem verið hefur um verndartolla á búvörur á liðnu ári. Samfelld velmegun í áratug slævir vitundina fyrir því að ekkert kemur af sjálfu sér. Það má ekki gleymast að það er engu minna virði fyrir samfélag að halda því sem það hefur og skiptir máli til góðs, heldur en að fá eitthvað nýtt. Íslenskur landbúnaður, með öllu því sem hann leggur fram í störfum sem verða til við framleiðsluna, og í þeirri gæðaframleiðslu sem hann skilar íslenskum neytendum, hann skiptir máli.
 Munum samt að landbúnaður er ekki lögmál, heldur atvinnugrein. Það verður ekki framleidd mjólk á Íslandi ef sú starfsemi getur ekki greitt laun. Við erum í samkeppni um fólk og þá og því aðeins aflar hæft fólk sér menntunar og leggur eigur sínar að veði til að stunda mjög bindandi starf, að starfið gefi viðunandi afkomu.

Nýtt aðsetur LK
 Við héldum uppteknum hætti og færðum skrifstofu LK á starfsárinu, að þessu sinni frá Bitruhálsi 2 að Bitruhálsi 1. Við leggjum ekki upp úr þunglamalegri skrifstofu og því er þetta auðvelt viðfangs. Margrét Helga Guðmundsdóttir hefur hætt störfum hjá okkur og óskum við henni velfarnaðar.


Að lokum
 Um leið og ég lýk þessari skýrslu til aðalfundar Landssambands kúabænda árið 2007, vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum og stofnunum sem Landssamband kúabænda hefur átt samskipti við á liðnu starfsári. Svo sem undangengin ár hafa tengsl og samskipti við Guðna Ágústsson landbúnaðarráðherra og Drífu Hjartardóttur, formann landbúnaðarnefndar Alþingis verið góð og fyrir það vil ég þakka sérstaklega. Mikil samskipti hafa verið við SAM og hafa þau við verið með ágætum. Þá vil ég þakka stjórnarmönnunum Sigurði Loftsyni, Agli Sigurðssyni, Guðnýju Helgu Björnsdóttur og Jóhannesi Jónssyni mjög gott samstarf á starfsárinu. Sama gildir um varamennina Gunnar Jónsson  og Guðrúnu Lárusdóttur,  sem og framkvæmdastjórann Baldur Benjamínsson. Fyrir liggur að tveir stjórnarmenn gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Annars vegar Egill Sigurðsson sem er einn af stofnfélögum LK og hefur setið stjórnarfundi frá aðalfundi 1999. Fyrsta árið sem 1. varamaður en sem stjórnarmaður frá árinu 2000. Hins vegar Jóhannes Jónsson sem verið hefur stjórnarmaður frá því 2002. Þeim tveim vil ég þakka sérstaklega og óska velfarnaðar í vandasömu starfi á öðrum vettvangi.
 Megi aðalfundur Landssambands kúabænda skila góðu verki.