Beint í efni

Passaðu kálfamjólkina

06.07.2013

Bæði hér á landi og erlendis er kálfadauði vandamál en nokkuð erfitt getur þó verið að bera saman tölur á milli landa þar sem skilgreiningin á „kálfadauða“ er nokkuð ólík. Flest lönd nota skilgreininguna „kálfadauði“ um kálfa sem fæðast lifandi en drepast einhvern tímann á fyrstu 180 dögunum eftir fæðinguna en sum lönd notast við fyrstu 90 dagana. Hér á landi var þetta hlutfall, miðað við 180 daga, 6,5% árið 2012 sem var sama hlutfall og var í Finnlandi (6,4%) árið 2012. Í Noregi var þetta hlutfall hins vegar afar lágt eða 3,3% en hæst var það í Danmörku (8,7%) árið 2012 svo dæmi sé tekið.

 

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á ástæðum kálfadauða en ein mest sláandi niðurstaðan er frá Danmörku þar sem fram kom að stór hluti skýringarinnar felst einfaldlega í hreint ótrúlega lélegum gæðum þeirrar mjólkur sem margir bændur fóðra kálfa sína með. Það var Íslandsvinurinn Rikke Engelbrecht, sem er helsti sérfræðingur Dana í fóðrun smákálfa, sem kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar nýverið en hún heimsótti mörg bú sem hafa háa tíðni kálfadauða. Niðurstöður hennar sýna að bæði voru kúabændurnir meðvitað og ómeðvitað að gefa kálfum sínum mjólk sem enganvegin var neysluhæf vegna slakra gæða en einnig breyttust gæði mjólkurinnar í mörgum tilfellum eftir að hún var sótt í kýrnar.

 

Þannig steig líftala mjólkurinnar stórlega í mörgum tilfellum frá því að hún fór frá kúnni og þar til kálfurinn drakk hana. Var skýringin oft óhrein mjólkurílát, óhrein mjaltatæki sem notuð voru fyrir frátökumjólk eða jafnvel óhreinar lagnir og dælur sem notuð voru við flutninga mjólkurinnar á stærri búunum. Rikke fullyrðir að skýringuna á slökum vexti, veikindum eða jafnvel dauða kálfanna megi rekja til bakteríumengaðrar mjólkur – nokkuð sem all auðvelt er að ráða bót á/SS.