Beint í efni

Eitt Nýja-Sjáland á ári!

16.11.2012

Dagana 4. til 8. nóvember sl. var árleg ráðstefna alþjóðasamtaka mjólkuriðnaðarins, International Dairy Federation, haldinn í Höfðaborg í Suður-Afríku. Ráðstefnuna, sem ber heitið World Dairy Summit, sóttu um 1.200 fulltrúar kúabænda, fyrirtækja í mjólkuriðnaði og tengdum greinum frá öllum heimshornum. Var hún haldin í glæsilegri ráðstefnumiðstöð, Cape Town International Convention Centre og var aðbúnaður allur sem og skipulagning til mikillar fyrirmyndar. Að þessu sinni sóttu þrír Íslendingar ráðstefnuna, Bjarni Ragnar Brynjólfsson, skrifstofustjóri SAM, Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs MS og Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda. Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði eru aðildarfélag IDF.


 


 

20 milljarða lítra aukning


 


Árið 2011 var hagstætt til mjólkurframleiðslu á heimsvísu. Framleiðslan varð alls 749 milljónir tonna, aukning um 2,5%. Neysla mjólkurafurða jókst um rúmlega 1 kg frá fyrra ári og er 107 kg. Ísland, Finnland, Bretlandseyjar og Ástralía eru í sérflokki hvað varðar neyslu á mjólkurafurðum, yfir 300 kg á mann á ári. Neysla víða í Afríku og Asíu er innan við fimmtungur þessa en eykst mjög hratt. Til að halda í við árlega neysluaukningu, sem er að mestu tilkomin vegna aukins kaupmáttar íbúa í nýmarkaðsríkjum Suður-Ameríku og Suðaustur-Asíu, þarf að bæta við framleiðsluna sem nemur allri mjólkurframleiðslu Nýja-Sjálands. Á hverju einasta ári. Slíkt er ekkert áhlaupaverk.


 


Heimsmarkaðsverð hátt – aðfangaverð einnig


 


Allar líkur standa til að heimsmarkaðsverð mjólkurafurða verði hátt næsta áratuginn, því er t.d. spáð að smjörverð hækki um þriðjung fram til 2020. Það sem ræður heimsmarkaðsverðinu á hverjum tíma er jaðarkostnaður við þá framleiðslu sem þarf að bæta við árlega, 20 milljarðar lítra. Um þessar mundir er sá kostnaður tæplega 50 kr/ltr. Sú staðreynd að litlar sem engar opinberar birgðir mjólkurafurða eru lengur til, hefur aukið mjög á verðsveiflur á þessum markaði. Þær sveiflur hafa aukið áhuga vogunarsjóða á því að spila með þessar vörur. Hækkanir á fóðurverði undanfarin misseri eru farin að hafa talsverð áhrif á mjólkurframleiðsluna, sérstaklega í hinum vestræna heimi. Litlar líkur eru taldar á því að þær hækkanir gangi til baka á næstunni og óvíst er hversu miklu af kostnaðarhækkunum er hægt að velta út í verðlag afurðanna. Leitin að leiðum að bættum rekstri er því engan veginn lokið.


 


Mjólkuriðnaður í frumframleiðslu


 


Mikil gerjun er í rekstrarformi og eignarhaldi kúabúanna þessi misserin. Mjólkuriðnaðurinn, sérstaklega í þeim löndum þar sem vöxturinn er mestur, fjárfestir í auknum mæli í frumframleiðslunni sjálfri. Ástæður þessa er að vinnslufyrirtækin vilja stjórna framboðinu og tryggja gæði hrámjólkur sem víða er ábótavant. Dæmi um þetta er OLAM, stærsta mjólkursamlag Indónesíu, sem nýlega keypti öll hlutabréf í New Zealand Farming Systems Uruguay, sem rekur nokkur kúabú í Uruguay, með alls 72.000 kýr. Annað dæmi er kínverska samlagið Mengniu sem hyggst fjárfesta í mjólkurframleiðslu fyrir 60-70 milljarða í Innri-Mongólíu í Kína á næstu þremur árum til að koma upp 8-12 risavöxnum kúabúum. Í kjölfarið hyggst fyrirtækið hætta að sækja mjólk til smærri framleiðenda á svæðinu. Þá eykst stærð einstakra vinnslustöðva mjög hratt. Arla Foods UK er að reisa mjólkurpökkunarstöð í nágrenni London með vinnslugetu upp á einn milljarð lítra árlega. Bú í duftvinnslu hafa vinnslugetu upp á 200 þúsund tonn á ári, og ostabú eru ekki byggð fyrir minna en 100 þúsund tonn.


 


Vatn er olía 21. aldarinnar


 


Á ráðstefnunni var mjög mikil umfjöllun um vatnsmálin og áhrif mjólkurframleiðslunnar á vatnsbúskap. Það er ekki að undra, enda er landbúnaður langstærsti notandi ferskvatns á jörðinni og talið er að um 800-1.000 lítra af vatni þurfi til að framleiða einn lítra af mjólk. Ef svo fer fram sem horfir í aukningu á eftirspurn matvæla, verður eftirspurn eftir vatni 60% meiri en framboðið eftir 18 ár, árið 2030. Við því þarf að bregðast nú þegar. Talsmaður Nestlé, fjórða stærsta mjólkursamlags veraldar, kynnti áform félagsins um „vatnslaust“ mjólkursamlag, „Zer-eau“, sem nýtir sér þá staðreynd að mjólk er 88% vatn. Vinnslan þar verður með þeim hætti að ekki verður þörf á aðkeyptu vatni. Þá vekur það athygli að verulegur hluti af mjólkurframleiðslu heimsbyggðarinnar fer fram á svæðum þar sem vatn er af skornum skammti. Í því hljóta að felast tækifæri fyrir þjóð sem státar af mestu ferskvatnsbirgðum á íbúa í veröldinni.


 


Undir lok ráðstefnunnar gafst tækifæri til að heimsækja Welgegund búið í nágrenni Höfðaborgar. Það var í eigum fimm bræðra og var búskapurinn afar fjölbreyttur; 1.500 Holstein mjólkurkýr, 2.500 ha akuryrkja (hveiti á veturna og maís á sumrin), ásamt 120 ha vínrækt. Einnig átti fjölskyldan mjólkursamlagið Fair Cape, sem framleiddi drykkjarmjólk og jógúrt.


 


Fleiri atriði þessarar áhugaverðu ráðstefnu verða tekin til umfjöllunar í næstu tölublöðum Bændablaðsins./BHB


 


Pistillinn birtist í Bændablaðinu 15. nóvember 2012


 








Ráðstefnuhöllin – þar voru viðburðir bókaðir allt að 10 ár fram í tímann.


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


                                                                                                                              








Kvígur útivið í Western Cape héraðinu í Suður-Afríku


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 








Á Welgegund býlinu, fjósin fjögur til vinstri, hvert þeirra tók um 500 kýr. Það sem er lengst frá var í byggingu, þegar því lýkur verður rými fyrir 2.000 mjólkurkýr á búinu. Í byggingunni til hægri var mjaltahringekjan, mjólkurhús, móttaka og 30 manna fyrirlestrarsalur.


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 









Kýr á leið frá mjöltum. Mjólkað var þrisvar á dag, kl. 10 á morgnana, kl. 18 síðdegis og kl. 2 á nóttunni.


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 








Mjólkað var í 64 bása hringekju. Meðalnytin var 40 kg á dag og nythæsta kýrin mjólkaði heil 107 kg á dag!