Beint í efni

Vatnaskil í ræktunarstarfi

25.08.2014

Árið 2013 voru liðin 110 ár frá því að skipulegt kynbótastarf nautgripa hófst hér á landi, með stofnun nautgriparæktarfélaganna. Guðjón Guðmundsson, sem var þá nýráðinn nautgriparæktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands var einn af aðal hvatamönnunum að stofnun þessara félaga, en slík nautgriparæktarfélög höfðu verið stofnuð í Danmörku tæplega áratug fyrr. Hann samdi frumvarp til laga um nautgriparæktarfélög og í athugasemdum við það komst hann svo að orði: „í sambandi við framanritað frumvarp hefði átt vel við að fara hér nokkrum orðum um í hvaða ástandi nautgriparæktin er hjá oss nú. Til þess hef eg þó hvorki rúm né tíma í þetta sinn, en verð að láta mér nægja að gefa aðaleinkunn, án þess að rökstyðja hana nánara, sem er að nautgriparækt vor sé í hörmulegu ástandi“.


 


Ekki björguleg lýsing það. Næstu tímamót í nautgriparæktinni verða með tilkomu sæðinga árið 1946 þegar sæðingastöð SNE er stofnuð, en einmitt áratug áður voru fyrstu sæðingastöðvarnar stofnaðar í Danmörku. Um áratug síðar var farið að djúpfrysta sæðið og á áttunda áratugnum var sameiginlegri nautastöð komið á fót.


 


Á þessu ári eru síðan rétt 40 ár liðin frá því að núverandi kynbótaskipulag í nautgriparæktinni var sett upp. Það byggði á hugmyndafræði sem einn af frægari kynbótafræðingum síðari tíma, hinn norski Harald Skjervold setti fram á sjöunda áratugnum, um dreifðar afkvæmaprófanir á nautum. Megin atriði þess hafa staðið óhögguð fram á þennan dag, þó að markmið um vægi einstakra eiginleika hafi verið endurskoðuð reglulega.


 


Síðustu tímamót í ræktunarstarfinu hér á landi urðu síðan fyrir tæplega aldarfjórðungi, þegar teknar voru í notkun aðferðir sem gerðu það kleyft að reikna kynbótamat fyrir hvern einstakan grip, sem byggt var á upplýsingum frá honum sjálfum og öllu hans skylduliði. Þær aðferðir voru þróaðar af Bandaríkjamanninum Henderson, og voru teknar upp í flestum þróuðum löndum á níunda áratugnum. Þegar litið er til þeirra ræktunarframfara sem orðið hafa á síðustu 45 árum, má sjá að þær hafa að lang stærstum hluta orðið í kjölfar þess að framangreindar aðferðir við vinnslu á kynbótamati voru teknar upp. Við getum þakkað fyrir framsýni þeirra manna sem stóðu að því. Það er síðan annað mál, að ávinningur ræktunarstarfsins gæti verið fast að því helmingi meiri en hann er, ef full þátttaka væri í skýrsluhaldi og ekki síst sæðingunum.


  


Af þessari upptalningu má ráða, að það hefur verið gæfa íslenskra kúabænda til þessa, að þeir hafa náð að hagnýta þá hluti sem leitt hafa til mestra framfara í kynbótum á nautgripum um allan heim; félagslega uppbyggingu, rekstur sameiginlegar nautastöðvar, skilvirkt kynbótaskipulag og þróaðar úrvalsaðferðir. Það hefur m.a. orðið til þess að koma nautgriparæktinni úr því ástandi sem áður er lýst, yfir í að vera burðarásinn í landbúnaði á Íslandi.


 


Nú bendir hins vegar margt til þess að vatnaskil séu að verða í þessum efnum. Þegar litið er til þess sem er að gerast í nautgriparæktinni í löndunum í kringum okkur, er tvennt sem stendur uppúr.


 


Annars vegar er það innreið sameindaerfðafræðinnar í kynbótastarfið, með svokölluðu úrvali á grunni erfðamarka (e. genomic selection). Það byggir í stuttu máli á því að keyrðar eru saman niðurstöður DNA-greininga á gripunum og gögn úr hefðbundnum afkvæmaprófunum, eins og við þekkjum þau. Þetta gerir mönnum kleyft að ákvarða kynbótagildi gripanna með sæmilegu öryggi á fyrstu dögum ævi þeirra, í stað þess að bíða í 5-7 ár eftir niðurstöðum afkvæmaprófana. Til þess að öryggi matsins sé viðunandi þarf niðurstöður DNA greininga og afkvæmaprófana úr mjög miklum fjölda gripa, helst nokkur þúsund nautum, sem eru aukinheldur ekki mjög gamlar. Því er ekki til að dreifa hér á landi; nautafjöldi í afkvæmaprófun er á bilinu 25-30 á ári.


 


Þannig stendur kúabændum í nálægum löndum til boða að kaupa sæði úr „reyndum“ nautum, sem eru tveggja ára gömul, eða þar um bil. Þessar aðferðir munu leiða til þess að kynslóðabilið styttist verulega og erfðaframfarir aukast samhliða því. Þær er einnig farið að nota til að velja nautsmæður og ásetningskvígur af meira öryggi en áður.


 


Hitt atriðið er kyngreining á sæði. Aðferðir til þess hafa verið þekktar í nokkur ár og fer notkun á slíku sæði vaxandi í nágrannalöndunum. Með þeim er hægt að stýra kyni kálfsins; kvígukálfar til mjólkurframleiðslu og nautkálfar til kjötframleiðslu. Mér er minnisstæð heimsókn til kúabænda á Sjálandi fyrr á þessu ári sem hafa tekið þessa tækni í þjónustu sína. Nú geta þau verið nokkuð örugg um að fá kvígur til ásetnings undan bestu kúnum og 1. kálfs kvígunum. Með því móti myndaðist talsvert svigrúm til að sæða lakasta hluta kúnna með holdanautasæði og var það nýtt; blendingskálfarnir sem það skilaði af sér voru með tvöfaldan vaxtarhraða á við hreinræktaða kálfa af mjólkurkúakyninu, Jersey í þessu tilfelli. Ekki þarf að fjölyrða um hin fjárhagslega ávinning sem það felur í sér fyrir nautakjötsframleiðsluna.


 


Eins og í tilfelli hinna sameindaerfðafræðilegu aðferða, eru forsendur til kyngreiningar á sæði vart fyrir hendi hér á landi, þar sem nautin þurfa að vera lifandi þegar afkvæmadómur liggur fyrir. Slíkt er illframkvæmanlegt vegna kostnaðar. Þá sýnist óráðlegt að auka notkun einstakra nauta mikið frá því sem nú er, vegna hættu á skyldleikarækt, sem er þó orðin talsverð.


 


Til þess að hagnýta framangreinar aðferðir í þágu nautgriparæktarinnar hér á landi þyrfti að koma til erfðaefni erlendis frá. Slíkt hefur lengi verið til umræðu og sýnst sitt hverjum í þeim efnum. Það yrði því talsvert stór ákvörðun fyrir greinina. Það má líka færa gild rök að því að það væri stór ákvörðun að gera það ekki.


 


Undanfarinn áratug hefur sala mjólkurafurða farið vaxandi. Hefur aukningin verið tvöfalt hraðari á fitugrunni en á próteininu. Þróuninni undanfarin misseri má hins vegar líkja við sprengingu. Frá áramótum 2012/2013, fyrir réttum 18 mánuðum, nemur söluaukning á fitu 12 milljónum lítra, eða jafn miklu og ársframleiðsla mjólkur hér í Skagafirði. Þó að neysla mjólkurafurða geri ekkert meira en að fylgja íbúafjölgun og hóflegri aukningu ferðamanna, þá má alveg gera ráð fyrir að framleiðslan þurfi að aukast um 20-25% á næstu tíu árum.


 


Þar við bætist að á næstu árum mun umtalsverður hluti af framleiðsluaðstöðunni, fjósunum, úreldast. Fyrir utan að ekkert stenst tímans tönn, kemur þar einkum þrennt til: stærri bú þarf til að skila mannsæmandi afkomu, markmið bænda um bættan aðbúnað fyrir búpeninginn og kröfur um betri vinnuaðstöðu. Hér á landi þarf vandaðar byggingar yfir mjólkurkýr og fjármagnskostnaður er hár. Þar af leiðir að ný fjós þurfa að skila miklum afurðum; til að standa undir byggingakostnaði upp á 1,5 milljónir á kú, án uppeldisaðstöðu, þarf legubásinn að skila 7-9 þúsund lítrum á ári til að dæmið gangi sæmilega upp.


 


Málefni nautakjötsframleiðslunnar hafa verið mikið í deiglunni í sumar, þar sem innlend framleiðsla nær ekki að anna eftirspurn. Umtalsverður hluti nautgripakjötsframleiðslunnar kemur af mjólkurkúm og kálfum, sem hliðarafurð mjólkurframleiðslunnar. Hvernig árar í þeirri grein nautgriparæktarinnar hefur því óhjákvæmilega áhrif á framboðið. Fyrstu sex mánuði ársins voru flutt til landsins 540 tonn af nautakjöti, að andvirði nærri hálfur milljarður króna.


 


Haustið 2009 óskuðu samtökin eftir samstarfi við stjórnvöld um að leita leiða við að endurnýja erfðaefni holdanautastofnanna, Angus og Limousin, sem Landssamband kúabænda hafði forgöngu um að flytja til landsins árið 1994. Það hefur lengi verið mat LK að holdanautabúskapur eigi verulega vaxtarmöguleika hér á landi og sé lykillinn að aukinni framleiðslu á úrvals ungnautakjöti, sem vaxandi eftirspurn er eftir. Höfnun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á umsókn LK um innflutning á sæði úr Angus holdanautum frá Noregi nú fyrr í sumar voru því gríðarleg vonbrigði; sá innflutningur hefði veitt nauðsynlegu súrefni inn í greinina og sent mikilvæg skilaboð til framleiðenda um vilja stjórnvalda til að standa með henni.


 


Ráðherra hefur þó boðað að hann hyggist flytja frumvarp til breytinga á lögum um innflutning dýra á haustþingi, þannig að til verði svipaður farvegur fyrir kynbótastarf holdanautabænda eins og gerist í öðrum búgreinum. Þegar hefur verið unnin mikilvæg undirbúningsvinna; áhættumat Matvælastofnunar og tillögur að áhættuminnkandi aðgerðum. Þá hefur LK látið Veterinærinstituttet í Noregi vinna áhættumat fyrir samtökin varðandi innflutning á sæði frá Noregi. Niðurstaða þess er að slíkum innflutningi fylgi hverfandi áhætta.


 


Í því samhengi er gaman að rifja upp grein sem Guðmundur Gíslason læknir, sem síðar var kenndur við Keldur, þar sem nú er tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, skrifaði um búfjársæðingar í Búnaðarritið árið 1945, fyrir tæpum 70 árum:  Þess má geta, að það mun vera tiltölulega auðvelt að fá aðflutt kyn frá öðrum löndum með þessu móti [með sæðisinnflutningi], án þess að hætta sé á því, að sjúkdómar berist til landsins, en eins og gefur að skilja, má heldur ekkert til spara, að fyllsta trygging sé fyrir því. Stöðugt fæst meiri og fullkomnari vitneskja um hin beztu íslenzku búfjárkyn. Dreifing slíkra kynja og erlendra úrvalskynja, sem telja mætti, að væru okkur hentug, gæti áreiðanlega, ef hyggilega væri að farið, átt drjúgan þátt í því að koma búskaparháttum okkar í nýtízkuhorf.


 


Til að nautakjötsframleiðslan geti staðið á eigin fótum, þarf að skapa henni svipuð skilyrði og í nálægum löndum. Þar skiptir aðgangur að öflugu kynbótastarfi mestu: að bændur búi yfir gripum sem nýta fóðrið betur og skili góðum fallþunga á sem stystum eldistíma. Einnig er mikilvægt að styðja við uppbyggingu á aðstöðu heima á búunum, sem stuðli að aukinni fagmennsku í greininni. Þannig geta íslenskir bændur náð sínu mikilvægasta markmiði, sem er að þjóna innlendum markaði og hafa af því mannsæmandi afkomu.


 


Ávarp flutt á landbúnaðarsýningunni Sveitasæla í Skagafirði laugardaginn 23. ágúst 2014


 


Baldur Helgi Benjamínsson


Framkvæmdastjóri LK