Beint í efni

Ótrúlega mikill áhugi á Nýja-Sjálandsferð

08.09.2004

Í morgun höfðu 40 manns haft samband við skrifstofu LK vegna fyrirhugaðrar Nýja-Sjálandsferðar í febrúar nk. Þeir sem vilja geta látið skrá sig á lista „áhugasamra“ og verður haft samband við viðkomandi um miðjan október, en þá þarf að liggja fyrir ákvörðun um þátttöku í ferðinni. Þangað til er fólk sett á lista og fær reglulega upplýsingar um skipulag, verð og þh. Hægt er að skrá sig með því að senda tölvupóst til LK: lk@naut.is. Fyrstu drög að skipulagi ferðarinnar eru hér fyrir neðan.

Ferðatímabil: brottför á bilinu 18-22. febrúar 2005 og heildar ferðatími 12 dagar.

 

Markmið: að kynnast landbúnaði í Nýja Sjálandi m.a. með því að heimsækja mjólkur-, sauðfjár-, holdanauta-, dádýra-, korn- og ávaxtabændur, sem og fyrirtæki tengd þessum búgreinum. Jafnframt að skoða nokkrar af helstu náttúruperlum landsins.

 

1. dagur

Brottför frá Keflavík til London og áfram til millilendingarstaðar, líklega Singapúr eða Kuala Lumpur (Malasíu), þar sem gist verður yfir nótt. Sameiginlegur kvöldmatur alls hópsins.

 

2. dagur

Flogið frá millilendingarstað til Aukland í Nýja Sjálandi og ekið í rútu á hótel.

 

3. – 6. dagur

Ferðast um norður eyjuna með tilheyrandi heimsóknum og stoppum. Nýja Sjáland samanstendur af tveimur stórum eyjum og fjölmörgum litlum. Nyrðri eyjan er um 115 þúsund ferkílómetrar og tæplega 830 km löng. Á suðurhluta þessarar eyju eru víða virk eldfjöll og því má finna þar mikið af heitu vatni, sem og fallegum hverum. Lengsta á landsins (Waikato) og stærsta vatn landsins (Taupo) eru í norðureyjunni. Reikna má með gistingu á tveimur hótelum frá degi 1 til 6.

 

7.-10. dagur

Byrjað á því að sigla með ferju á milli norður- og suðureyju, yfir hið fræga Cook-sund. Syðri eyjan er um 151 þúsund ferkílómetrar og niður með vesturhluta hennar liggur hár fjallgarður þar sem fjallið Mount Cook stendur hæst í 3.754 m. hæð. Heimsóknir verða skipulagðar í takt við tímann, en 10. dagur endar í borginni Christchurch.

 

11. dagur

Flogið frá Christchurch til Aukland og áfram til millilendingarstaðar og gist þar yfir nótt. Þeir sem vilja dvelja lengur og ferðast um á eigin vegum geta t.d. tekið bílaleigubíl í Christchurch og tekið sér nokkra daga í það að ferðast til Aukland áður en haldið er heim á leið.

 

12. dagur

Flogið frá millilendingarstað til London og áfram til Keflavíkur. Reikna má með lendingu á Íslandi að kvöldi til.