Beint í efni

Opið fyrir umsóknir vegna þróunarverkefna búgreina

14.08.2023

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Afurð (www.afurd.is) fyrir þróunarverkefni búgreina. 

Umsóknarfresturinn er til 2. október 2023 og skulu umsóknir berast í Afurð.
Auglýst er eftir umsóknum tvisvar á ári og er þetta síðari úthlutun ársins.

Í nautgriparækt eru styrkhæf þau verkefni sem talið er að styrki íslenska nautgriparækt og feli í sér rannsóknir og þróunarverkefni.

Í sauðfjárrækt eru styrkhæf þau verkefni sem talið er að styrki íslenska sauðfjárrækt og falli undir kennslu, rannsóknir, leiðbeiningar og/eða þróun í sauðfjárrækt.

Í garðyrkju eru styrkhæf þau verkefni sem talið er að styrki íslenska garðyrkju og falla undir ráðgjafaverkefni, kynningaverkefni, rannsókna- eða tilraunaverkefni, vöruþróunarverkefni, verkefni sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og endurmenntunarverkefni.


Nánari upplýsingar

Samkvæmt reglugerð um almennan stuðning við landbúnað (nr. 430/2021) og reglugerð um stuðning við garðyrkju (nr. 1273/2020) er þróunarfjármunum ætlað að styðja við kennslu, rannsóknir, leiðbeiningar og þróun í nautgriparækt og sauðfjárrækt, sem og garðyrkju. Styrkþegar geta verið einstaklingar, rannsóknarhópar, háskólar, rannsóknarstofnanir, félög og fyrirtæki og skulu umsókn fylgja eftirtalin gögn, eftir því sem við á:

1. Listi yfir þá sem aðild eiga að verkefninu.

2. Yfirlit um tilgang og markmið verkefnis þ.m.t. rökstuðningur fyrir því hvernig það fellur að þeim markmiðum sem tilgreind eru í 33. gr. reglugerðar nr. 430/2021 eða 28. gr. reglugerðar nr. 1273/2020 og hvernig það gagnast viðkomandi búgrein að öðru leiti.

Í 33. grein reglugerðarinnar um almennan stuðning við landbúnað kemur fram að „Þróunarfjármunum er ætlað að styðja við kennslu, rannsóknir, leiðbeiningar og þróun í nautgriparækt og sauðfjárrækt“. 

Í 28. grein reglugerðarinnar um stuðning við garðyrkju kemur fram að "Fjármunum vegna þróunarverkefna er ætlað að styðja við kennslu, rannsóknir, leiðbeiningar og þróun í garðyrkju. Styrkhæf eru: Ráðgjafaverkefni, kynningarverkefni, rannsókna- eða tilraunaverkefni, vöruþróunarverkefni og endurmenntunarverkefni“. 

3. Tímaáætlun verkefnisins og upplýsingar um helstu áfanga þess.
4. Fjárhagsáætlun verkefnisins í heild.
5. Upplýsingar um hvernig niðurstöður verkefnisins verða kynntar.

Ráðuneytið og fagráð geta óskað eftir frekari gögnum sé þess þörf til að leggja mat á umsókn.
Allar nánari upplýsingar fást hjá ráðuneytinu.

Við hvetjum öll sem ætla sér að sækja um til að fara að huga að umsókn sinni og senda hana inn fyrir 2. október.